Laugardagur 18.janúar 2020
Fréttir

Margir minnast Ásbjarnar: „Tíminn sem við áttum með pabba var alltof stuttur en yndislegur“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 13. desember 2019 12:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásbjörn Jóns­son lést þann 3. des­em­ber síðastliðinn, 60 ára gamall að aldri. Ásbjörn starfaði allan sinn starfsferil sem lögmaður á Suðurnesjum. Hann var eigandi Lögfræðistofu Suðurnesja árin 1984-2015 og starfaði hann frá árinu 2015 og til æviloka hjá Reykjanesbæ sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarlögmaður. Ásbjarnar er minnst af fjölmörgum í Morgunblaði dagsins í dag.

„Ástarþakkir fyrir allt“

Þar kemur einnig fram að Ásbjörn hafi gengt margs konar trúnaðarstörfum, meðal annars fyrir Þjóðkirkju Íslands. Þá var hann kjörinn á Kirkjuþing árið 2006 þar sem hann var meðal annars í forsætisnefnd árin 2006-2010 en einnig sat hann í Kirkjuráði á árunum 2010-2015. Ásbjörn var dómari við Knattspyrnudómstól KSÍ um árabil auk þess sem hann var um tíma prófdómari við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Dætur Ásbjarnar, þær Björg, Birna og Bergrún,minnast föður síns með hjartnæmum hætti en þær segja að hann  hafi verið stoð þeirra og stytta í öllu. „Pabbi vildi allt fyrir okkur gera og gat reddað hinu ómögulega,“ segja þær. „Við gátum alltaf leitað til hans og treyst því að fá góð ráð við hverju sem var. Pabbi var kletturinn okkar. Pabbi hafði áhuga á öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Alla tíð hafði hann áhuga á því sem við vorum að læra og oft sköpuðust skemmtilegar samræður um námsefnið hvort sem það var efni í grunnskóla, framhaldsskóla eða í læknanámi.“

„Tíminn sem við áttum með pabba var alltof stuttur en yndislegur. Við eigum margar fallegar og skemmtilegar minningar með honum sem munu ávallt ylja okkur um hjartarætur. Efst í huga okkar er þakklæti, þakklæti fyrir takmarkalausu ástina, gleðina, hlýjuna, áhugann, hvatninguna og fyrir að hafa átt besta pabba í heiminum. Pabbi er okkar fyrirmynd. Við elskum þig, pabbi. Við erum og munum alltaf vera stoltar yfir að vera dætur þínar. Ástarþakkir fyrir allt.“

„Þetta kenndi Ásbjörn mér betur en aðrir“

Meðal þeirra sem minnast Ásbjarnar er héraðsdómarinn Lárentsínus Kristjánsson en leiðir hans og Ásbjarnar lágu saman árið 1991 en þá var Lárentsínus tiltölulega  nýútskrifaður lögfræðingur og hafði ráðið sig til starfa sem deildarlögfræðingur á lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins. Ásbjörn leitaði þá til stofnuninnar fyrir hönd umbjóðanda síns.

„Við Ásbjörn náðum strax þá, og æ síðan, mjög vel saman, þótt samskiptin hafi minnkað hin síð- ari ár og aðeins fennt í sporin. Úr varð þarna að hann bauð mér að koma til starfa hjá sér sem löglærður fulltrúi, en hann hafði þá nýverið tekið einn við rekstri Lögfræðistofu Suðurnesja. Ásbjörn bauð mun betri kjör en mér höfðu boðist þennan stutta tíma í faðmi hins opinbera, þannig að þrátt fyrir daglegan akstur um Reykjanesbraut, þá einbreiða og óupplýsta, ákvað ég að slá til.“

Lárentsínus segir það hafa verið happadrjúga ákvörðun en þeir Ásbjörn störfuðu saman í rétt rúm 16 ár. „Ekki man ég eftir að hafa heyrt Ásbjörn hækka róminn,“ segir Lárentsínus. „Hvort sem það var í samskiptum við samstarfsmenn, viðskiptavini, á fundum eða í dómsal. Hann nálgaðist hlutina jafnan af stóískri ró og yfirvegun, að viðbættu óþrjótandi glaðlyndi og húmor.“

„Þegar ég kom ungur og ör til starfa þarna suður með sjó vildi ég gjarnan keyra málin dálítið áfram og þótti Ásbjörn stundum fulláfjáður að leita sátta þannig að ekki þyrfti að koma til dómsmáls,“ segir Lárentsínus en eftir því sem árin liðu sá hann það betur hversu ótvíræðir kostir eru oft fólgnir í því að sætta mál ef einhver grundvöllur er sjáanlegur. „Eftir að ég skipti um starfsvettvang og hætti lögmennsku sé ég þetta enn betur. Þetta kenndi Ásbjörn mér betur en aðrir.“

„Hann var húmoristi og svör hans við sumum fyrirspurnum voru oft meira í gamni en alvöru“

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, minnist einnig Ásbjarnar. Ásbjörn kom til starfa sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs árið 2015 og var nánasti samstarfsmaður Kjartans í fimm ár. „Ásbjörn varð fljótt eftirsóttur ráðgjafi innanhúss,“ segir Kjartan en Ásbjörn aðstoðaði stjórnendur og starfsmenn í ýmsum mállum, bæði starfstengdum og persónulegum. „Hann var húmoristi og svör hans við sumum fyrirspurnum voru oft meira í gamni en alvöru. Þegar metnaðarfullir deildarstjórar leituðu álits á hugmyndum um lengri afgreiðslutíma eða aukna þjónustu átti hann til að svara: „Er ekki bara miklu betra að loka þessu og draga úr útgjöldum?“ Hann vildi ekki láta mikið á sér bera, leið betur í bakvarðarsveitinni og sagði m.a. í ráðningarferlinu: „Það eina sem ég vil vera laus við í þessu starfi er að koma fram í fjölmiðlum.“ Við það var staðið.“

Kjartan segir að síðustu 16 mánuði Ásbjarnar hafi hann starfað, vitandi af meininu sem hann þurfti að lokum að beygja sig fyrir. „Stærstan hluta þess tíma var hann virkur í starfi, ef ekki á skrifstofunni þá heima fyr- ir þar sem hann var búinn að koma sér upp góðri vinnuaðstöðu. Símtölin voru mörg og að eigin ósk tók hann oft þátt í fundum og ákvörðunum í síma. Hann brann fyrir verkefninu og var fram á síðustu stundu áfram um að leysa og ganga frá málum.“

„Aldeilis alveg ógleymanlegur vinur og félagi“

„Aldeilis alveg ógleymanlegur vinur og félagi; ærlegur, heiðarlegur, hraður, glaðlyndur, greindur og gefandi, en gat tekið sinn toll sem gefur að skilja af forsögðu,“ segir Önundur S. Björnsson, sóknarprestur og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, um Ásbjörn en þeir kynntust fyrir um 30 árum síðan.

„Í öllum okkar samskiptum gat ég ekki betur séð en að Ásbjörn tæki með báðum höndum utan um þau verkefni sem hann á annað borð tók að sér. Hann var fljótur að hugsa, áttaður og sérlega lausnamiðaður, hvort heldur var á vettvangi laga, kirkju eða reksturs bæjarfélags. Hann var afar metnaðarfullur í þeirri góðu merkingu að sækjast eftir að skila af sér því besta dagsverki sem vit hans, samviska og greind höfðu völ á.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Tveir slösuðust eftir árekstur á Garðvegi

Tveir slösuðust eftir árekstur á Garðvegi
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Benedikt fór í samkvæmi virðulegra manna: „Sannfærðir um að málið yrði þagað í hel“

Benedikt fór í samkvæmi virðulegra manna: „Sannfærðir um að málið yrði þagað í hel“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

„Ég veit ekki hvar þessi martröð endar“ – Tvö áföll á skömmum tíma og langur sakaferill

„Ég veit ekki hvar þessi martröð endar“ – Tvö áföll á skömmum tíma og langur sakaferill
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í sjúkraflug á Vestfirði: Faðir stúlkunnar sem lenti í snjóflóðinu er um borð

Þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í sjúkraflug á Vestfirði: Faðir stúlkunnar sem lenti í snjóflóðinu er um borð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Myndir frá varðskipinu Þór á vettvangi snjóflóðanna í nótt

Myndir frá varðskipinu Þór á vettvangi snjóflóðanna í nótt