fbpx
Mánudagur 18.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Halla var áreitt í gufubaði af þekktum bardagakappa

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. febrúar 2019 10:39

Halla Gunnarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halla Gunnarsdóttir, ráðgjafi forsætisráðherra, greinir frá því á femíníska vefritinu Knúz að hún var kynferðislega áreitt af júdóþjálfara þegar hún lagði stund á þá íþrótt. Halla segir manninn þekktan innan íþróttarinnar.

Halla segir að lengi hafi hún kennt sjálfri sér um atvikið. „Þegar ég sagði frá þessu í fyrsta sinn byrjaði frásögnin svona: „Ég hefði auðvitað átt að átta mig á því í hvað stefndi, mikið ofboðslega get ég verið vitlaus.“ Og hún hélt reyndar áfram með þessum hætti, með ýmsum formum af sjálfsásökunum. Vinkona mín þurfti að taka fast í axlirnar á mér, horfa í augun á mér og skipa mér að hætta þessu rugli og segja sér frá hvað hefði átt sér stað. Henni hafði rétt tekist að brjótast í gegnum þagnarmúr sem ég var búin að reisa og hún ætlaði ekki að láta staðar numið þar,“ segir Halla.

Fannst júdó valdeflandi

Hún segist hafa kynnst júdó í Ástralíu og fljótt tekið ástfóstur við bardagalistina. „Haustið 2006 varði ég nokkrum mánuðum í Ástralíu í einum af þessum frábæru skiptiprógrömmum sem háskólanemendum standa til boða. Í háskólanum var boðið upp á byrjendanámskeið í ýmis konar íþróttum og ég ákvað að læra bæði skvass og júdó. Það hafði einhvern veginn ekki hvarflað að mér að hægt væri að læra íþrótt frá grunni á fullorðinsárum, en ég tók ástfóstri við júdóið. Ég náði smám saman tökum á grunntækninni, enda þjálfarinn frábær og reyndari iðkendur tóku þátt í byrjendaæfingunum til að hjálpa okkur áfram. Satt að segja fannst mér íþróttin valdeflandi, að læra að takast á en líka að mark sé tekið á því þegar óskað er eftir því að hætta leiknum. Það er nokkuð sem við konur getum ekki alltaf stólað á,“ segir Halla.

„Nokkru eftir að ég var komin aftur heim ákvað ég að láta slag standa og mæta á júdóæfingu á Íslandi. Þjálfunin var ekki eins skemmtileg og í Ástralíu, en þar sem ég hafði smá grunn fannst mér strax gaman. Samiðkendur mínir voru aðallega ungmenni og ég taldi að það væri þess vegna sem þjálfarinn sýndi mér athygli, svo að mér leiddist ekki.“

Áreitti hana í gufu

Hún segir að þjálfarinn hafi sannfært hana um að fara í gufu til að kanna hversu þung hún væri eftir að hún hefði losað sig við allt vatnið úr líkamanum. „Ég mætti á nokkrar æfingar og þjálfarinn sinnti mér sérstaklega vel. Hann byrjaði fljótt að tala um júdómót og að þar sem ég væri á mörkum tveggja þyngdarflokka ætti ég alveg séns á að ná árangri í lægri flokknum – verða jafnvel Íslandsmeistari. En til þess þyrfti ég að missa 1-2 kíló. Ég gæti líka farið í gufubað og losað mig við vatnið úr líkamanum til að athuga hvað ég væri þung þá, en það var einmitt gufubað á æfingastaðnum. Þannig einhvern veginn varð úr að ég var stödd ein í gufubaði í tómu íþróttahúsi með þessum manni, sem var tvöfalt eldri en ég, stór og stæðilegur og þekktur í sinni bardagalist. Þar sem hann hvatti mig til að fara úr baðfötunum og vigta mig rann smám saman upp fyrir mér að hann hafði eitthvað allt annað í huga en ég. Og hann gerðist talvert ágengur í að ná sínu fram,“ lýsir Halla.

Hún segir það hafa verið erfitt að komast úr aðstæðunum. „Ég veit ekki hvort maður þarf að vera kona til að skilja hvað svona aðstæður geta verið erfiðar. Hversu erfitt það er að koma sér út úr þeim, hin hræðilega hugsun um að kannski sé betra að spila bara með, og hversu hratt sjálfsásökunin mætir á svæðið,“ segir Halla.

Vildi halda áfram

Halla segir að þrátt fyrir að hafa verið virk í Femínistafélagi Íslands hafi hún fyrst ákveðið að þegja um málið. „Á þessum tíma var ég virk í Femínistafélagi Íslands og hafði heimsótt skóla um allt land með fyrirlestra um eðli og afleiðingar kynferðislegs ofbeldis og kynferðislegrar áreitni. Ég hafði útskýrt í ítarlegu máli fyrir öðrum hvers vegna þögnin er svona sterk. Ef við búum í samfélagi sem hefur alltaf sagt okkur að passa okkur, þá beinum við þeim skilaboðum auðvitað inn á við ef við verðum fyrir ofbeldi eða áreitni. Þrátt fyrir að ég þekkti þetta allt í orði kveðnu, þá var það samt svo að þegar ég varð fyrir kynferðislegri áreitni í íþróttum þá ákvað ég strax að þegja yfir því um aldur og ævi. Áðurnefnd vinkona mín og meðleigjandi kom þó í veg fyrir það. Hún þekkti mig of vel til að ég gæti falið nokkra vanlíðan fyrir henni,“ segir Halla.

Hún telur þetta ekki hafa verið fyrsta skiptið sem þessi maður áreitir konur í íþróttinni. „Ég kom mér út úr aðstæðunum í gufubaðinu og ég reyndi að halda áfram í júdó. Ég setti manninum skýr mörk og hann baðst afsökunar (eða ef-sökunar öllu heldur) en þegar hann klykkti út með: „á hinn bóginn þá ertu líka mjög aðlaðandi kona“, þá gekk ég út og kom aldrei aftur. Lengi vel gat ég ekki sagt frá þessu án þess að tala í belg og biðu um öll smáatriði sögunnar. Ég veit ekki hvað ég var að reyna að segja með því, kannski hið klassíska að „nú þegar ég lít til baka þá hefði ég átt að sjá í hvað stefndi“. Kannski var ég að reyna að segja söguna af manni sem var með áætlun og þetta var augljóslega ekki í fyrsta sinn sem hann hrinti slíkri áætlun í framkvæmd,“ segir Halla.

Hér má lesa pistil Höllu í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hefur þú séð Lily ? – Rænt fyrir utan Super 1 á Hallveigarstíg

Hefur þú séð Lily ? – Rænt fyrir utan Super 1 á Hallveigarstíg
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Skotárásin í Christchurch með augum pólítískra skopmyndateiknara

Skotárásin í Christchurch með augum pólítískra skopmyndateiknara