fbpx
Miðvikudagur 16.júní 2021
Fréttir

Kristinn reiður eftir að flugi hans var aflýst: „Við höfðum setið tæpan klukkutíma í fullskipaðri vélinni“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 12. júní 2019 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 20. maí síðast liðinn aflýsti spænska flugfélagið Vueling flugi sínu til Íslands, var það eina flugfélagið sem gerði svo þann daginn.  Ástæðan sem farþegum var gefin fyrir aflýsingu flugsins var sú að veðrið væri of vont. Hins vegar, eins og glöggir muna, þá var veðrið þann 20. maí með besta móti, sérstaklega með tilliti til íslenskrar veðráttu.

Kristinn R. Ólafsson, fyrrverandi fréttaritari RÚV, var meðal farþega og segir farir sínar ekki sléttar í grein sem hann birti fyrst á Facebook og fjallað var um á miðlinum túristi.is Kristinn ætlar að sögn aldrei að fljúga aftur með Vueling sem hann telur nota veðurskilyrði sem afsökun til að sleppa við bótagreiðslur til farþega.

Sátu klukkutíma í fullskipaðri vélinni

„Við höfðum setið tæpan klukkutíma í fullskipaðri vélinni,“ segir Kristinn. Engar skýringar höfðu borist farþegum sem voru farnir að undrast töfina. „Hvað var að gerast? Hvers vegna var ekki lagt af stað?“ Kristinn minntist þess þá að flugfélagið Vueling var þekkt fyrir að seinka og aflýsa flugi. „Nafnið jafn hörmulegt og orðspor félagsins. Samt hafði ég nú tekið þá áhættu að fljúga með því.“

„Á þessum válegu tímum er orðið erfitt að finna far á viðráðanlegu verði. Var ég nú að súpa seyðið af því að spara eyrinn?“

Kristinn fletti þá upp Vueling á netinu og fann þá grein sem fjallaði um að Vueling væri þekkt fyrir að aflýsa flugi til Keflavíkur vegna veðurs. Og viti menn. Skömmu síðar kom yfirlýsing frá flugstjóra:

„Góðir farþegar. Okkur þykir leitt að þurfa að tilkynna að þessu flugi hefur verið aflýst vegna slæms veður á áfangastað. 

Kristinn fór á vef Veðurstofunnar og sá að samkvæmt spánni var blíðskaparveður í Keflavík á áætluðum lendingartíma. „Leikurinn æstist. Fólk hafði frammi mótmæli; þó engan hávaða eða læti. Ég var staðinn upp.“ Kristinn sneri sér að flugliða og spurði:

„Hvað er í gangi?“ 

„Ja, það er bara veðrið.“ 

„VEÐRIÐ? Ekkert að því, sagði ég og rak símann framaní flugþjón. Hann setti upp pókerfés, lét engan bilbug á sér finna.“ 

Flugliðinn bar því við að aflýsingin væri gerð til að tryggja öryggi farþega vegna slæms veðurs. Kristinn ákvað að gera ekki illt verra.

„Ég þorði ekki að fara uppá háa séið; vildi ekki láta handtaka mig fyrir flugdólgshátt. Nógur var hann nú samt hjá þessu flugfélagi.“ 

Fyrirlitningarþérun

Farþegar voru þá beðnir um að yfirgefa flugvélina, en í hamaganginum gleymdi Kristinn töskunni sinni og þurfti því að snúa aftur inn í vélina þegar allir aðrir farþegar voru komnir út. Þá hitti hann fyrir flugstjórann og aðstoðarflugmanninn og gat ekki setið á sér. Hann rak þá síma sinn, með veðurspánna opna, framan í þá og sagði:

„Hvernig getið þér – ég gætti þess að nota einskonar fyrirlitningarþérun á manninn þótt ég hefði alveg getað þúað hann enda ég miklu eldri svosem á grönum má sjá en þetta skeggjaða ungmenni í flugstjóramúnderingunni – borið annað eins á borð á þessum tímum Internetsins þegar maður getur séð í handarveifi hvernig veðrið er og verður í kvöld í Keflavík klukkan níu þegar við hefðum átt að lenda? Það er ekkert að veðri í Keflavík í kvöld!“

„Það var ekki örgrannt um að það kæmi á manninn sem bjóst hvorki við því að þessi óspánverjalegi lubbi sem þarna drattaðist síðastur út kæmi upp orði á spænsku né að hann færi að efast um sannleiksgildi orða hans.“ 
Flugstjórinn bar því þá við að veður væri slæmt á varaflugvelli og því væri ekki hægt að hætta á að fljúga.
„Sí, sí…“ svaraði ég og reyndi að lita síin hæðnistóni. „Verið þér sælir, herrar mínir. Njótið kvöldsins.“

Lygasaga sem auðvelt er að sjá í gegnum

Flugfélagið afhenti farþegum ávísun fyrir hótelgistingu og sagði þeim að snúa aftur morguninn eftir. Þá yrði flogið til Keflavíkur. Gekk það og eftir, þó svo Kristni hafi þótt það mikill skrípaleikur þegar flugstjórinn ítrekaði að fyrra fluginu hefði verið aflýst vegna veðurs og flugfélaginu þætti það miður. Djöfull…Það er enn verið að setja á svið sama leikritið!
Eftir áfallalaust flug til Íslands ákvað Kristinn að kynna sér málin betur. Ráðfærði hann sig við flugfróða og komst að því að veðrið hefði verið gott á varaflugvelli líka. Hins vegar væri Vueling þekkt fyrir að aflýsa flugi á grundvelli  veðurs. En hvers vegna ?

Hversvegna setur Vueling upp þetta leikrit – þessa lygasögu sem svo auðvelt er að sjá í gegnum?“

Að mati Kristins er líklegasta skýringin sú að þegar flugi er aflýst vegna veðurs þá skapast engin bótaskylda hjá flugfélaginu, en týpískar bætur fyrir flug á borð við Íslandsflug Kristins væru að minnsta kosti 400 evrur, eða tæpar 60 þúsund íslenskar krónur.
„Engar bætur þarf að greiða ef flugi er seinkað eða því aflýst af óviðráðanlegum ástæðum eins og vondu veðri. Og ódýrara að leigja rútur og senda farþega á hótel eina nótt, ÁN kvöldverðar; maður talar nú ekki um ef flugfélagið kann að hafa gert sérsamninga við tiltekin hótel. Og síðan treystir það á að fáir standi í því veseni að leita réttar síns og kría út bætur. Það hygg ég að sé mergurinn málsins.

Eitt er víst: ég ætla aldrei að fljúga með Vueling aftur!“ 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samfélagsmiðlar loga vegna #MeToo – „Hvað er það annað en gróft ofbeldi þegar einstaklingur safnar liði og ræðst á einn“

Samfélagsmiðlar loga vegna #MeToo – „Hvað er það annað en gróft ofbeldi þegar einstaklingur safnar liði og ræðst á einn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

25.000 bóluefnaskammtar í vikunni – Töluvert um yfirlið í bólusetningum

25.000 bóluefnaskammtar í vikunni – Töluvert um yfirlið í bólusetningum