fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Guðrún Kamilla var handtekin á heimili lektorsins – „Hann kunni ekki að sprauta sig sjálfur svo ég sprautaði hann“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 30. desember 2019 18:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þessar stelpur voru þarna allar af fúsum og frjálsum vilja. Þetta er þekkt aðferð í undirheimunum. Um leið og það fréttist af einhverjum ríkum kalli sem er að misstíga sig þá stökkva allir fíklar á hann, þetta er ekki í fyrsta skipti sem það gerist og svo sannarlega ekki í það síðasta,“ segir Guðrún Kamilla Sigurðardóttir sem handtekin var á heimili Kristjáns Gunnars Valdimarssonar á Þorláksmessu og sat í fangaklefa í sautján klukkutíma.

Lögreglan safnar DNA-sýnum frá heimili Kristjáns Gunnars

Það skal tekið fram að þetta er upplifun hennar af þeim atburðum sem áttu sér stað inni á heimili Kristjáns Gunnars yfir hátíðirnar. Kristján Gunnar er sakaður um alvarlega glæpi, meðal annars nauðgun, frelsissviptingu og líkamsárás. Hann er nú laus úr haldi og er, samkvæmt heimildum DV, með fjölskyldu sinni. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er enn við rannsóknir á heimili hans að Aragötu í vesturbæ Reykjavíkur og er nú verið meðal annars að taka DNA-sýni sem send verða út til rannsóknar.

Sjá meira: Lektor við HÍ með unglingapartí í Vesturbænum

Ætluðu að leiða Kristján Gunnar í gildru

Guðrún Kamilla kynntist Kristjáni Gunnari við heldur óvenjulegar aðstæður. Kunningi Guðrúnar Kamillu hafði ætlað sér að leiða Kristján Gunnar í gildru með því að panta fyrir hann vændiskonu af þekktri síðu á netinu. Vændiskonan var hins vegar vinkona kunningja Guðrúnar Kamillu og var henni ætlað það hlutverk að draga Kristján Gunnar á tálar og átti þá önnur stúlka að taka það upp á myndskeið. Myndskeiðið átti síðan að nota til þess að kúga Kristján Gunnar.

„Mér ofbauð svo svakalega við að heyra þetta að ég fór og hitti vin minn sem var staddur á heimili Kristjáns Gunnars, ræddi þetta við hann í þeirri von að hann myndi vara Kristján Gunnar við. Það hins vegar var ekki gert og þegar ég frétti það þá fór ég aftur að heimili hans og ræddi beint við Kristján Gunnar. Úr varð að viðkomandi aðilar náðu ekki umræddum myndskeiðum af honum en ég veit það samt að til eru myndskeið sem ónafngreindir hafa reynt að nýta sér til þess að fjárkúga hann,“ segir Guðrún Kamilla sem þekkir vel til undirheima Reykjavíkur en hún hefur átt við fíknivanda að stríða frá því hún var tólf ára gömul. Hún er 34 ára í dag. Atburðarásin sem hún lýsir átti sér stað 18. desember. Það var þá sem Guðrún Kamilla hitti Kristján Gunnar í fyrsta skipti. Frá þeim degi var Guðrún Kamilla gestur á heimili Kristjáns Gunnars ásamt unnusta sínum og gistu þau heima hjá honum allt þar til þau voru öll handtekin á Þorláksmessu.

Sjá meira: Krisján Gunnar handtekinn

Vildi hjálp við að sprauta sig

„Þegar ég kem þangað þá eru þarna nokkrir í heimsókn hjá Kristjáni Gunnari, meðal annars stúlkan sem hefur nú kært hann fyrir nauðgun. Hún hafði verið þarna í fimm daga þegar ég kom. Allt þetta fólk var að gista heima hjá honum og það var neysla allan sólarhringinn. Kristján Gunnar var þá byrjaður að sprauta sig en hann kunni það ekki sjálfur svo ég sprautaði hann. Ég viðurkenni það alveg. Hann hafði fengið hjálp við að sprauta sig löngu áður en ég kynntist honum. Maðurinn er bara fíkill eins og svo margir aðrir og það er auðvelt að klína öllu á fíkla, þá sérstaklega ef það eru eldri menn sem eiga nóg af peningum. Kristján Gunnar var líka í mjög erfiðri stöðu því hann vildi fíkniefni en kunni ekki að verða sér úti um þau án þess að hafa samband við fólk sem var mjög veikt sjálft. Fólk sem er veikt eins og ég. Sumir eru samt illa innrættir og veikir. Sú blanda getur endað ömurlega eins og við erum bara að sjá núna,“ segir Guðrún Kamilla. Hún vill meina að Kristján Gunnar sé í raun ekkert sekur um neitt annað en að vera veikur einmana fíkill sem á nóg af peningum.

Sjá meira: Nærmynd af Kristjáni Gunnari – Kókaín, vændi og júdó

Keypti fíkniefni fyrir mörg hundruð þúsund

„Ég get náttúrulega bara sagt frá því sem ég varð vitni að og þetta er það sem ég sá og upplifði. Kristján Gunnar er alls ekki slæmur maður. Hann kom vel fram við alla sem hjá honum voru og hann greiddi fyrir öll fíkniefnin sem þetta fólk notaði. Fíkniefni sem ég notaði. Ég keypti meira að segja fíkniefni fyrir hann fyrir mörg hundruð þúsund. Þessi fíkniefni gengu síðan manna á milli og ég held að Kristján Gunnar hafi verið sá sem minnst hafi ráðið því hver notaði þau. Fólk bara stökk á efnin. Það var enginn að mæta þarna til hans í heimsókn sem ekki hafði neytt eiturlyfja áður. Hann var ekki að byrla fólki. Það var meira um það að fólk reyndi að byrla honum til þess að stela af honum peningum. Það eru fíklar þarna úti sem eru með öll kreditkortanúmerin hans til dæmis og hafa stolið af honum háum fjárhæðum. Þetta veit Kristján Gunnar og þetta veit lögreglan. Ég hef sjálf farið í yfirheyrslur út af því sem þarna gekk á,“ segir Guðrún Kamilla en tekur fram að hún hafi ekki verið þarna á jóladag en þá er Kristjáni Gunnari gefið að sök að hafa ráðist á og frelsissvipt tvær ungar konur, tvær systur.

Sjá meira: Dóttir Gunnars var á heimili lektorsins – Sprautur, eiturlyf og hnífar

„Það er ekkert grín að sitja saklaus í fangaklefa“

„Ég veit ekkert hvað gerðist þá. Var sjálf þannig séð nýkomin úr fangaklefa og vildi bara eyða jólunum með unnusta mínum. En ég man eftir þessum sautján klukkutímum. Það er ekkert grín að sitja saklaus í fangaklefa í sautján klukkutíma. Ég ætla ekkert að nafngreina þessar stelpur hér sem hafa lagt fram kæru á hendur honum. Þetta mun sitja á samvisku þeirra það sem eftir er. Þær hafa lagt mannorð Kristján Gunnars algjörlega í rúst og allt þetta mál getur tekið enn skelfilegri endi. Ég veit það sjálf af eigin raun,“ segir Guðrún Kamilla en hún missti frænda sinn, bróður móður sinnar, þegar hún var aðeins tíu ára gömul: „Hann var eins og pabbi minn. Hann fór með mig í fyrstu bíóferðina, fyrstu leikhúsferðina, fyrstu handboltaæfinguna. Þetta var eins og að missa pabba minn.“

„Hann var ásakaður um að hafa misnotað stjúpdóttur sína en eftir rannsókn lögreglu og barnaverndaryfirvalda kom í ljós að það átti ekki við nein rök að styðjast. Þarna fer samt atburðarás af stað sem endar hörmulega og þannig gæti farið fyrir honum Kristjáni Gunnari út af þessari vitleysu. Það var beðið eftir frænda mínum þar sem hann var að sækja AA-fund en eftir fundinn þá fer hann hjólandi af stað heim til sín. Hann fór hjólandi því það hafði verið stungið á dekkin á bílnum hans. Þegar hann hjólar frá AA-fundinum, svona 300 metra frá lögreglustöðinni í Hafnarfirði, þá er keyrt á hann. Undir stýri var stjúpsonur hans. Hann er fluttur á sjúkrahús þar sem hann deyr. Þetta getur gerst. Sá sem myrti hann fékk dóm fyrir manndráp af gáleysi.“

Finnst mikilvægt að sannleikurinn komi fram

Guðrún Kamilla segir Kristján Gunnar hafa fallið í sumar. Síðan þá hafi tekið við atburðarás sem hún vill meina að hann hafi ekkert ráðið við. Hún segist standa við allt sem hún hefur sagt um þetta mál, það skipti hana gríðarlega miklu máli að sannleikurinn komi fram.

„Það eina sem ég get gert er að segja satt og rétt frá því sem ég upplifði. Ég veit ekkert hvað gerðist þarna á jóladag en fram að því var ég þarna öllum stundum frá 18. desember og þar til ég er handtekin 23. desember.“

Fjölmörg útköll lögreglu

Lögreglan hefur verið kölluð að heimili Kristjáns Gunnars í fjölmörg skipti, vegna allt frá ofskömmtun lyfja til lífshættulegra krampa og einstaklinga í andauð. Þá eru útköllin misalvarleg en í ágúst var lögreglan til að mynda í tvígang kölluð að heimili hans en þá hafði eitt af partíum lögfræðingsins farið úr böndunum. Ekki er langt síðan lögreglan var kölluð að heimili lektorsins vegna ungrar stúlku sem hafði tekið of mikið af fíkniefnum og var í lífshættu. Ekki er vitað hvort Kristján Gunnar hafi verið færður á lögreglustöð við það tilefni. Partíið hélt samt áfram á heimili hans. Stúlkan er ekki sú eina sem hefur verið flutt með sjúkrabifreið frá heimili Kristjáns Gunnars. 
 
Eins og áður segir var Kristján Gunnar handtekinn á Þorláksmessu. Hann var færður til yfirheyrslu en sleppt að henni lokinni. Hann var síðan aftur handtekinn heima hjá sér á jóladag. Degi áður, eða á aðfangadag, var stúlka flutt af heimili hans og á bráðamóttöku Landspítalans. Stúlkan er 25 ára en réttargæslumaður hennar hefur staðfest að kæra hafi verið lögð fram á hendur Kristjáni Gunnari.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala