fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Svarthöfði gerir upp árið

Svarthöfði
Mánudaginn 30. desember 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þá er kominn tími til að kveðja enn eitt árið og hvað stendur eftir? Svarthöfði sér ekki betur en að við séum ekkert betur sett en fyrir ári. Jafnvel þvert á móti. Flugfélagi fátækari, þungamiðjan í alþjóðlegu spillingarhneyksli, með ríkisstjórn sem rétt hangir saman á þrjóskunni einni saman. Íslendingar orðnir feitastir, þunglyndastir og kvíðnastir í heimi og fjársvelta heilbrigðiskerfið okkar fækkar starfsfólki þegar það ætti að vera að fjölga því. En sem betur fer finnum við tímann í hversdagsleikanum til að standa í kílómetra löngum röðum eftir rauðbirknum trúbadorum og rífast um IKEA-mottur. Góðærið er búið, en enginn er tilbúinn að sníða sér stakk eftir vexti, við viljum eiga meira, þéna meira, borga minna, lifa hraðar og leyfa okkur allt. Afneitunin er algjör.

Svarthöfði hefur ekki sofið síðustu vikur sökum tannagnísts Þorsteins Más Baldvinssonar en sem betur fer hafa brunarústir WOW haldið hitanum bærilegum. Vongóðir aðilar hafa nefnilega blásið reglulega í glæðurnar og þótt enn hafi þeim ekki tekist að tendra bálið að nýju, þá hafa þeir haldið lifandi voninni um að ferðamannageirinn rétti úr kútnum.

Aftur ætlar Svarthöfði að verðlauna þá sem stóðu sig best á árinu, enda best að skila hólinu þangað sem það á heima.

Svikari ársins

Davíð Oddsson.

Það var á pari við fljúgandi svín þegar einn gallharðasti Sjálfstæðismaður landsins, Davíð sjálfur Oddsson, sendi flokkssystkinum sínum puttann vegna stefnu þeirra í Þriðja orkupakkamálinu. Um tíma þótti mönnum hann jafnvel hafa alfarið sagt skilið við sinn gamla flokk og gengið til liðs við Miðflokksmenn. Davíð dissaði ítrekað forystu Sjálfstæðisflokksins með ritstjórnarpistlum Morgunblaðsins og fór þar sérstaklega ljótum orðum um ráðherrana Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Þessi rígur innan Sjálfstæðisflokksins er talinn ein ástæða þess að fylgi flokksins tók sögulega dýfu. Með andstöðu sinni sveik Davíð því í raun flokkinn sinn og olli honum skaða. Hann er því vel að titlinum „svikari ársins“ kominn.

Leyndarmál ársins 

Ekki verður gefið upp hverjir sækja um stöðu útvarpsstjóra og hefur sú ákvörðun sætt harðri gagnrýni. Jafnvel hefur verið gengið svo langt að tengja þessa ákvörðun því að þegar hafi einstaklingur verið handvalinn í stöðuna og leyndardómurinn því leikrit til að koma í veg fyrir óþægilegar ályktanir þegar nýr útvarpsstjóri verður kynntur til sögunnar. Hvort sem þessi ákvörðun var tekin af réttmætum ástæðum eða ekki þá er samt um leyndarmál ársins að ræða, enda hefur hún engu skilað nema aukinni tortryggni og deilum.

 

Grátur ársins 

Mál starfsmannaleigunnar Menn í vinnu var áberandi á árinu eftir að nokkrir rúmenskir starfsmenn leigunnar stigu fram í fréttum og sýndu meintar bágar aðstæður sem þeim var gert að búa við. Fyrir hópnum fór maður sem var í svo miklu uppnámi vegna aðstæðna að hann felldi tár og fékk í kjölfarið viðurnefnið „grátandi Rúmeninn“.

 

 

Hástökkvari ársins 

Hástökkvari ársins 2019 er blóðþrýstingurinn hans Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis. Hann hefur ítrekað vakið athygli fyrir skaphita og ofsa og virðist tilvikunum fremur fjölga en fækka þessi misserin.

 

 

 

 

 

Vonarstjarna ársins 

Indverska prinsessan.

Það yljaði mörgum um hjartarætur þegar ein ástsælasta tónlistarkona landsins hlaut loksins verðskuldaða athygli utan landsteinanna. Leoncie varð fræg í fimm mínútur í Bandaríkjunum eftir að spjallþáttastjórnandinn vinsæli, Jimmy Fallon, vakti athygli á tónlist hennar.

Lexía ársins

Atli Rafn. Mynd: Eyþór Árnason

Tveir dómar féllu í Héraðsdómi Reykjavíkur á árinu í málum tengdum metoo-byltingunni. Annars vegar í máli lektors við Háskólann í Reykjavík sem viðhafði ummæli sem kenna mátti við kvenhatur á lokuðum hóp á Facebook, og hins vegar í máli leikara sem hafði ítrekað verið kvartað yfir sökum kynferðislegrar áreitni innan sem utan vinnustaðarins. Dómarnir virðast kenna landsmönnum þá lexíu að það sé alvarlegra að tala ljótt um konur á samfélagsmiðlum en að áreita þær.

Ingjaldsfífl ársins

Nokkrir sjóarar komu sér heldur betur í bobba eftir að þeir mynduðu sjálfa sig þar sem þeir skáru sporð af hákarli. Svarthöfði veit ekki hvort sé merkilegra í málinu, að þeir hafi í alvöru tekið athæfið upp á myndband eða hitt, að þeir hafi í alvörunni deilt því á internetinu.

 

 

Uppþot ársins 

Hér reyndist Svarthöfða erfitt að gera upp á milli tilvika, enda úr mörgum að velja. IKEAmottu-æsingurinn, orkupakkamálið, Palestínufáni Hatara. Hins vegar stendur klósettbursta-uppþotið klárlega upp úr. Mislukkaður brandari sem fór gífurlega fyrir brjóstið á tyrkneskum landsliðsmönnum í knattspyrnu og fótboltabullum. Það versta við þetta allt saman er að gerandinn í málinu var ekki Íslendingur, heldur Belgi og hann var ekki með klósettbursta heldur uppþvottabursta. Engu að síður urðu Tyrkir brjálaðir út í Íslendinga og voru enn að hefna sín á okkur um hálfu ári síðar með því að torvelda Íslendingum að komast í gegnum landamæraeftirlit í Tyrklandi.

Ráðgáta ársins

Gunnar Bragi Sveinsson.

Ráðgáta ársins, og óleyst í þokkabót, er hvað í drottins nafni varð um fötin sem þingmaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, týndi eftir kvöldið fræga á Klaustri bar. Í janúar greindi hann frá því að þetta umrædda kvöld hafi hann drukkið sig til óminnis og tapað fötum sínum. Engum sögum hefur síðan farið af því hvort umrædd föt hafi komið í leitinnar. Hvers konar föt voru þetta? Voru þetta buxurnar hans? Hvar eru buxurnar hans Gunnars? Þetta er ærið efni fyrir rannsóknarblaðamenn og skorar Svarthöfði á blaðamenn landsins að upplýsa þessa ráðgátu á nýju ári.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala