fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Íslenskar konur í lögmennsku lýsa mismunun, fordómum og fyrirlitningu

Auður Ösp
Miðvikudaginn 15. maí 2019 20:00

Í málinu var meðal annars deilt um framgöngu lögmanns. Myndin er úr dómssal Hæstaréttar og tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ung íslensk kona sem starfar sem lögfræðingur hér á landi segist hafa orðið vör við að sumir skjólstæðingar séu að leita að hörðum lögmanni og efist um að kona, sérstaklega ung kona, geti verið hörð. Önnur segir að sem kona þurfi hún að leggja meira á sig en karlkyns kollegar hennar til að hafa rödd. Enn ein nefnir sem dæmi að hún hafi fengið að heyra athugasemdir á borð við: „Vinur minn sagði að það væri langbest að vera með karlkyns lögmann, þeir eru svo miklir hákarlar“.

Konurnar þrjár voru meðal viðmælenda Birnu Gísladóttur í tengslum við lokaritgerð hennar til MS-gráðu í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Viðfangsefni ritgerðarinnar er konur í lögmennsku á Íslandi og upplifun þeirra af því að sitja við samningaborðið.

„Það sem kom mér helst á óvart er að það sé enn til staðar aðstöðumunur kynjanna, að konur virðast oft og tíðum þurfa að sanna sig frekar en karlmenn til þess að öðlast rödd og þær sæta harðari gagnrýni, jafnvel óvæginni,“ segir Birna í samtali við DV. Í tengslum við rannsóknina ræddi Birna við níu íslenskar lögfræðimenntaðar konur og tekur hún fram að um sé að ræða persónulega upplifun kvennanna og því sé ekki hægt að alhæfa slíkt um lögmannastéttina.

Birna segir að svo virðist sem konur þurfi oft og tíðum að leggja meira á sig en karlmenn til þess að öðlast traust, trúverðugleika og framgang.

Birna Gísladóttir.

„Ég stóð í þeirri meiningu að við værum komin lengra varðandi jöfn tækifæri kynjanna og viðhorf samfélagsins, en gamalgrónar hugmyndir um kynin og einhver stemning sem við höfum ekki náð að losna við, virðast orsaka þennan veruleika sem konur búa við. Þrátt fyrir að miklar breytingar hafi vissulega náð fram að ganga er viðskiptalífið enn mjög karllægt sem aftur viðheldur þessum aðstöðumun kynjanna að mínu mati.“

Flestar kvennanna sem Birna ræddi við sögðu konur oft dæmdar í harðara ljósi og margar tóku dæmi um að ákveðin kona væri talin „frekja“ eða að ekki væri hægt að vinna með henni ef hún sýndi festu og ákveðni.

„Kill them with kindness“

„Þetta er eitthvað sem ég rek mig stundum á, sérstaklega hjá eldri lögmönnum. Að ef það eru fleiri við borðið þá er horft framan í karlinn sem er hinum megin við borðið en ekki konuna sem situr hinum megin við borðið,“ segir einn af viðmælendum Birnu. Sama kona segir að í tengslum við Metoo-byltinguna hafi hún leitt hugann meira að aðstöðumun kynjanna og orðið ljóst að hún hafi verið að „aðlaga sig að þeim leikreglum sem hafa verið í boði fyrir stelpur“. Þá talar hún um að konur „nýti sér kannski þá samningatækni að vera meira næs og lýsir aðferðinni sem „kill them with kindness“.

Ein kvennanna segist hafa upplifað að ekki sé hlustað á hana eða hún hunsuð en þá sýni hún festu, minni á sig og biðji viðkomandi að láta þetta ekki koma fyrir aftur.

„Konur hafa átt erfitt uppdráttar í að láta hlusta á sig, þær þurfa svolítið að búa til virðingu og sanna sig, sem karlar fá kannski fyrir fram gefið.“

Strákarnir fengu „fínu störfin“

Einn af viðmælendunum lýsir því hvernig mismunun kynjanna hefst strax í laganáminu.

„Strákar soguðu sig að prófessorum í lagadeild, aðstoðuðu þá og svo framvegis. En engin stelpa gerði það, því þá hefði hún fengið á sig þann stimpil að hún væri að reyna við viðkomandi prófessor. Þar af leiðandi fengu strákarnir fínu meðmælin og fínu störfin, „þannig að það tekur rosalega langan tíma að vinda ofan af þessu.“

Önnur lögfræðimenntuð kona sem rætt var við nefndi sem dæmi að hún hefði margoft lent í því að vera ekki svarað í tölvupóstum, heldur karlinum, ef um er að ræða hóppóst. Sagðist hún hafa verið svo lengi í faginu að hún væri hreinlega hætt að nenna að spá í þetta. Sagðist hún telja það almennt eiga við konur í lögmannastétt.

Þá kemur fram að margar kvennanna tali um að konur hafi almennt minni sveigjanleika og mæti minni skilningi, að þeim sé refsað frekar fyrir mistök á meðan karlar mæti meira umburðarlyndi hvað það varðar.

„Ef þú ert kona þá þarftu bara einu sinni að klúðra einhverju og þá ertu bara búin að vera.“

Þá nefna sumar kvennanna að þeirra upplifun sé sú að konur mæti oft betur undirbúnar til samningaviðræðna.

„Þetta á ekkert eingöngu við um samningaborðið, heldur bara almennt. Við leyfum konum að gera færri mistök áður en við tökum þær af lífi. Og almennt gerum við þá kröfu að konur séu samviskusamar og hafi unnið allt vel, komi undirbúnar og körlum leyfist almennt frekar að, svona kannski, kasta aðeins til höndunum. Að því leyti til er skrýtið að maður velti þessu yfir á samningaborðið, að þú gerir í rauninni meiri væntingar til þess að konan sé undirbúin heldur en karlinn,“ segir ein kvennanna.

Fá ekki að vera með í „karlaklúbbnum“

Þá tala flestar konurnar um að það halli á konur í tengslum við tengslanet og tækifæri, að tengslanetið sé oft sterkara hjá körlum. Félagar eða vinir af golfvellinum, úr íþróttafélögum eða bara æskuvinir sem raðast í stjórnunarstöður hjá fyrirtækjum og leita í félagana. Ein þeirra bendir á að margar viðskiptaákvarðanir séu til dæmis teknar í fótboltaferðum sem konur fá aldrei að fara í.

„Sem konu er þér ekki boðið í golfferðina eða veiðiferðina, það er bara karlaklúbbur. Og ekki einu sinni spurt hvort viðkomandi kona spili golf eða veiði, bara gert ráð fyrir því að hún geri það ekki.“

Önnur lögfræðimenntuð kona telur að helsta hindrun kvenna í lögmennsku sé ímyndin af lögmönnum: að lögmenn séu bara jakkafataklæddir menn.

Flestar kvennanna telja að framgangur kvenna í stéttinni hafi verið frekar hægur og torveldur og konur þurfi að hafa meira fyrir því að komast áfram. Ein talar um að það sé „megn fnykur á köflum“ á hversu karllæg stéttin er. Önnur kona segir karla oft fá fleiri tækifæri, fái betri mál, betri tækifæri og frekar sénsa á allt og frekari möguleika á stöðuhækkunum.

„Konur þurfa oft að leggja töluvert meira á sig og fá kannski ekki jafn mikið til baka. Það er bara staðreynd.“

Þá kemur fram að það virðist vera mikil barátta kvenna í lögmennsku við að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Ein kvennanna sem rætt var við segir að lögmannastéttin sé „ein versta stétt hvað varðar töku fæðingarorlofs og fjarveru vegna fjölskyldu“.

Þú átt rétt til að taka fæðingarorlof en þú veist að þú nýtur samt engra réttinda sem fulltrúi á lögmannsstofu. Þegar þú kemur til baka úr fæðingarorlofi þarftu aftur að byrja upp á nýtt og hafa mikið fyrir því. Ótrúlega lýjandi.“

Mega ekki sofna á verðinum

Í niðurstöðum rannsóknarinnar bendir Birna á að áhugavert væri að gera sambærilega rannsókn á körlum í lögmennsku til að kanna hvert viðhorf þeirra og reynsla er í tengslum við samningagerð.

„Eru karlar að mæta sömu áskorunum og nálgast þeir samningaviðræður með sama hætti eða eru aðrir hlutir sem þeir leggja áherslu á? Að sama skapi væri áhugavert að kanna hver þeirra upplifun er á menningu lögmannastéttarinnar og starfsumhverfi. Hvaða áskoranir eru í þeirra vegi varðandi tækifæri og annað?“

Þá segir Birna að verkefnið hafi opnað augu hennar á þeim raunveruleika sem við búum við í dag hvað varðar jafnréttisbaráttu kynjanna á Íslandi. Hún hafi talið í upphafi að samfélagið væri komið lengra hvað varðar viðhorf og tækifæri kynjanna.

„Þótt viðhorf samfélagsins sé gríðarlega breytt til kynjanna í nútímanum erum við enn að glíma við kvenfyrirlitningu, eins og raun ber vitni ef Klaustursmálið er skoðað, sem kalla má mengandi eða skaðlega karlmennsku. Þá má einnig nefna áramótaskaupið 2018 þar sem aðstöðumunur kynjanna lék stórt hlutverk, sem endurspeglar þau mál sem eru í brennidepli í þjóðfélaginu,“ segir Birna og bætir við:

„Við megum ekki sofna á verðinum, við verðum að halda áfram að byggja upp samfélag þar sem ríkir jafnvægi á milli kynjanna á öllum sviðum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið