fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Þóra Friðriksdóttir er látin – „Auðvelt að kalla fram fallegu spékoppana í brosi Diddu“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 23. maí 2019 12:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þóra Friðriksdóttir, ein ástsælasta leikkona Íslands, er látin. Hún var á 87. aldursári. Þjóðleikhúsið minnist hennar á Facebook.

„Þóra Friðriksdóttir leikkona lést 12. maí síðastliðinn á 87. ald­ursári og verður útför hennar gerð frá Dómkirkjunni þann 23. maí. Þóra starfaði við Þjóðleikhúsið í um hálfa öld og lék hér yfir 80 hlutverk. Þjóðleikhúsið þakkar Þóru fyrir samfylgdina í gegnum árin og framlag hennar til leiklistarstarfs í Þjóðleikhúsinu, og sendir jafnframt aðstandendum innilegar samúðarkveðjur,“ segir í færslu leikhússins.

Ásamt því að leika í leikhúsinu lék Þóra í ýmsum kvikmyndum, þar á meðal Atómstöðinni og Foxtrot. Eftirminnilegasta hlutverk hennar hlýtur þó að vera mamman í Sódóma Reykjavík.

Í Morgunblaðinu í dag minnast margir Þóru, en þar á meðal er rithöfundurinn Arnaldur Indriðason. Hér fyrir neðan má lesa minningargrein hans.

Nornin reis upp úr gólfinu á sviði Þjóðleikhússins með stóran oddmjóan hatt á höfðinu og öll græn í framan og eiturgufur stigu upp með henni til þess að gera hana enn og meira agalega. Ég hafði ekki orðið eins hræddur um dagana. Eina huggunin var sú að Didda frænka var þarna á sviðinu og lék góðu nornina og þá fannst mér að ég ætti bandamann. Bríet var vonda nornin og Bessi var fuglahræðan og Margrét var Dórótea og þannig er fyrsta minningin mín um leikhús.

Þetta var heimur Diddu. Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu. Og allir spennandi leikararnir sem voru vinir hennar. Stóru hlutverkin og gervin öll og frumsýningarnar og slúðrið þegar við settumst við kræsingarnar á jóladag og vissum allt um allt sem gerðist fyrir jólafrumsýninguna. Didda hafði yndi af leiklistinni en stóra sviðið fylgdi henni ekki heim öðruvísi en sem sögubrunnur. Ég veit varla hlédrægari listamann. Hæglátari leikara. Nema þá Nonna, sem hún giftist og átti með Löllu og Stínu. Í okkar augum var hún Didda frænka en ekki ein af fremstu leikkonum þjóðarinnar sem var eins og heima hjá sér í mest krefjandi hlutverkum leikbókmenntanna og átti farsælan leiklistarferil sem spannaði áratugi og aðrir kunna á betri skil. Hún lét mann aldrei finna að starf hennar væri eitthvað merkilegra en hvað annað sem við tókum okkur fyrir hendur.

Í túlkun hennar brá sjálfsagt fyrir svipmyndum úr lífi Reykjavíkurstúlku sem ólst upp á borgaralegu heimili á Vesturgötu þegar dunuðu jarðarstríð og heyra til minningum sem óðum eru að hverfa úr fjölskyldunni. Við mamma sátum hjá Diddu núna fyrir páska og maður sá að það var heldur af henni dregið þótt hún léti ekki á neinu bera þegar við töluðum um Þóru ömmu þeirra og Sigurð héraðslækni og Láru móður þeirra og Nóatúnið og Knudsenana og hvað þeir væru alltaf skemmtanaglaðir. Svo hlógu þær og þetta reyndist vera í síðasta sinn sem maður sá inn í þau gömlu tryggðamál með báðum þeim systrum af Vesturgötunni.

Það var auðvelt að kalla fram fallegu spékoppana í brosi Diddu hvernig sem allt velktist. Þannig kvaddi hún okkur og þannig munum við hana. Blessuð sé minning Diddu frænku

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“