fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Fyrrverandi flugþjónn WOW Air rifjar upp eftirminnilegasta flugið: „Ég horfði yfir farþegarýmið og sá alla farþegana stara á mig“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. júní 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flugþjónn sem vann hjá WOW Air um nokkurra ára skeið sendi DV nýverið pistil um sitt eftirminnilegasta flug á ferlinum. Um er að ræða hans fyrsta flug sem svokallaður „senior cabin crew“ starfskraftur, en þeirri stöðu gegna þeir sem hafa reynslu af störfum í háloftunum og bera meiri ábyrgð en nýliðarnir.

Flugþjónninn vill ekki láta nafn síns getið, en í pistlinum má lesa um góðar minningar hjá WOW Air en einnig skemmtilega sögu af stuðningsmönnum íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Við gefum flugþjóninum orðið.

Fyrsta „senior“ flugið

Ég steig upp í flugrútuna og leit yfir áhöfnina. Það voru allir mættir sem voru partur af mínu „crew“-i. Tékk. Heilsaði, fékk mér sæti og byrjaði að fara yfir alla punktana sem ég hafði skrifað í nótubókina mína daginn áður. Ég er ekki að gleyma neinu. Þetta verður gott flug. Ég fór yfir „Pre-flight briefing“-una mína. Ég ætla að taka fyrir hurðar og „decompression“. Allt klárt. Er samt með smá hnút í maganum. Við erum komin upp á völl. Förum í gegnum vopnaleitina og upp að hliðinu. Ég fæ farþegatöl. Það er næstum full vél. Við erum á útihliði. Við förum upp í rútu og brunum af stað í átt að vélinni. „Pre-flight briefing“-in gekk vel. Mér er tilkynnt af flugvallarstarfsmanni að fyrsta rútan sé á leiðinni. Frábært, svara ég og læt áhöfnina vita. Rútan stoppar fyrir utan og farþegarnir streyma að vélinni. Það er komið að þessu. Mitt fyrsta flug sem „Senior Cabin Crew“.

Ég heilsa fólkinu. Það eru allir í góðu skapi. Enda ekki annað hægt. Sólin skín og allt stefnir í að við séum á undan áætlun. Fólk er varla búið að fá sér sæti þegar næsta rúta nemur staðar fyrir utan flugvélina. Glæsilegt. Skotgengur. Farþegarnir í góðum gír og flug virðist ætla að vera í þægilegri kantinum. Sem er frábært. Gott að byrja á rólegu flugi. Við teljum farþega. Það vantar enn 19 manns. Ég spyr flugvallarstarfsmann hver staðan sé á síðustu rútunni. Hún er víst á leiðinni. Í þeim töluðu orðum birtist rútan. Hurðin á rútunni opnast og mér er smá brugðið. Út úr rútunni koma nítján grjótharðir stuðningsmenn íslenska landsliðsins í knattspyrnu syngjandi, haldandi á bjórdós í vinstri og trommum í þeirri hægri. Þetta var Tólfan! Auðvitað, strákarnir okkar eru að spila við Holland á morgun. Ég er sjálfur mikill fótboltaunnandi og það var minn draumur að verða atvinnumaður þegar ég var yngri. Og mér finnst Tólfan frábær. En í fyrsta fluginu mínu sem Senior. Ég veit ekki? Ég stoppa fremsta stuðningsmanninn og segi: „Mér þykir leitt að tilkynna ykkur það en það má víst ekki koma með bjór um borð“. Hann lítur á mig, brosir og horfir svo yfir hópinn. „Strákar við megum víst ekki taka bjórinn með okkur um borð“. Þeir svöruðu allir á sama tíma líkt og þeir væru einn maður: „Okei“.

Þeir héldu svo áfram að syngja og ég sá skelfingarsvip færast yfir farþegana sem voru komnir um borð. „Hvað var eiginlega í gangi?” hljóta þeir að hafa hugsað. Skrúðgangan gekk svo inn í vél og borðið við hliðina á mér fylltist af hálftómum bjórdósum. Þetta minnti mig helst á atriði úr bíómyndinni „Stella í orlofi“ þegar Lionsklúbburinn Kiddi mætti upp í bústað til Stellu. Allir svo kátir og tilbúnir í fjörið.

Tólfan fékk sér sæti og það var komin tími til að fara yfir öryggisatriðin um borð.

Ég gríp hljóðnemann og tilkynni farþegum að nú væri gott að fylgjast vel með. Ég bjóst ekki við því að fá mikla athygli þar sem það voru mikil læti um borð en ég var varla búinn að sleppa orðinu þegar allt varð hljótt. Ég horfði yfir farþegarýmið og sá alla farþegana stara á mig og fann þó mest fyrir þessum nítján bláu andlitum sem sátu fremst í vélinni. Mér leið eins og ég hafði „mute“-að þá með fjarstýringu. Athyglin var algjör. „Ég vona að ég standi mig vel,“ hugsaði ég. Um leið og kynningin var búin mætti halda að ég hafi skorað mark í fótboltaleik því fagnaðarlæti brutust út og ætlaði aldrei að linna. Aðrir gestir voru líka byrjaðir að taka þátt í fjörinu.

Vélin tók á loft og trommuslátturinn ómaði. Flugið leið hratt fyrir sig. Ekkert vesen, allir kátir. Rétt fyrir lendingu bið ég fólk að fá sér sæti og spenna beltin. Allir hlýða nema einn meðlimur Tólfunnar sem gengur að mér. Ég reikna með því að hann vilji nota salernið sem ekki er í boði rétt fyrir lendingu. Hann hallar sér niður að mér og spyr: „Fyrirgefðu, en hvað heitirðu fullu nafni?“ Ég segi honum það og hann gengur í burtu og fær sér sæti. Allt í einu kallar hann nafnið mitt upphátt svo allir heyra. Þá byrja allir meðlimir Tólfunnar að syngja þekkt stuðningsmannalag þar sem þeir bættu nafninu mínu við. Ég brosti út að eyrum og ekki skemmdi fyrir að flestir íslenskumælandi farþegarnir um borð tóku undir með þeim. Í beinu beinu framhaldi tók svo víkingaklappið við.

Flugvélin nam svo staðar á Schiphol í Hollandi. Tólfan og aðrir farþegar yfirgáfu vélina skælbrosandi. Ég var ekki bara sáttur við að fyrsta flugið mitt sem senior hafi gengið áfallalaust fyrir sig heldur fékk ég einnig að upplifa part af draumum mínum úr bernsku. Ég fékk að kynnast því hvernig atvinnumönnum í fótlbolta líður þegar þeir standa sig vel.

Takk Tólfan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala