fbpx
Mánudagur 19.ágúst 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Diamond Beach rokkar

Fréttir

Kári vill lækka kostnað heimilanna: „Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 24. apríl 2019 09:16

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það til þess að lækka kostnað heimilanna og hlúa að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Um fátt hefur verið rætt meira í íslensku samfélagi undanfarnar vikur en þriðja orkupakkann. Kári lætur sitt ekki eftir liggja og hvetur hann til þess að pakkanum verði hafnað. Þá lætur Kári Landsvirkjun heyra það og segir að það líti þannig út að aðalmarkmið hennar sé að fá sem hæst verð fyrir rafmagnið þó hún sé í eigu þjóðarinnar.

Fjárþorsti Landsvirkjunar

„Það bárust um daginn þær fréttir af aðalfundi Landsvirkjunar að afkoma hennar hefði verið betri árið 2018 en í nokkurn annan tíma og þrátt fyrir það ætlaði hún að hækka gjaldskrá sína um þrjátíu prósent? Landsvirkjun er í eigu ríkisins þannig að tekjur hennar umfram rekstrarkostnað eru einfaldlega óbein skattlagning.“

Kári bendir svo á að raforka sem til dæmis er seld til álfyrirtækja í eigu erlendra fyrirtækja sé verðlögð samkvæmt samningum til margra ára. Því sé ólíklegt að þau muni gjalda í bráð „fjárþorsta Landsvirkjunar“, eins og Kári orðar það.

Svona vill Kári nýta orkuna

„Það sama verður ekki sagt um íslensk fyrirtæki og heimilin í landinu. Útsöluverð á rafmagni var notað til þess að sannfæra erlend fyrirtæki um að byggja málmbræðslur í landinu á þeim tíma þegar við sáum ekki vænni kost til þess að nýta orkuna okkur til framfærslu. Nú held ég að sé kominn tími á að við horfum til þess möguleika að nýta auðveldan aðgang að vistvænni orku til þess að ýta undir annars konar og meira aðlaðandi uppbyggingu. Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það til þess að lækka kostnað heimilanna og hlúa að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.“

Kári nefnir dæmi um þá möguleika sem liggja í lægra rafmagnsverði, til dæmis í landbúnaði. Bendir hann á að við flytjum inn meirihlutann af því grænmeti sem við neytum frá löndum sem einmitt rækta grænmeti í gróðurhúsum. Eins og þekkt er fer stór hluti rekstrarkostnaðar gróðurhúsa í rafmagn.

„Við eigum að sjá til þess að við séum samkeppnishæf í rekstri gróðurhúsa svo við getum ræktað okkar grænmeti sjálf, þannig gætt íslenskan landbúnað nýju lífi og aukið sjálfbærni mannlífs á Íslandi,“ segir Kári sem tekur svo annað dæmi. Nefnir hann gagnaverin sem krefjast mikillar orku.

„Gagnaverin og þjónusta og tækniþróun í kringum þau gætu, ef rétt er haldið á spilunum, gert upplýsingatækni að raunverulegum stóriðnaði í landinu í stað þess að vera sífellt einhvers konar hérumbil grein. Til þess þurfa gagnaverin að eiga aðgang að miklu ódýrari orku. Það væri líka sniðugt ef Alþingi setti lög til að tryggja öryggi gagna í gagnaverum til dæmis með því að lýsa gagnaverin helg vé, sem enginn mætti sækja í gegn vilja þeirra sem gögnin eiga, hvorki hið opinbera á Íslandi né fulltrúar erlendra ríkja. En það er önnur saga.“

Jafnar samkeppnisstöðu

Kári minnir á að það sem skiptir máli þegar rætt er um lagasetningu sem lýtur að örlögum orku sem virkjuð er úr íslenskri náttúru að hún gegnir ekki bara því hlutverki að lýsa okkur í myrkri og hlýja okkur í kulda. Hún býr líka til möguleikann á að skapa og framkvæma.

„Ísland er enn þann dag í dag harðbýlt og fjarri góðu gamni þannig að við eigum oft undir högg að sækja í samkeppni við atvinnuvegi annarra þjóða. Vistvæna orkan okkar ætti að geta jafnað samkeppnisaðstöðuna á mörgum sviðum ef hún væri skynsamlega verðlögð. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar en hagar sér því miður eins og það sé hennar aðalmarkmið að fá sem hæst verð fyrir rafmagnið, án tillits til þess hvernig það bitnar á atvinnuþróun í landinu.“

Hagsmunir þjóðarinnar eiga að ráða

Kári segir svo að ein af þeim aðferðum sem Landsvirkjun virðist vilja nota til að hækka verð sé að selja rafmagn í gegnum sæstreng til annarra landa.

„Það er lítill vafi á því að það væri hægt að fá hærra verð fyrir rafmagnið annars staðar sem myndi leiða til þess að verið hækkaði hér og samkeppnisaðstaða okkar yrði öll önnur og verri. Við komum aldrei til með að geta lifað af því einu saman að selja rafmagn, en við gætum svo sannarlega lifað mun betra lífi með því að nýta það til að bæta samkeppnisaðstöðu okkar á hinum ýmsu sviðum. Mín afstæðiskenning sem lýtur að verði á rafmagni er svona: Frá sjónarhóli Landsvirkjunar sem sjálfstæðs fyrirtækis á að selja rafmagn eins dýrt og mögulegt er. Frá sjónarhóli íslenskrar þjóðar á Landsvirkjun að selja rafmagn eins ódýrt og hægt er. Landsvirkjun er ekki sjálfstætt fyrirtæki heldur eign þjóðarinnar. Hagsmunir þjóðarinnar eiga að ráða og það er ekkert afstætt við það.“

Kári endar svo grein sína á umræðunni um þriðja orkupakkann í tengslum við hugmyndir um nýtingu orkunnar sem virkjuð er úr íslenskri náttúru. Kári er þeirrar skoðunar að það eigi að láta hann vera, „þótt ekki sé nema vegna þeirra skilaboða sem samþykkt hans myndi senda börnum okkar og barnabörnum.“

Kári er þó ekki í vafa um að ef Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann þá muni íslenska þjóðin lifa það af, „vegna þess að við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa þjóðarinnar sem þeir fremja gjarnan í nágrenni Austurvallar, þau afdrifaríku inni í hlöðnu steinhúsi sem blasir við Jóni Sigurðssyni, þau sem eru næstum takmarkalaust eymdarleg í depurð sinni í öðrum húsum þar í nágrenninu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

5 tilefni til skrúðgöngu á Íslandi

5 tilefni til skrúðgöngu á Íslandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dóttir Þórönnu grætur af gleði: „Ég sat skjálfandi og stjörf í gærkvöldi“

Dóttir Þórönnu grætur af gleði: „Ég sat skjálfandi og stjörf í gærkvöldi“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tekjublað DV kemur út á þriðjudag

Tekjublað DV kemur út á þriðjudag
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hjörvar tjáir sig um óvæntan brottrekstur

Hjörvar tjáir sig um óvæntan brottrekstur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Skúli í Subway gáttaður á Sveini Andra – „Ég bara spyr, hverjir hafa ekki lent í þessu?“

Skúli í Subway gáttaður á Sveini Andra – „Ég bara spyr, hverjir hafa ekki lent í þessu?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi kominn með ökklaband – Gagnrýnir fjölmiðla fyrir umfjöllun um afplánun utan fangelsis

Guðmundur Ingi kominn með ökklaband – Gagnrýnir fjölmiðla fyrir umfjöllun um afplánun utan fangelsis