Sunnudagur 29.mars 2020
Fréttir

Byggingarfélag grunað um að flytja flóttamenn til Íslands í svarta vinnu – Lyktar af mansali

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 16. desember 2019 20:00

Hubert Pawlik - Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íraskur maður var handtekinn um daginn í máli sem lyktar af vinnumansali. Maðurinn er þó talinn vera þolandi í málinu en hann virðist hafa unnið hér svart í þrjú ár án þess að fá nokkurn tíma laun greidd inn á bankareikning heldur ávallt í reiðufé. Atvikið er talið vera hluti af stærra máli en að sögn eftirlitsaðila sem DV hefur rætt við þá virðast mál af þessu tagi færast í vöxt. Maðurinn var fluttur hingað til lands frá Svíþjóð þar sem hann virðist hafa verið hælisleitandi.

Verktaki í Reykjavík hefur haft samband við DV og fullyrt að verktakafyrirtæki sem hann hefur átt í viðskiptum við flytji inn ólöglegt vinnuafl í stórum stíl og láti vinna svart hjá sér. Maðurinn segist margsinnis hafa skýrt stéttarfélögum og lögreglu frá því sem hann hefur orðið áskynja um en hann telur viðbrögð þeirra aðila vera mjög hæg.

„Ég fæ kjánahroll þegar þetta lið biður um að fá að sjá vinnustaðaskírteini. Ég er búinn að margbiðja þá um að hætta með þessi vinnustaðaskírteini því menn falsa þau að vild,“ segir maðurinn, en það að biðja um vinnustaðaskírteini er hluti af hefðbundnu eftirliti stéttarfélaga. Vinnustaðaskírteini er hins vegar gagn sem bara viðkomandi vinnuveitandi kvittar upp á og ef hann er með óhreint mjöl í pokahorninu er það harla lítils virði.

DV hefur upplýsingar um nöfn þeirra sem umræddur verktaki ásakar um þetta misferli en þau verða ekki birt í bili þar sem umfang brotanna er ekki ljóst, engar ákærur hafa verið gefnar út og málin langt frá því að vera fullrannsökuð. Sömu aðilar virðast tengjast þeim fyrirtækjum sem hér eiga í hlut og fyrirtækin eru tengd innbyrðis. Nafn eins manns kemur þráfaldlega upp í þessum málum en hann er kornungur byggingarverktaki.

Einn handtekinn og annar flúði við eftirlit á byggingasvæði

DV hitti að máli Hubert Pawlik, eftirlitsfulltrúa hjá Húsi fagfélaganna. Hann var ásamt öðrum eftirlitsfulltrúa við eftirlit á byggingarsvæði fyrir tveimur vikum vegna ábendinga um þrjá ólöglega starfsmenn:

„Við fáum ábendingu um að kíkja á stað vegna þess að þar séu menn í járnabindingum sem gætu verið ólöglegir,“ segir Hubert, en í svona málum á misferlið sér oftast stað hjá þriðja verktaka. Fyrsti verktakinn er oftast grunlaus um misferli, það er byggingarfyrirtækið sem ræður til sín járnabindingamenn, en þeir aðilar ráða síðan undirverktaka og hjá þeim aðila verður misferlið.

Einn mannanna þriggja, en hann er sagður vera frá Kanada, var ekki á staðnum. Eftirlitsmennirnir tveir hittu hins vegar fyrir Íraka og Kosovo-búa:

„Kosovo-maðurinn sýndi mér vinnustaðaskírteini og ég bað hann um að sýna mér persónuskilríki. Hann segir mér að þau séu í nokkurra metra fjarlægð og hann ætli að sækja þau. Hann kom hins vegar ekki aftur,“ segir Hubert sem telur mögulegt að í sumum tilvikum hafi ólöglegir starfsmenn fyrirmæli um að flýja af vettvangi ef eftirlitsaðilar biðja þá um skilríki.

„Hinn maðurinn er Íraki. Hann var ekki með nein persónuskilríki en fór með okkur inn í gám og dró þar fram einhvers konar bráðabirgðadvalarleyfi – eða leyfisumsókn í vinnslu – en þeir pappírar höfðu runnið út árið 2018.“

Samkvæmt vinnustaðaskírteini mannsins er hann fæddur árið 1995 en Hubert segir að hann líti út fyrir að vera miklu eldri. Kom á daginn að þær upplýsingar voru falsaðar og segir það kannski nokkuð mikið um hve lítils virði þessi vinnustaðskírteini eru, en maðurinn er fæddur árið 1985.

Á daginn kom að maðurinn hafði aldrei fengið laun millifærð heldur hafði alltaf fengið greitt í peningum. „Hann er búinn að vinna hérna í þrjú ár og fá greitt með þessum hætti allan tímann, þetta er mjög langur tími,“ segir Hubert.

Lögreglan kom á vettvang og segir Hubert að eðlilega hafi þeir yfirheyrt manninn með miklu skilvirkari hætti. Viðurkenndi maðurinn að honum hefði verið smyglað inn í landið frá Svíþjóð. Hann var ekki með nein persónuskilríki á sér og telur Hubert líklegt að hann hafi verið flóttamaður eða hælisleitandi í Svíþjóð.

Ekki hafa fengist upplýsingar frá lögreglu um málið en Hubert vonar að lögreglan láti ekki senda manninn strax úr landi þar sem hann tengist mjög líklega stærra máli sem þurfi að rannsaka betur og hann sé líklega fórnarlamb en ekki gerandi í glæpnum.

Málið virðist lykta af vinnumansali en Hubert vildi ekki gefa álit sitt á því hvort það myndi flokkast undir það.

Dæmi um að fólk sé sent slasað úr landi

Fyrir utan að greiða mjög líklega laun undir taxta eru vinnuveitendur að losna við að greiða launatengd gjöld, skatta og tryggingar með þessum vinnubrögðum. Ljóst er að hér er um glæpsamlegt athæfi að ræða.

Þar sem starfsfólkið er ótryggt eru dæmi um að vinnuveitendur vilji ekki að það komist undir læknishendur ef það slasast heldur sé keypt flugfar undir það í snarhasti og eru dæmi um að fólki hafi verið flogið slösuðu úr landinu.

Hubert viðurkennir að vinnustaðaskírteini hafi lítið gildi og tekur því þar undir gagnrýni verktakans sem nefndur var til sögu hér í upphafi greinar. „En ef menn virka taugaóstyrkir biðjum við um persónuskilríki,“ segir hann og bætir við að þeir megi greinilega ekki missa menn úr augsýn þegar þeir segjast ætla að skreppa og ná í pappíra, rétt eins og gerðist með Kosovo-búann sem lét sig hverfa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Jón Gunnlaugur tekur við Víkingi, Andri Berg aðstoðar

Jón Gunnlaugur tekur við Víkingi, Andri Berg aðstoðar
Fréttir
Í gær

Blóðug átök í biðröð við salerni – Sagði að dömurnar ættu að ganga fyrir

Blóðug átök í biðröð við salerni – Sagði að dömurnar ættu að ganga fyrir
Fréttir
Í gær

Þorkell birti ótrúlegan spádóm – Stuttu seinna endaði hann í hjólastól

Þorkell birti ótrúlegan spádóm – Stuttu seinna endaði hann í hjólastól
Fréttir
Í gær

Ríkey varð kjaftstopp í Krambúðinni þegar þetta gerðist – „Við viljum alls ekki stofna neinum í hættu“

Ríkey varð kjaftstopp í Krambúðinni þegar þetta gerðist – „Við viljum alls ekki stofna neinum í hættu“