fbpx
Fimmtudagur 13.ágúst 2020
Fréttir

Kristín Júlla tilnefnd til Eddunnar og nokkuð sigurviss

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 7. febrúar 2019 16:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Júlla Kristjánsdóttir, gervahönnuður, er tilnefnd til Eddurverðlaunanna í ár. Blaðamaður hafði samband við hana og spurði hvort hún væri vongóð um að hljóta Edduna núna eftir að hafa verið tilnefnd en ekki unnið síðustu tvö ár. „Ég ætla að leyfa mér að vera það já,“ sagði Kristín Júlla, enda ekki furða. Hún er ein tilnefnd í sínum flokki, fyrir alls þrjár kvikmyndir.

„Ég átti nú aldrei von á þessu sko,“ sagði hún um viðbrögð sín þegar henni var tilkynnt um tilnefningarnar en henni var mikið skemmt. „Ég er bara búin að vera í hláturskasti hérna.“

Hún er tilnefnd fyrir vinnu sína við kvikmyndirnar Andið eðlilega, Lof mér að falla og Vargur. Þetta verður í fyrsta sinn sem Kristín Júlla fær verðlaunin eftir að þau breyttu um útlit, en síðast hlaut hún verðlaunin 2016. Hún var þó einnig tilnefnd 2017 og 2018.

Ólíkar myndir með margt sameiginlegt

„Þetta voru allt mjög ólíkar myndir, en allar þessar myndir fjalla mikið um konur, þó að aðalhlutverkið í Vargi hafi verið karl, eða karlar, þá var líka kona í aðalhlutverki og allar fjalla myndirnar að einhverju leyti um konur sem eru í fíkn. Þannig þær eiga margt sameiginlegt þessar þrjár myndir.“

Verkefnin voru öll þrjú, að sögn Kristínar Júllu, mjög skemmtileg. „Mér finnst svo gaman að segja sögur og ótrúlega gaman að fá tækifæri til að gera gervi í bíómyndum þar sem við erum að takast á við daglegt líf, því þetta getur því miður orðið daglegt líf hjá svo mörgum. Það er líka frábært að fá að búa til hversdagsleikann í útliti. Gera manneskjuna eins og hún er, en ekki uppstríluð og fín eins og við viljum gjarna koma fyrir.“

„Flóknasta sminkið getur verið að láta fólk líta út fyrir að vera ómálað og sjúskað. Af því að það er svo heilmikið smink á bak við það,“ segir hún og bætir við að það sé mikið erfiðara að láta einstaklinga líta verr út heldur en betur. 

„Fyrstu viðbrögð mín, eftir hláturskastið, var að hugsa að nú myndi almenningur sennilega halda að enginn annar hafi unnið í bíómyndum þetta árið. En það var ekki þannig. Ég var bara svo heppin að fá að gera þessar flottu myndir og takast á við þessar áskoranir.“

Hárið

Henni fannst sérstaklega skemmtilegt að fá að vinna að Lof mér að falla, en þar fékk hún nefnilega tækifæri til að gera nokkuð sem hún fær ekki að vanalega að gera í kvikmyndagerðinni.

„Ég nota átta hárkollur í henni. Ég held að það hafi aldrei í íslenskum bíómyndum verið tækifæri til að nota jafn mikið af hárkollum og þar. Þarna erum við með stelpur sem eru í neyslu og ég þurfti að breyta hárinu á þeim eftir því hvar í lífinu þær voru staddar að hverju sinni. Magnea var til dæmis skinka á einu tímabilinu og fór í gegnum alls konar tímabil.“

Hún hefur ekki orðið mikið vör við að fólk tali um hárkollurnar í myndinni.  Fólk hefur ekki mikið verið að sjá það, sem er náttúrulega best, það er að fólk taki ekki eftir þeim. Ég hef ekki viljað tala um þetta áður því þá kannski færi fólk að sjá myndina og tæki eftir því. En núna get ég það. Það er ekki oft sem maður fær tækifæri til að gera þetta á Íslandi, það er oft svo lítið fjármagn og alltaf verið að skera niður einhvers staðar. Líklega eru hárkollur fljótar að fjúka í niðurskurði, því þær eru víst mjög dýrar og gífurleg vinna sem fer í þær. „Mjög mikil vinna og mjög miklir peningar. Ég fór til Kanada til að kaupa þessar og ég kaupi bara síðar ljósar hárkollur og síðan voru þær klipptar til, litaðar og allskonar gert við þær til að útbúa þær eftir hlutverkunum. Ég er voðalega þakklát framleiðslunni að samþykkja að leyfa mér að gera þetta.“

Býr til manneskjur

Það er þó mikið meira sem felst í því að vinna að gervum í kvikmyndum en að stílfæra hárkollur og farða.

„Ég er alltaf að fá tækifæri til að búa til manneskjur. Ég veit að svo margir halda að maður sé bara að sminka og gera hár eftir forskrift einhvers annars. En það er ekki þannig.  Ég hanna líka allt útlitið. Ég er hönnuður að því í samstarfi við leikstjóra og búningahönnuð. Við vinnum saman að heildarútlitinu. Þetta er mikil vinna sem fer fram áður en upptökur hefjast.  Mikill undirbúningur og hugmyndavinna. Við fáum handrit mjög snemma í ferlinu. Ég til dæmis bý sjálf til baksögu persóna með leikstjóranum og búningahönnuði. Við búum til baksögu hvers karakters. Hvert er hún búin að fara í lífinu og hvaða stíl hefur hún skapað sér ? “

Blaðamaður telur sér óhætt að óska Kristínu Júllu innilega til hamingju með Edduverðlaunin, enda nokkuð sigurstrangleg.

„Kannski að ég hafi tilbúnar þrjár ræður. Ég held ég leyfi mér bara jafnvel líka að kaupa flottan kjól,“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni