fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Martröð á Mávabraut – Íbúar flýja ófremdarástand

Atli Már Gylfason
Laugardaginn 7. desember 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjöldi íbúa við Mávabraut í Reykjanesbæ hefur flúið leiguheimili sín að undanförnu vegna þess sem þau einfaldlega kalla martröð. Hluti íbúa sem leigja í fjölbýlishúsi sem fjöldi Suðurnesjamanna kallar iðnaðarmannablokkina segir farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við fyrirtækið sem sér um húsið, aðra íbúa fjölbýlishússins og skeytingarleysi þeirra sem þar fara með meirihluta í húsfélaginu.

Músagangur, yfirfullar ruslatunnur, mikil læti og fíkniefnaneysla varð til þess að fólkið flutti og síðast en ekki síst að enginn virðist taka forystu í húsfélaginu. Þetta hefur leitt til þess að öll sameign, þar með talið stigagangurinn, hefur ekki verið þrifin svo mánuðum skiptir. Þá lekur þak fjölbýlishússins með tilheyrandi rakaskemmdum og myglu.

DV ræddi nokkra íbúa við Mávabraut vegna málsins og voru þeir allir miður sín yfir ástandinu. Ruslakompan væri full af gömlu sorpi og rusl væri einnig fyrir utan hana.

Ekki börnum bjóðandi

„Við höfum oft reynt að tala við þau leigufélög og þá verktaka sem eiga meirihluta þeirra íbúða sem eru í húsinu. Þar af leiðandi eru þeir með meirihluta á húsfélagsfundum sem þeir mæta annaðhvort seint á eða ekki yfirhöfuð,“ sagði einstæð móðir sem DV ræddi við sem vildi ekki koma fram undir nafni af ótta við að missa sína eigin leiguíbúð.

„Það er ekki mikið leiguframboð á Suðurnesjum og þarf ég þess vegna því miður að sætta mig við það sem ég fæ, en þetta er samt ekki fólki, fjölskyldum og börnum bjóðandi. Þakið lekur, það er mygla í húsinu, svo ekki sé minnst á þennan ógeðslega óþrifnað í kringum alla blokkina. Þú ættir bara að koma og sjá þetta með eigin augun,“ sagði konan.

Fíkniefnaneysla og sígarettustubbar

Blaðamaður DV mætti á staðinn ásamt ljósmyndara og við tók ruslafjall fyrir utan fjölbýlishúsið. Lyktin var óbærileg og því hægt að draga þá ályktun að ruslatunnurnar hafi ekki verið tæmdar í nokkrar vikur. Að sama skapi var svokölluð „ruslarenna“, sem gengur frá þriðju hæð og niður í sorpgeymslu, stífluð. Sú ruslarenna er stífluð frá sorpgeymslunni í kjallara og alveg upp á þriðju hæð. Margoft hefur verið bent á þetta og þeir sem eiga flestar íbúðirnar í fjölbýlishúsinu hafa verið beðnir, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að ganga í þetta mál en íbúar hafa ekki haft erindi sem erfiði.

Blaðamaður DV mætti á staðinn nú á dögunum og ekkert hafði breyst frá því að íbúarnir höfðu samband við DV. Stigagangurinn var skítugur, slitinn og þakinn sígarettustubbum, svo ekki sé minnst á fnykinn sem umlykur fjölbýlishúsið sjálft og má í raun finna á hverri hæð hússins. En fnykurinn er ekki það eina sem fer í taugarnar á fólki heldur er það einnig mikil fíkniefnaneysla á svæðinu með tilheyrandi fylgihlutum á borð við hasspípur úr bæði áldósum og plastflöskum sem hafa verið á víð og dreif við fjölbýlishúsið.

DV hafði samband við forsvarsmenn Ölmu, sem á fjórar íbúðir á svæðinu, en Hersir Aron Ólafsson, lögfræðingur Ölmu, benti á að húsfélagið væri í rekstri hjá fyrirtækinu Eignaumsjón. Þar á bæ viðurkenndu menn þó að fjölbýlishúsið við Mávabraut uppfyllti ekki þeirra ítrustu kröfur um þægindi, „… og höfum við því unnið að því að selja þær örfáu íbúðir sem við eigum þar.“

Mávabraut uppfyllir ekki kröfur

„Húsfélagið er í rekstri hjá Eignaumsjón. Formaður húsfélagsins heitir Guðjón Vilhelm Sigurðsson, en hann er ótengdur Ölmu. Geri ráð fyrir að fyrirspurnir eða umfjöllun um myndir af húsinu ættu því helst að snúa að honum,“ segir Hersir Aron.

DV reyndi ítrekað að hafa samband við Guðjón Vilhelm Sigurðsson vegna málsins en hann er, að sögn forsvarsmanna Ölmu og Eignaumsjónar, ótengdur þeim fyrirtækjum, en starfar samt sem áður sem formaður húsfélagsins. Hann hafði ekki svarað fyrirspurnum DV þegar blaðið fór í prentun.

Uppfært kl. 21.55: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar stóð að meirihluti íbúðanna í húsinu væru í eigu Ölmu leigufélags. Það er ekki rétt, heldur á Alma aðeins fjórar íbúðir af þeim 42 sem eru í húsinu við Mávabraut 7-11. Myndir sem fylgja fréttinni eru samt sem áður teknar í íbúðum sem eru í eign leigufélagsinS. DV harmar þessi mistök við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala