fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Eru þetta helstu skúrkar Íslands í dag?

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 5. desember 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og sósíalisti, hefur undanfarna daga tekið saman nokkra Íslendinga sem að hans mati eru birtingamynd þess sem er að Íslandi í dag. Þar eru bæði þekkti fólk, svo sem Bjarni Benediktsson, en jafnframt menn svo sem Andri Þór Guðmundsson, forstjóri og annar aðaleigandi Ölgerðarinnar, sem hótaði starfsfólki í upphafi desembermánaðar.

Gunnar Smári segir að Andra Þór vera birtingamynd auðvaldsins. „Á annan tug starfsmanna Ölgerðarinnar sem eru í VR var stillt upp við vegg undir lok síðustu viku af forsvarsmönnum Ölgerðarinnar. Ef starfsmenn myndu ekki láta af rétti sínum til styttri vinnuviku þá yrði þeim sagt upp um mánaðamótin nóvember-desember. Í síðustu kjarasamningum var samið um styttingu vinnutíma félagsmanna VR sem svarar til níu mínútna á dag fyrir starfsmann í fullu starfi. Þessar níu mínútur jafngilda 45 mínútum á viku eða rúmlega þriggja klukkustunda á mánuði án skerðingar launa. Markmiðið með breytingunni var að gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni. Andri Þór Guðmundsson er forstjóri og annar aðaleigandi Ölgerðarinnar,“ segir Gunnar Smári.

Burt með láglaunastefnuna

Annar maður sem Gunnar Smári nefnir er Dagur B. Eggertsson en hann er nefndur sem dæmi um birtingamynd láglaunastefnunnar. „Reykjavíkurborg, sem er félag okkar borgarbúa, er stærsti láglaunavinnustaður landsins. Leikskólar, grunnskólar og aðrar grunnstoðir borgarsamfélagsins eru keyrðar áfram af láglaunafólki, sem fær svo lág laun fyrir vinnu sína að þau duga ekki fyrir framfærslu. Fólkið þarf að velja á milli þess að svelta síðustu daga mánaðarins eða vera í tveimur, þremur vinnum. Auk þess að ráða fólk til starfa á lægstu launum hefur Reykjavíkurborg útvistað störfum til undirverktaka, sem greiða starfsfólki sínu lægstu laun. Fólkið með lægstu tekjurnar innan Reykjavíkurborgar fær því ekki aðeins lakari laun en annað starfsfólk, heldur hefur veikari réttindi og býr við minna öryggi,“ segir Gunnar Smári og heldur áfram:

„Innan Reykjavíkurborgar og stofnana hennar grasserar því skaðleg stéttaskipting. Æðsti embættismaður borgarinnar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, er með rúmlega sjöföld laun á við það sem lægst launaða fólkið fær hjá borginni og hefur auk þess ýmiss hlunnindi sem venjulegu verkafólki dreymir ekki um. Láglaunastefnan magnar þannig upp óeðlilegan stéttamun og óþolandi aðgreiningu milli fólks á vinnustöðum borgarinnar og grefur undan siðferðinu í borginni. Forsenda þess að hægt sé að byggja upp gott samfélag í Reykjavík er að láglaunastefnan gagnvart verkafólki verði lögð niður.“

Burt með spillingu

Næst á dagskrá er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir en hún er nefnd sem dæmi um spillingu: „Haraldur Johannessen er fæddur 25. júní 1954 og er því rúmlega 65 ára. Samkvæmt samningi við Áslaugu Örnu dómsmálaráðherra kemur hann til starfa í ráðuneytinu núna í þrjá mánuði, þá tekur við fimmtán mánaða ráðgjafasamningur og að honum loknum koma sex mánaða biðlaun ríkislögreglustjóra. Samanlagt eru þetta 24 mánaða uppsagnarfrestur (það vita allir að enginn ætlast til að Haraldur geri nokkurn skapaðan hlut þennan tíma). Þegar ráðgjafasamningnum líkur 1. júní 2021 verður Haraldur rétt tæplega 67 ára. Þá taka við sex mánaða biðlaun og svo vegleg eftirlaun ríkisforstjóra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð sé um sína, hina innvígðu og innmúruðu, líka þá sem klúðra málum,“ segir Gunnar Smári.

Hann nefnir formann hennar, Bjarna Benediktsson, sem dæmi um sama löst. „Umboðsmaður Alþingis hefur bent á að setja eigi reglur um starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn til að tryggja að jafnræðis og samræmis gæti, að innvígðir og innmúraðir fái ekki betri kjör í krafti klíkuskapar. Árið 2016 voru sett ákvæði í lög um opinbera starfsmenn þar sem ráðherra var gert að setja þessar reglur. Þrátt fyrir að þrjú ár séu liðin hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ekki enn sett þessar reglur. Á meðan hafa innvígðir og innmúraðir Sjálfstæðisflokksmenn fengið feita starfslokasamninga úr ríkissjóði, í samkomulagi við innvígða og innmúraða Sjálfsstæðisflokksráðherra,“ skrifar Gunnar Smári.

Burt með ofurlaun

Sá fimmti sem Gunnar Smári nefnir er Hörður Árnason en hann táknar ofurlaun. „Árslaun Harðar Árnasonar, forstjóra Landsvirkjunar, í fyrra voru 41 milljón króna eða 3,4 milljón krónur á mánuði, eða rúmlega ellefu fjöld lágmarkslaun. Á síðustu fjórum árum hafa laun Harðar tvöfaldast, hækkað um 1.750 þús. kr. á mánuði á sama tíma og lægstu laun hafa hækkað um 86 þús. kr. Hörður hefur því fengið meira en tuttugu sinnum hærri launahækkun en verkafólk á lægstu launum. Fyrir fjórum árum var Hörður með tæplega áttföld lægstu laun en í fyrra hafði hann gleypt þrenn lægstu laun til viðbótar. Á sama tíma og stjórnvöld, auðvald og elíta, berjast gegn hækkunum lægstu launa eru laun hinna hæst launuðu hækkuð linnulaust. Burt með ofurlaun!,“ segir Gunnar Smári.

Burt með kvótann

Að lokum nefnir Gunnar Smári til leiks Guðmund í Brim en hann segir að Guðmundur sé stærsti styrkþegi landsins. „Miðað við gangverð á leigukvóta er verðmæti aflaheimilda sem úthlutað var fiskveiðiárið 2019-2020 um 76.747 milljónir króna. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 verður innheimt fyrir þessar veiðiheimildir 4.850 milljónir króna, eða 6,3% af raunvirði þeirra. Mismunurinn, 71.624 m.kr. verða gefnar útgerðarmönnum,“ skrifar Gunnar og heldur áfram:

„Af þeirri gjöf má ætla að 10.944 milljónir króna renni til Brim-samstæðunnar (Brim (áður HBGrandi), Útgerðarfélag Reykjavíkur (áður Brim) og Ögurvík) en samstæðan ræður yfir 15,3% aflaheimilda þótt samkvæmt lögum sé óheimilt að úthluta sama aðila meira en 12% af aflaheimildum. Samherja-samstæðan (Samherji, Síldarvinnslan, Bergur-Huginn, Útgerðarfélag Akureyrar, Gjögur) fá í sinn hlut um 10.529 milljónir króna í sinn hlut, af þessari gjöf stjórnvalda, sem samanlagður kvóti þessara fyrirtækja er um 14,7% allra veiðiheimilda. Guðmundur í Brim (á myndinni) er stærsti styrkþegi landsins í dag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala