fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Margir minnast Ingveldar: „Nafnið þitt mun alltaf koma upp í huga minn þegar ég heyri afrekskonu getið“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 14. maí 2019 10:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útför Ingveldar Geirsdóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, fer fram frá Grafarvogskirkju í dag. Ingveldar er minnst á þremur síðum í Morgunblaðinu í dag þar sem fyrrverandi kollegar skrifa meðal annars um kynni sín af henni. Ingveldur lést þann 26. apríl eftir baráttu við krabbamein, aðeins 41 árs að aldri.

Ingveldur hóf störf hjá Morgunblaðinu árið 2005 og var blaðamaður fyrir Daglegt líf og menningardeild áður en hún hóf störf á fréttadeild. Ingveldur venti kvæði sínu í kross um áramótin 2013 og hóf störf hjá 365 miðlum sem fréttamaður Stöðvar 2 en flutti sig aftur yfir á Morgunblaðið undir lok þess sama árs.

Afrekskona

Þjóðþekktir einstaklingar skrifar minningargreinar um Ingveldi auk fyrrum samstarfsmanna. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, minnist Ingveldar en hún var frænka hans. „Nú svífur þú á brott Ingveldur mín, ég sé þig hverfa á braut með brosið þitt og tár í auga í sólroðnu glitskýi. Þú brosir í gegnum tárin því þú saknar lífsins, ástvinanna, og við grátum brottför þína og erum harmi slegin, kæra frænka. Þú stóðst aldrei ein, áttir þinn yndislega mann að í baráttunni, hann umvafði þig ást sinni. Þú áttir börnin þín, foreldra og systkini og samhentar fjölskyldur og mikinn skara af æskuvinum, frændfólki og samstarfsfólki. Nafnið þitt mun alltaf koma upp í huga minn þegar ég heyri afrekskonu getið,“ skrifar Guðni meðal annars.

Allt lék í höndum hennar

Fyrrverandi vinnufélagar hennar á Morgunblaðinu kveðja hana og segja að hún hafi verið öflugur leiðtogi. „Vissulega er stétt blaða- og fréttamanna býsna fjölbreytileg, sumir vilja meina að hún sé nokkuð skrautleg, en líklega er fágætt meðal blaðamanna að vera menntaður búfræðingur og bókmenntafræðingur, auk meistaraprófs í blaða- og fréttamennsku. Við vitum bara um eitt slíkt eintak og það var hún Ingveldur Geirsdóttir, samstarfskona okkar á fréttadeild Morgunblaðsins og kær vinkona sem við kveðjum í dag. Einstök að ótal mörgu leyti. Sem blaðamaður var Ingveldur réttsýn, röggsöm, snjöll, hugmyndarík og fjölhæf og til marks um það tók hún gjarnan að sér verkefni á öðrum deildum blaðsins. Fréttaskýringar, mannlífsviðtöl, skoðanapistlar, bóka- og tónlistardómar; allt fórst henni þetta jafn vel úr hendi,“ segir í minningargrein vinnufélagana. Anna Lilja Þórisdóttir, Árni Matthíasson, Björn Jóhann Björnsson, Guðmundur Sv. Hermannsson og Karl Blöndal eru skrifuð fyrir henni.

Jarðbundinn orkubolti

Hrund Þórsdóttir skrifar svo minningargrein fyrir hönd starfsfólks fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Hún segir að þó Ingveldur hafi ekki starfað þar lengi þá sé sá tími eftirminnilegur. „Ingveldur var ekki bara fær og kraftmikill fréttamaður heldur einstaklega ljúf og notaleg samstarfskona sem öðlaðist strax virðingu okkar og vináttu. Ingveldur hikaði aldrei, heldur henti sér í verkefnin, hversu krefjandi sem þau voru, vopnuð skörpum huga og einbeittum vilja til að gera vel. Hún var jarðbundinn orkubolti sem kallaði hlutina sínum réttum nöfnum og lét rödd sína heyrast en Ingveldur var líka hrein og bein, réttsýn, hláturmild og skemmtileg,“ segir Hrund.

Glæsileg sveitastelpa

Birta Björnsdóttir, nú fréttamaður á RÚV, og Inga Rún Sigurðardóttir blaðamaður segja að það sé ekki hægt að leyfa sér að vera mjög væminn í skrifum um Ingveldi, því henni hefði líklega mislíkað það. Það sé meira í anda hennar að vera þakklátur fyrir vinskapinn. „Ingveldur var jarðbundin sveitastelpa, töffari sem lét fátt stoppa sig, traust fjölskyldukona og skarpskyggn blaðamaður. Hún var góð samstarfskona og vinur, skemmtileg og fyndin, klár og réttsýn baráttukona. Það gustaði af Ingveldi. Hún hávaxin og glæsileg með sitt rauða hár og var meðal samstarfsmanna á menningardeild Morgunblaðsins oft líkt við aðra gyðju, Florence Welch úr Florence and the Machine,“ segja þær.

Ósanngjarnt

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, sendir svo kveðju fyrir hönd félagsins. „Það er þyngra en tárum taki þegar ungt fólk á besta aldri fellur frá eftir baráttu við erfið veikindi, að ekki sé talað um þegar það skilur eftir sig ung börn. Lífið getur á stundum verið svo ótrúlega erfitt og ósanngjarnt. Því kynnumst við blaðamenn sannarlega oft í gegnum starf okkar, en það er þó með öðrum hætti en þegar vinur manns og félagi á í hlut. Ingveldi kynntist ég fyrst á Morgunblaðinu þegar hún hóf þar störf um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar. Þá strax bauð hún af sér mjög góðan þokka og maður sá það fljótt að þar hafði blaðamennskunni bæst góður liðsauki. Kynni okkar urðu þó ekki löng það sinnið, þar sem viðvera mín á Morgunblaðinu varð styttri en ég hafði ætlað mér,“ skrifar Hjálmar meðal annars.

Útför Ingveldar fer sem fyrr segir fram frá Grafarvogskirkju í dag klukkan 13.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu