fbpx
Föstudagur 19.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Diamond Beach rokkar

Fréttir

Nærmynd af Sigríði Á. Andersen: Heldur með KR og drekkur ekki kaffi

Auður Ösp
Sunnudaginn 17. mars 2019 09:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Efst á baugi í liðinni viku var vafalaust ákvörðun Sigríðar Á. Andersen um að segja af sér sem dómsmálaráðherra vegna Landsréttarmálsins. Sigríður hefur glímt við ýmis hitamál á þeim stutta tíma sem hún hefur stýrt dómsmálaráðuneytinu frá árinu 2016. DV bregður hér upp nærmynd af umdeildum ráðherra sem ávallt er kölluð Sigga, ætlaði upphaflega að verða læknir, gekk í Buffaló-skóm sem unglingur og talar reiprennandi spænsku.

Hélt pólitískar ræður í barnaskóla

Sigríður Ásthildur Andersen er fædd í Reykjavík þann 21. nóvember 1971, dóttir Geirs R. Andersen, fyrrverandi blaðamanns og Brynhildar K. Andersen, sem starfaði í aldarfjórðung á skrifstofu hjúkrunarheimilisins Grundar. Brynhildur lést síðastliðinn mánudag, 13. mars, en hún var á sínum tíma virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum, gegndi til að mynda stöðu formanns í Félagi sjálfstæðismanna í vestur- og miðbæ Reykjavíkur og sat í stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Æskan Ólst upp í Vesturbænum.

Bræður Sigríðar eru Ívar Andersen verslunarmaður og Kristinn Andersen, prófessor við rafmagns- og tölvuverkfræðideild HÍ og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, en rétt eins og systir hans hefur Kristinn tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin. Sjálf gekk Sigríður í Heimdall um leið og hún náði tilskildum aldri.

Í viðtali við Fréttablaðið í mars á seinasta ári sagðist Sigríður koma af „frjálslyndu, borgaralega þenkjandi Sjálfstæðisfólki.“ Hún heillaðist mjög snemma af pólitískri umræðu.

„Ég man eftir mér í barnaskóla að fara með innblásnar ræður um stöðu þjóðmálanna og skráði mig svo í Heimdall um leið og ég hafði aldur til.“

Sigríður ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík og gekk í Hagaskóla. Þaðan lá leiðin í MR þar sem hún útskrifaðist sem stúdent úr eðlisfræðideild árið 1991, en samnemendur hennar í Lærða skólanum voru meðal annars Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús Geir Eyjólfsson útvarpsstjóri. Samhliða grunnskóla og menntaskólanámi starfaði Sigríður á vinnustað móður sinnar, hjúkrunarheimilinu Grund, og einnig á auglýsingadeild DV.

Kasólétt í prófkjöri

Sigríður söðlaði um að loknu stúdentsprófi. Hún stofnaði ásamt fleirum þjóðmálalfélagið Andríki og var í ritstjórn frjálshyggjuvefmiðilsins Vefþjóðviljans. Hún skráði sig upphaflega í nám við læknadeild Háskóla Íslands en komst fljótlega að því að hún var ekki á réttri hillu. Hún skipti því um fag og hóf nám við lagadeildina haustið 1996, en hún lagði einnig stund á nám í spænsku samhliða lögfræðinni.

Unglingsárin Sigríður tók Buffalótískunni vel.

Sigríður var á þessum tíma virk í starfi Heimdallar og var það innan hreyfingarinnar sem leiðir hennar og tilvonandi eiginmanns hennar, Glúms Björnssonar, lágu saman. Sátu þau um tíma bæði í stjórn félagsins og átti Sigríður meðal annars þátt í að koma á fót hinum árlega Skattadegi, en með honum vildu Heimdellingar hvetja til andófs gegn skattheimtu með táknrænum hætti.

Árið eftir, veturinn 1997 til 1998, dvaldi Sigríður veturlangt í Madríd í skiptinámi á vegum Erasmus. Hún starfaði sem blaðamaður á DV samhliða laganáminu en hún lauk embættisprófi frá HÍ árið 1999 og útskrifaðist með hdl-réttindi tveimur árum síðar.

Hún starfaði sem lögfræðingur Verslunarráðs Íslands til ársins 2005 og síðan sem lögfræðingur hjá LEX lögmannsstofu frá 2007 til 2015, en í millitíðinni eignaðist hún eldri dóttur sína. Skömmu eftir að fæðingarorlofinu lauk gaf Sigríður kost á sér í prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Á þessum árum var hún enn starfandi fyrir Vefþjóðviljann og Andríki. Hún lét að sér kveða í þjóðfélagsumræðunni með pistlaskrifum í hina ýmsu fjölmiðla, og voru margir þeirra umdeildir. Hún kom síðan nokkrum sinnum inn sem varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis á tímabilinu 2008 til 2015. Þegar hún tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í ársbyrjun 2009 vakti það athygli að hún var kasólétt, en hún var þá gengin tæpar 40 vikur með yngri dóttur sína. Í samtali við Fréttablaðið sagði hún það ekki hafa komið til greina að sleppa því að taka þátt í prófkjörinu.

„Ég á eina stúlku fyrir, þriggja ára. Sú fæðing og meðganga gekk mjög vel og meðgangan núna hefur sömuleiðis gengið vel. Ég á líka mjög góða fjölskyldu og góða stuðningsmenn að, það fer náttúrulega enginn einn í gegnum prófkjörsbaráttu.“

Heldur með KR og drekkur ekki kaffi

Sem fyrr segir er Sigríður gift Glúmi Björnssyni efnafræðingi og búa hjónin ásamt dætrum sínum tveimur í Vesturbænum, í næstu götu við æskuheimili Sigríðar. Í viðtali við Ísland í dag á seinasta ári kom fram að Sigríður er með mikla ástríðu fyrir þrifum og er hún  meðlimur í leynilegum hópi á Facebook fyrir fólk með sama áhugamál. Sagðist hún vel geta hugsað sér að starfa sem heimavinnandi húsmóðir enda hefur hún gaman af heimilisstörfum.

Stjórnin sprakk Sigríður upplýsti Bjarna um meðmæli föður hans.

Þá kom einnig fram að fráfarandi dómsmálaráðherra Íslands drekkur ekki kaffi. Á vef Sjálfstæðisflokksins kemur fram að hún „fylgi trú liðum sínum í fótbolta og hefur alla tíð haldið með KR, Uruguay eða Íslandi.“

Harðlega gagnrýnd

Sigríður var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem mynduð var af Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Bjartri framtíð. Sú ríkisstjórn sprakk aðeins átta mánuðum eftir að hún var mynduð. Fallið má rekja til þess þegar Hjalti Sigurjónsson fékk uppreist æru. Þá komu í ljós tengsl við fjölskyldu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra en Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, gaf Hjalta meðmæli. Þá kom í ljós að Sigríður upplýsti Bjarna, um sumarið 2017, en ekki aðra í ríkisstjórninni um að faðir hans hefði gefið Hjalta meðmæli.

Í kjölfarið sleit Björt framtíð stjórnarsamstarfinu. Þann 11. september kom í ljós að Sigríður hafði gengið lengra í upplýsingaleynd um annan barnaníðing, Róbert Downey, en upplýsingalög heimila. Var hún harðlega gagnrýnd fyrir að neita bæði þolendum og fjölmiðlum um gögn er vörðuðu uppreista æru hans. Þá sagði Sigríður að hún vildi skoða hvernig væri staðið að því að veita mönnum uppreisn æru og þá hvort allir ættu að eiga rétt á slíku. Sagðist hún einnig vilja breyta lögum um uppreisn æru þannig að ekki yrði hægt að sækja um slíka meðferð.

Um svipað leyti var gerð könnun sem framkvæmd var af Maskínu og Stundinni. Þar kom í ljós að 72,5 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vildu að hún segði af sér.

 

Sagði af sér

Leið Sigríðar átti síðan eftir að liggja aftur í dómsmálaráðuneytið. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn mynduðu ríkisstjórn eftir kosningar 28. október 2018 settist Sigríður á ný í sinn gamla stól. Helsta mál sem hún hefur haft aðkomu að er ný persónuverndarreglugerð sem kveður á um aukið hlutverk eftirlitsstofnana og á að styrkja grundvallarréttindi einstaklinga í stafrænum heimi og með því tryggja rétt þeirra til að gleymast.

Sigríður sagði síðan af sér embætti þann 13. mars síðastliðinn. Afsögnina má rekja til þess að árið 2017 skipaði Sigríður 15 dómara við hinn nýja Landsrétt. Fjórir dómaranna sem metnir voru hæfir af hæfnisnefnd voru ekki skipaðir af Sigríði, og leituðu þeir allir réttar síns og unnu mál sitt.

Dómsmálaráðherra Sagði af sér eftir dóm Mannréttindadómstólsins.

Þegar Landsréttur tók til starfa lagði lögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson fram þá kröfu fyrir hönd síns skjólstæðings, að einn dómari, Arnfríður Einarsdóttur, sem skipuð var af dómsmálaráðherra í stað eins umræddra fjórmenninga, yrði dæmd vanhæf vegna skipunarinnar.

Þeirri kröfu var hafnað og var sú ákvörðun kærð til Hæstaréttar, sem staðfesti dóm Landsréttar. Sigríður var harðlega gagnrýnd í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar og þess krafist að hún segði af sér embætti vegna málsins, en stjórnarandstaðan lagði fram vantrauststillögu gegn henni, sem var felld.

Því leitaði Vilhjálmur til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem hefur nú staðfest að dómaraskipan Sigríðar var ekki réttmæt. Með því að skipta fjórum umsækjendum af lista út fyrir fjóra sem metnir höfðu verið minna hæfir sagði Mannréttindadómstóllinn að Sigríður Andersen hefði með öllu sniðgengið gildandi lög, og  þar með varð skipunarferlið sjálft í andstöðu við þá grundvallarreglu réttarríkisins að dómstólar skuli skipaðir með lögum.

Fyrst eftir að fregnir bárust af niðurstöðunni var Sigríður Andersen brött. Þann 12. mars kvaðst hún ekki ætla að segja af sér.

„Ég mun ekki gera það. Ég hef ekki ástæðu til þess,“ sagði Sigríður í samtali við RÚV og bætti við að dómurinn hefði komið henni á óvart.

Daginn eftir var komið annað hljóð í strokkinn. Þá boðaði Sigríður til blaðamannafundar og tilkynnti að hún myndi segja af sér. Sjálf orðaði hún það á þann hátt að hún væri að stíga til hliðar. Þingmenn geta stigið til hliðar og þá varaþingmenn tekið sæti þeirra en sama gildir ekki um ráðherra. Sigríður sagði því einfaldlega af sér sem dómsmálaráðherra.

Sigríður sagði á þeim fundi að Katrínu Jakobsdóttur væri ekki kunnugt um ákvörðun hennar. Hún myndi væntanlega lesa um hana í blöðunum.

Þegar Katrín var spurð hvort Sigríður ætti afturkvæmt í embættið var svarið einfaldlega: „Það er ekki tímabært að segja til um það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bættu baðherbergið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum