fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Guðmundur: „Manni líður stundum eins og sá síðasti hressi á opinberum vettvangi hafi verið Hemmi Gunn“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 18. mars 2019 09:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hinn glaði Íslendingur er vandfundinn. Manni líður stundum eins og sá síðasti hressi á opinberum vettvangi hafi verið Hemmi Gunn,“ segir Guðmundur Steingrímsson, heimspekingur og fyrrverandi þingmaður, í vikulegri grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Þar skrifar Guðmundur um stöðuna í íslensku þjóðfélagi og þá einna helst á hinum pólitíska vettvangi.

„Það er merkilegt hvað lítið hefur orðið úr þessari breiðu sátt. Katrín virðist kannski sátt við Bjarna og Svandís við Sigurð. Það er gott og blessað. Fólkið er ekki að munnhöggvast á þingi, eins og það væri væntanlega að gera núna ef það væri ekki saman í ríkisstjórn. Svo langt nær sáttin. En hún nær ekki mikið lengra.“

Bagalegt einkenni á litlu samfélagi

Guðmundur bendir á að þessi breiða sátt hafi væntanlega átt að ná út í þjóðfélagið en það sé ekki að sjá. Þvert á móti virðist ríkja breitt ósætti, segir Guðmundur, og vísar í mótmæli hælisleitenda, verkföll og skróp grunnskólanema í skólum sem vilja vekja athygli á stöðunni í loftslagsmálum.

„Satt að segja veit ég ekki almennilega hvort það sé hægt að finna beinlínis manneskju á Íslandi í dag sem er sátt. Hinn glaði Íslendingur er vandfundinn. Manni líður stundum eins og sá síðasti hressi á opinberum vettvangi hafi verið Hemmi Gunn,“ segir Guðmundur sem bætir við að þetta sé bagalegt einkenni á litlu samfélagi eins og Íslandi.

„Sérstaklega forríku örsamfélagi norður í hafsauga. Það ætti að vera hægt að skapa nokkuð umfangsmikla sátt meðal hinna sárafáu íbúa með réttum áherslum og aðferðum. Það fer mikil orka í það að vera ósáttur. Dæs er orkusuga. Maður vill treysta samfélagi sínu. Maður vill búa í samfélagi þar sem málefnum hælisleitenda er sinnt af mannúð og víðsýni, en ekki piparúða. Maður vill tilheyra þjóðfélagi sem lítur á það sem frumskyldu að sjá til þess að vinnandi fólk geti lifað af launum sínum. Maður vill tilheyra þjóð sem er í fararbroddi í umhverfismálum og setur allt kapp á að vera öðrum þjóðum fordæmi. Ég gleymi því ekki þegar ég sat á þingi og nýkrýndur forsætisráðherra ákvað að ýta metnaðarfullum, og áður samþykktum tillögum um uppbyggingu græns hagkerfis á Íslandi til hliðar og setja fjármagnið í varðveislu torfbæja. Í ræðu sinni sagði hann að fátt væri grænna en torfbæir.“

Hungri mætt með hagtölum

Guðmundur er óhress með þetta og segir að augljósum kröfum sé mætt með skætingi. „Deilur eru dyggð. Hungri er mætt með hagtölum. Neyð með kylfum. Dómur mannréttindadómstóls, sem hefur það hlutverk að vernda borgarana gegn valdmiklum stjórnvöldum sem ætíð hafa tilhneigingu til að misnota stöðu sína, er mætt með hundshaus. Spurningamerki reist við niðurstöðuna. Lítið um auðmýkt.“

Guðmundur spyr svo hvernig meiri sátt verði til. Veltir hann því upp hvort ríkisstjórnin sem sagðist ætla að skapa meiri sátt fari að íhuga af meiri þunga og alvöru hvernig hún getur náð því markmiði. Bendir hann á eitt sem getur verið leiðarljós í þeirri vinnu.

„Að hlusta. Til að gera eitthvað af viti þarf að skilja og til að skilja þarf að hlusta. Hlusta á tif tíðarandans. Hlusta á fólk falla í fátæktargildrur. Hlusta á einstaklinga flýja til Íslands og mygla úr afskiptaleysi á Ásbrú. Hlusta á leiðann sem grípur um sig þegar ákvarðanir eru ekki réttar, þegar viðbrögð eru röng. Hlusta á vonbrigðin sem aðgerðarleysi getur valdið og særindin sem aðgerðir geta valdið. Hlusta á áhyggjur annarra. Hlusta á jörðina hitna. Hlusta á framtíðina versna.“

Tilgangurinn að halda völdum og skipta gæðum?

Guðmundur segir að góð stjórnmálamanneskja sé eins og þjóðfélagshvíslari; hún horfi, heyri, rýni í og leiti eftir. „Hún trúir því líka — og þetta er erfitt á stundum — að innan um allan orðaflauminn, skoðanirnar, hrópin, köllin, jafnvel hatrið, birtist ætíð um síðir ákvörðun sem er kristaltær í sannleika sínum. Setningar verða til, aðgerðir verða til og þær eru góðar af einni og aðeins einni ástæðu: Þær gera heiminn betri, núna og til framtíðar. Þær auka sátt.“

Guðmundur segist halda að fólk sem á sæti á Alþingi hafi mismikla trú á að þetta sé gerlegt. Grunar hann suma um að skeyta litlu um markmið af þessu tagi. Tilgangurinn á sumum bæjum virðist fremur vera að halda völdum og skipta gæðum.

„Ég veit þó líka hitt, að á meðal forystufólks þjóðarinnar eru manneskjur sem vita vel að markmið stjórnmála er æðra og merkilegra en stundargróði fárra eða gæsla úreltra hagsmuna. Það veit vel að stjórnmál geta verið ægifögur. Staðreyndin er hins vegar sú að margt af þessu fólki er upptekið þessa stundina við að halda saman ríkisstjórn hinnar breiðu sáttar á meðan þjóðfélagið logar í ósætti. Það kalla ég rangan fókus.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Vilja láta stórskulduga sitja sektir af sér – Sáralítið innheimtist af hæstu sektunum

Vilja láta stórskulduga sitja sektir af sér – Sáralítið innheimtist af hæstu sektunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tekjur Vaðlaheiðarganga 35-40% minni en áætlað var

Tekjur Vaðlaheiðarganga 35-40% minni en áætlað var
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Albert lést á þriðjudaginn – Ragnar hefur fengið nóg: „Hver verður næstur, verður það sonur þinn?“

Albert lést á þriðjudaginn – Ragnar hefur fengið nóg: „Hver verður næstur, verður það sonur þinn?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjölskyldan sem týndist heil á húfi – Köld og skelkuð

Fjölskyldan sem týndist heil á húfi – Köld og skelkuð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Yfirheyrslan: Karítas Harpa telur samskipti Tomma og Jenna byggð á misskilningi

Yfirheyrslan: Karítas Harpa telur samskipti Tomma og Jenna byggð á misskilningi