fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Þetta eru laun leigubílstjóra: „Það er verið að svipta 610 einstaklinga atvinnunni og ráða upp á nýtt á mun lægri launum“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 31. maí 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar liggur nú fyrir í samráðsgátt alþingis. Leigubílstjórar hafa gagnrýnt frumvarpið sem þeir telja að muni kollvarpa atvinnugrein þeirra. Verði frumvarpið að lögum verður afnumin svonefnd takmörkunarsvæði og stöðvaskylda. Þar af leiðandi verður greiður aðgangur að markaðnum fyrir nýja aðila. Margir hafa talið að erlendu leiguþjónusturnar Uber og/eða Lyft muni þá koma til landsins. Einar Árnason, formaður bílstjórafélagsins Fylkis, ræddi við blaðamann um frumvarpið og hvaða áhyggjur það veldur starfandi leigubílstjórum.

Með frumvarpinu er ætlunin að jafna samkeppnislega stöðu í leigubílaakstri og tryggja greiðari aðgang nýrra aðila á markaðinn. Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnti íslenskum stjórnvöldum í janúar 2017 að stofnunin hefði hafið athugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi.  Eftirlitsstofnunin gagnrýndi lagaumhverfið í Noregi, sem svarar mikið til þess íslenska. Fjöldatakmarkanir fæli í sér ólögmæta takmörkun að atvinnugreininni  en  einnig var sett út á stöðvaskylduna.

Það verður að vera stöð

Einar telur að með þessum breytingum verði fótunum kippt undan lífsviðurværi þeirra leigubílstjóra sem starfa á Íslandi í dag og sömuleiðis verði vegið að öryggi farþeganna. Stöðvaskyldan sé sérstaklega mikilvæg til að tryggja öryggi og neytendavernd.

„Til dæmis í dag ef þú færð þér far með tiltekinni stöð, þá ef þú lendir í einhverju á leiðinni þá hefurðu þann möguleika að hringja inn á stöðina og leggja fram kvörtun. Stöðin getur þá fundið út hver keyrði þig og getur tekið málið til skoðunar. Ef farþegi telur ökumann hafa ofrukkað sig, svo dæmi sé tekið, þá er hægt að krefjast endurgreiðslu með því að leita til stöðvarinnar.  Þegar stöðvaskyldan er farin þá er engin stöð sem getur gengið á milli í svona málum og ekki víst að farþegi geti yfir höfuð komist að því hver keyrði hann þetta tiltekna skipti. Þá er þessari neytendavernd kippt í burtu.“

„Þetta kemur stundum fyrir. Ég veit um dæmi um bílstjóra sem hefur orðið uppvís af því að ofrukka. Þar sem hann er á stöð þá gat farþeginn leitað þangað og ökumaðurinn var í kjölfarið tekinn á teppið. Það kemur fyrir að eldra fólk sem er að taka leigubíl hérna réttir fram búnt af 10 þúsund köllum og heldur að það hafi verið að telja þúsund kalla. Það hefur komið fyrir að maður hafi tekið það. Hann fannst af því að hann er á stöð. Öryggið er stöðin. Það er það sem við erum að leggja mestu áhersluna, þrátt fyrir að með því að afnema fjöldatakmörkun þá séum við að líkindum að missa okkar lífsviðurværi. Við leggjum áherslu á stöðina því þar er öryggið fyrir farþegann.“

„Hver á að tryggja öryggi þeirra sem taka leigubíl heim af skemmtunum, til dæmis, ég hugsa mikið um það. Það er nánast um hverja einustu helgi sem að einhver sofnar áfengissvefni í leigubifreið. Þá þarf að aka þeim til lögreglu sem sér um að vekja viðkomandi því við leigubílstjórar getum ekki komið við hann. Hvað gerist ef enginn er að fylgjast með? Ef það er ekki hægt að rekja hver ók bílnum? Myndi fólk treysta sér til að senda 13 ára barnapíu heim með leigubíl þegar það er engin leið til að tryggja öryggi hennar? Ég á fimm börn og ég myndi ekki þora því með neitt þeirra.

Það er þó ekki svo að leigubílstjórar séu alfarið á móti breytingum. Þeir séu hins vegar verulega á móti því að stöðvaskyldan verði afnumin.

Fjöldatakmarkanir afnumdar

Þau rök sem hafa verið lögð fram fyrir því að fjöldatakmarkanir á leigubílstjóraleyfum verði afnumin mið að því að greiða aðgengi nýrra aðila að starfsgreininni og stuðla að betra samkeppnisumhverfi. Neytendur muni njóta góðs af því þar sem samkeppnin muni lækka verð.

Þessu er Einar ósammála. Samkeppnin geti ekki lækkað verð þar sem verði sé þegar stillt í hóf og megi varla við því að lækka. Kostnaðurinn sem leigubílstjórar þurfa að greiða er það mikill að svigrúm til lækkana sé lítið sem ekkert. Það sama muni gilda fyrir aðra sem komi inn á markaðinn með þeirri þó viðbót að engin trygging verði fyrir því að þeir þéni nægilega mikið á mánuði til að greiða sjálfum sér laun þar sem þessi samkeppni mun fyrst og fremst bitna á lífsviðurværi starfandi leigubílstjóra, en ekki skila sér í vasann til neytandans. Gífurlegan rekstrarkostnað leigubílstjóra má sjá hér neðst í umfjölluninni.

Í dag eru 610 leigubílstjórar með leyfi og lifibrauðinu verður kippt af þeim, verði frumvarpið að lögum.

„Það er verið að svipta 610 einstaklinga atvinnunni og ráða upp á nýtt á mun lægri launum.“

Skutlarar ekkert alltaf ódýrari

Svokallaðir skutlarar eru farnir að verða fyrirferðamiklir á höfuðborgarsvæðinu. Þeir auglýsa sig í gegnum Facebook síður og ákvarða verð fyrir einstaka ferðir af geðþótta. Einar segir að hann sé farin að heyra af því að skutlarar verðleggi sig jafnvel hærra en leigubílar. Einar hafi fengið til sín farþega í ferð sem kostaði um 3100 krónur sem greindi honum frá því að hann hefði fengið boð frá skutlara upp á 3500 fyrir sömu ferð.

„Það alvarlega við þetta allt saman er að það getur hver sem er hringt í þig með brennivín, dóp og jafnvel vændi. Þarna er ekkert öryggi“

Skutlarar séu jafnframt í þeirri sérstöðu að hafa gott svigrúm til að bjóða betur en leigubílar. Þetta sé svört starfsemi sem þeir greiði engan kostnað vegna.

„Skutlararnir borga hvorki skatta né tryggingar né neitt annað. Ef þeir þyrftu að gera það, þá væru þeir dýrari.“

Svo er náttúrulega baráttan við þessa skutlara út í hött. Að við skulum vera að berjast við bæði fólk sem er í allskonar ástandi og fólk sem borgar ekkert skatta og skyldur og það skuli bara fá að viðgangast.“

Segist Einar vita um tilfelli þar skutlarar hafa verið teknir af lögreglu og reynst undir áhrifum við aksturinn, þetta sé alvarlegt og stórhættulegt.

Breytingar gætu þýtt hærra verð fyrir leigubílaferðir

Hefðbundinn dagur leigubílstjóra gæti litið eftirfarandi út, en þarna miðar Einar við sjálfan sig en hann gerir út frá Keflavík:

„Fyrsti túrinn minn var um klukkan 7 um morguninn. Ég fékk svo annan um 10 leytið. Sá rúntur var aðeins yfir á næstu bílaleigu og kostaði farþegann 1200 krónur. Næsta túr fékk ég að mig minnir um fjögur leytið en hann var alla leið í bæinn. Sá kostaði 16 þúsund krónur. Þá þurfti ég að ákveða hvort ég myndi hinkra við í bænum og vonast eftir að fá farþega með mér aftur til Keflavíkur, eða að keyra þangað aftur með bílinn tómann.“

Slíkar ferðir kallast dauðar ferðir, sem getur orðið stór hluti af akstri leigubifreiðar. Þeir bílstjórar sem gera út á nóttunni um  helgar keyra frá miðbænum með farþega á áfangastað og keyra svo með bílinn tóman til baka til að finna næsta farþega.

Með því að afnema stöðvaskylduna gæti, samkvæmt Einari, verðið jafnvel hækkað. Stöðvarnar setja sér viðmiðunarverð sem bílstjórar verða að virða. Engin stöð gæti því þýtt ekkert verðþak. Að halda stöðvaskyldunni þykir Einari svo mikilvægt að hann gæti mun fremur séð fyrir sér að takmarkanir að atvinnugreininni verði rýmkaðar eða afnumdar, þó svo að það hafi í för með sér að ómögulegt verði þá fyrir leigubílstjóra að hafa í sig og á, en stöðvaskyldan varðar öryggi almennings og henni verður að halda.

Mikill kostnaður

Í útreikningum á tekjum og  kostnaði sem fylgir með þessari umfjöllun er gert ráð fyrir að 40% af akstri leigubíla séu dauðar ferðir. Eins og sjá  má er reikningurinn miðaður við hefðbundna vinnuviku en Einar segir að leigubílstjórar keyri sjaldnast það lítið, yfirleitt vinni þeir mun meira til að hífa upp tekjurnar.  Þessar 301.699 krónur sem gert er ráð fyrir í laun hér að neðan eru brúttó-tekjur. Þá á eftir að draga frá þeim skatt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala