fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Benjamín segir viðhorf lögreglunnar hættulegt: „Þessi ótrúlega hörmung þurfti ekki að gerast“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. apríl 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nú er í gangi rannsókn á hryllilegum atburði, ung kona dó eftir að hafa verið handtekin á meðan hún var í geðrofi. Þetta er með eindæmum ömurleg frétt, og gott að heyra að saksóknari rannsaki hvernig þetta mátti gerast. En ég má til með að útlista dálítinn bakgrunn, því þetta er stórt og mikilvægt mál.“

Svona hefst pistill eftir Benjamín Julian, fyrrum blaðamann Stundarinnar, en hann vísar í mál þegar kona á þrítugsaldri lést eftir að lögregla hafði haft af henni afskipti. Í tilkynningu frá lögreglu um málið segir:

„Kona á þrítugsaldri lést á Landspítalanum á þriðjudagsmorgni s.l., en þangað hafði hún verið flutt með sjúkrabíl eftir að lögregla, í útkalli vegna meintrar fíkniefnaneyslu, hafði afskipti af henni. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið, en því hefur verið vísað til embættis héraðssaksóknara sem rannsakar atvik þegar maður lætur lífið í tengslum við störf lögreglu óháð því hvort grunur er til staðar um refsivert brot. Hugur lögreglunnar er hjá aðstandendum konunnar og vill hún koma á framfæri innilegum samúðarkveðjum til þeirra á þessari erfiðu stundu.“

Benjamín segir lítinn hóp fólks hafa farið í átak fyrir hálfum áratug síðan til að fylgjast með hvernig mannréttindi fólks sem lendir í lögreglunni eru vernduð. Segir hann að ef fólk er grunað um dópneyslu sé mannréttindi þess lítils virði.

Í pistlinum heldur Benjamín áfram:

„Erlendir ferðamenn voru beðnir um að yfirgefa strætóinn á meðan lögreglan hélt Íslendingunum eftir. Síðan fóru þeir að leita á öllum Íslendingunum. … [Stúlka segir að frænka hennar] hafi verið látin strippa fyrir framan lögregluna … „Það er verið að snúa fólk niður og setja það í handjárn á tjaldsvæðinu!“ … Síðan komu stelpur til okkar upp í miðasölu frá tjaldstæðinu en þær grétu og skulfu af hræðslu vegna þess hvernig lögreglan kom fram. … Farið var inn í tjaldið mitt án heimildar og án þess að nokkur hafi verið þar … Við tókum á móti fjölda fólks í áfalli í anddyri hátíðarsvæðisins sem treysti sér ekki aftur á tjaldsvæðið sökum ágangs og valdníðslu lögreglumanna … ég er búin að vera hrædd og stressuð í 34 klukkutíma eða frá því að terrorisminn byrjaði…“
Á annarri hátíð fór aðili úr fyrrnefndum hópi, Snarrótinni, og fylgdist með aðförum lögreglu.

Hennar lýsing á atburðum: „Ég tók ekki eftir því að neinum væru kynnt sín réttindi. Lögreglumennirnir komu einfaldlega upp að fólki og þremur sekúndum seinna var fólkið búið að rétta út hendurnar og lögreglan farin að leita í vösum þess.“

Hættulegt viðhorf

Þá spyr Benjamín: „Hvað hefði fólk átt að gera? Segja nei við lögguna? Yfirlögregluþjónn borgarinnar varði þessar aðgerðir með vísun í lög sem leyfa lögreglu að leita að „vopnum eða öðrum hættulegum munum“ í þágu uppihalds laga og reglna. Ef maður verður ekki við þessu er maður að brjóta lög, enda er hverjum manni „skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur.“

Benjamín segir þetta ekki vera aðeins lagalegan veruleika, heldur undirbyggingu þeirrar afstöðu sem lögreglumenn taka á vettvangi; að þeir hafi stjórn á málum, og enginn annar, og að þeirra hlutverk sé að koma á röð og reglu.

„Fólk sem hegðar sér „óreglulega“ er fjötrað niður, geymt í lokuðum klefa þar til það verður aftur „reglulegt.“ Þetta er ekki bara lögfræðilegt sjónarmið, heldur næstum heimspekilegt: „Þetta er ákveðin sýn á það hvernig samfélagið á að virka. Fólk í vímu á ekki mikinn séns gagnvart því viðhorfi,“ segir hann. „Og hver eru viðbrögðin, við fólki sem er augljóslega með geðræn vandamál? Hvað gerir maður í þannig aðstæðum? Hlýja, ró, þolinmæði? Mildilegt samtal? Tala niður geðrofið inná eitthvað viðráðanlegt plan?

Nei.

Svar lögreglunnar: „Það að lenda í fangaklefa yfir nótt líkt og einhverjir hafa lent í væri langt í frá það versta sem gæti komið fyrir.“
Þetta viðhorf er ekki bara skrítið og skammsýnt, það er hættulegt. Á það hefur verið bent, veikum mætti, í áraraðir.

Nú hefur það sannast á allra hryllilegasta máta. Kona var handtekin og fjötruð niður í miklu uppnámi og geðrofi. Hún virðist hafa verið skilin eftir langa stund eftirlitslaus. Þegar hún kom á spítala hafði hún verið í hjartastoppi í fjörutíu mínútur.

Þessi ótrúlega hörmung þurfti ekki að gerast. Mér fallast eiginlega hendur þegar ég hugsa um þetta. Eina lexían sem ég get dregið, þar til lögreglan verður vandlega endurskipulögð, er þessi: Ekki hringja á lögregluna ef manneskja nálægt þér er andlega veikburða eða í geðrofi. Það má ekki nálgast þannig ástand með drottnunartilburðum og valdi.“

Á vef RÚV er greint frá því að Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segi að málið sé í rannsókn og sé óvíst hvenær henni ljúki. Lögum samkvæmt á embætti héraðssaksóknara að rannsaka atvik þar sem fólk lætur lífið í tengslum við störf lögreglu óháð því hvort grunur er um refsivert brot.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Dýraverndunarsinnar mótmæltu á Selfossi: „Fangelsuð, nauðgað og afkvæmin drepin!“

Dýraverndunarsinnar mótmæltu á Selfossi: „Fangelsuð, nauðgað og afkvæmin drepin!“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Brýtur Bjarni siðareglur?

Brýtur Bjarni siðareglur?
FókusFréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenskar furðufréttir: Köttur hélt mæðgum í gíslingu – Íbúi á Sauðárkróki varð ástfanginn af uppblásinni dúkku

Íslenskar furðufréttir: Köttur hélt mæðgum í gíslingu – Íbúi á Sauðárkróki varð ástfanginn af uppblásinni dúkku
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spurning vikunnar: Stefnir í nýtt efnahagshrun á Íslandi?

Spurning vikunnar: Stefnir í nýtt efnahagshrun á Íslandi?