fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

„Þetta er spilling og þetta ber að taka alvarlega“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 4. desember 2019 22:00

Björn Leví Gunnarsson. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, hefur verið óspar á stóru orðin í gegnum tíðina og ekki hikað við að gagnrýna störf annarra þingmanna. Nýlega vakti hann athygli þegar hann opnaði síðu í þeim tilgangi að safna saman spillingarsögum til að sýna og fræða Íslendinga um tíðni og mismunandi birtingarmyndir spillingar. Blaðamaður settist niður með Birni og ræddi daginn og veginn.

Barnið Björn 

„Ég var voðalega ljúfur sem krakki. Ég ólst upp úti á landi, hér og þar, ég var svona flökkukrakki. Þorlákshöfn fyrst, Grundarfjörður, Þorlákshöfn aftur, Grundarfjörður aftur, Sauðárkrókur og aftur Grundarfjörður.“ Allt frá barnæsku hefur Björn verið mikið í íþróttum og hefur í þrígang hlotið silfur á Íslandsmeistaramótum, hvert í sinni greininni. „Fyrst í kringlukasti. Maður var í öllu þarna úti á landi. Svo handbolta, þegar ég kom í bæinn og svo núna nýlega í bogfimi.“ Að loknum grunnskóla hélt Björn til Reykjavíkur þar sem hann fór í Fjölbrautaskólann í Ármúla á íþróttabraut. „Ég ætlaði að fara í íþróttakennaranám, það voru ákveðin áhrif sem íþróttakennari á Grundarfirði hafði á mig. Í lok íþróttatíma einhvern tímann tók hann okkur í svona heimspekilegt spjall og ég ákvað að fara þá leið.“

Björn var lagður í einelti sem barn og telur hann það hafa mótað hann mikið sem einstakling. „Ég var eineltiskrakki svo maður hafði ekkert svigrúm til að vera til vandræða. Eineltið hófst svona um átta ára aldurinn og stóð eitthvað fram eftir aldri. Það var hitt og þetta sem olli, til dæmis Leví-nafnið og líka þar sem ég var oft nýi krakkinn á svæðinu þar sem ég var mikið á flakki. Maður varð alveg utangarðs og ekki með fjölskyldu á svæðinu, bakland eða þvíumlíkt. Það var ansi röff.“

Telur þú að eineltið hafi mótað þig mikið sem einstakling? 

„Rosalega mikið. Þetta var svo óréttlátt og það er dálítið þannig sem spólar upp réttlætiskenndina hjá manni og gerir það að verkum í seinni tíð að þegar maður verður vitni að álíka óréttlæti þá segir maður nei, það kannski sést svona svolítið á mér, en það er eiginlega þaðan sem það kemur. Maður sér sjálfan sig sem góða manneskju í dag en hugsar, væri ég það ef ég hefði ekki lent í þessu? Væri ég önnur manneskja ef ég hefði ekki lent í þessu og myndi mér líka við þá manneskju?“

Heiðarleiki barna

Eftir framhaldsskóla voru það menntavísindin sem heilluðu.

„Ég fór svolítið í menntavísindi fyrst. Fyrsta starfið mitt eftir framhaldsskóla var starfsmaður á leikskóla. Þar eiginlega ólst ég svolítið upp með krökkunum. Þar hitti maður fyrst aftur heiðarlegt fólk. Börnin eru einlæg og segja það sem þau meina. Það er ástæða þess að ég segi oft að ég myndi frekar vilja fá fimm ára krakka á þing en fólkið sem er þar núna. Það er vinsælt fyrirbæri á internetinu í dag sem kallast „útskýrðu þetta eins og ég sé fimm ára“ en það er nokkuð sem þarf að gera í stjórnmálum. Þingmenn eiga ekki að vera sérfræðingar í öllu, það á að vera hægt að útskýra fyrir almenningi og þingmönnum með skiljanlegum hætti hvað er að eiga sér stað.“

Tölvunarfræðin heillaði Björn einnig. Hann fór í kvöldskóla og lærði tölvufræði, byrjaði í grunnnámi í Kennaraháskólanum en færði sig svo alveg út í tölvunarfræði í háskólanum og í kjölfarið fór hann í doktorsnám erlendis í menntatölvutækni. Hann var staddur erlendis í námi þegar efnahagshrunið varð á Íslandi árið 2008.

Pólitíkin kallar

Mynd: Eyþór Árnason

„Ég var nýfluttur til útlanda þá, í nám, fór út í ágúst 2008 og stuttu seinna fór allt á hliðina. Þarna horfði ég á þetta gerast utan frá og þá var mjög erfitt að vera Íslendingur erlendis. Síðan komu Píratar inn í kosningunum 2013. Ég þekkti til hugmyndafræðinnar sem þeir unnu eftir, það var í raun nákvæmlega það sem ég var sjálfur að kenna sem aðstoðarkennara í doktorsnáminu.“

Píratar vildu uppfæra stjórnmálin í takt við öra tækniþróun samtímans.

„Ég sá alveg alvöruna á bak við þetta. Ég kannaðist við Helga Hrafn frá eldri tíð og ég var með Smára í tölvunarfræði í Háskóla Íslands svo ég vissi alveg að þeim væri alvara, þetta var ekkert djók. Ég spurði í raun bara hvað ég gæti gert til að hjálpa, ég hafði staðið fyrir utan þetta allt, þessi fimm ár frá hruni, þar sem ég gat ekkert gert og var bara áhorfandi. Einhverra hluta vegna, án þess að hafa svo mikið sem hitt allt fólkið í flokknum, endaði ég á 2. sæti á framboðslista. Ég spurði bara: En þið hafið ekki einu sinni hitt mig? En þarna varð ekki aftur snúið hvað þetta varðaði.“

Birni finnst mikið líkt með tölvunarfræði og stjórnmálum, en sú líkindi fá ekki að njóta sín í því kerfi sem starfað er eftir í íslenskum stjórnmálum.

„Aðferðafræði sem ég hafði meðal annars verið að vinna eftir í gæðaeftirliti hjá CCP og hjá öðrum stöðum í hugbúnaðarþróun, þar sem maður þarf að finna út hvernig maður býr til lausnir í kerfum þar sem þarf mikil samskipti milli notenda kerfis og þeirra sem búa kerfið til, í síbreytilegu umhverfi. Þannig ættu stjórnmálin í raun að virka, en þau gera það ekki. Við erum með þannig fyrirkomulag í dag að stjórnvöld ákveða bara að hlutirnir verði á hinn veginn eða annan, síðan tekur jafnvel 10 ár að búa til kerfi sem er þá strax orðið úrelt og enginn skilur til hvers það er. Heimurinn gjörbreytist á einni nóttu. Við þurfum að klára að koma okkur frá stjórnkerfi sem var þróað á síðustu öld og taka skrefin sem þarf, til að klára að nútímavæða okkur en líka taka skrefin til að auka og bæta samskipti við samfélagið, eða notendur kerfanna okkar.“

Leiðinlegur þingmaður

Ert þú skemmtilegast þingmaðurinn?

„Nei, alls ekki, ég er sko ekkert skemmtilegur. Ég er svo leiðinlegur við alla að spyrja óþægilegra spurninga og gagnrýna alla, jafnvel samstarfsfélaga í minnihlutanum, sem hefur þótt mikið tabú. En þetta er vinnan mín, vinna sem gerir ákveðnar kröfur til mín. Ef ég ætla að sinna þessari vinnu vel, þá eru ýmsir hlutir sem ég get ekki haft mína hentisemi um. Það er í rauninni svona lykilatriði hvað allt þetta varðar.“

Björn líkir störfum Alþingis við ákveðið leikrit. Þar klæði menn sig upp og fari í raddþjálfun þar sem þeim er kennt að tala með sannfærandi hætti. Þingmenn fái aðeins skamman tíma í pontu til að ræða málin og umræðan verði því sjaldnast eins djúp og hún þyrfti að vera og mikið um útúrsnúninga. Nefnir hann þar helst Miðflokkinn. Sjálfur vill Björn koma til dyranna eins og hann er klæddur. Klæðir sig ekki upp og leyfir sér að vera í ósamstæðum sokkum.

„Enda er það umhverfisvænt á vissan hátt að þurfa ekki að farga pari af sokkum bara því annar sokkurinn er kominn með gat eða horfinn.“

Segist hann jafnframt ekkert hrifinn af því að þurfa að vera í skóm á þingi, enda sé það ómannúðlegt að skikka menn til að vera í skóm heilu og hálfu dagana.

„Svona hlutir hafa samt áhrif. Konan mín er lektor í sálfræði og þar eru kenndir áfangar um fortölur og þess háttar. Maður sér slíkt leikrit í kosningum. Það er verið að sannfæra fólk og til þess eru notuð þau tæki sem sannað er að hafi virkað, alveg óháð því hvaða orð liggja að baki. Mér finnst þetta óheiðarlegt. Ég vil ekki klæða mig upp, gera mig ofursnyrtilegan og vera í samstæðum sokkum. Ég vil ekki klæða mig upp í virðingu. En á sama tíma þá skil ég það vel að aðrir snyrti sig ef það er samkvæmt þeirra sannfæringu.“

En hver er þá leiðinlegasti þingmaðurinn?

„Ég get tvímælalaust fullyrt að Sigmundur Davíð sé leiðinlegastur af því að hann að langómálefnalegastur. Langsamlega ómálefnalegastur. Og snýr gjörsamlega út úr öllu og ekki hægt að treysta á orð sem hann segir. Ég get alveg bara hiklaust sagt það út frá þeim forsendum.“ Björn bætir þó við að þetta eigi við um störf Sigmundar, en ekki persónu hans utan þingstarfa.

Alþingi kom á óvart 

Þegar Björn tók fyrst sæti á Alþingi árið 2014, þá sem varaþingmaður, var ýmislegt sem kom honum á óvart.

„Ég kom þarna inn og upplifði súrrealismann af því að vera þarna. Allt var miklu minna en það hafði sýnst í sjónvarpi og í fjölmiðlum. Ég er ekkert lítill maður svo ég var rekandi hnén í úti um allt. Þingið er ofan í einhverri gryfju þarna og er mun þrengra en það lítur út fyrir að vera.“

Samstarfsmenn hans á þinginu komu einnig á óvart. „Svo er fólkið sem situr þarna með manni bara ósköp venjulegt fólk. Og þegar maður sat þarna og fylgdist með fólki spjalla, með nánari og óformlegri hætti en það gerir í fréttum og sjónvarpi, þá kom á óvart hvað umræðan á Alþingi er í rauninni nákvæmlega eins og hún er hjá virkum í athugasemdum á internetinu.“

Björn fann því fyrir auknu sjálfstrausti þegar hann sá að þingmenn væri í raun bara nettröll, en hann hafði löngum glímt við slík á internetinu. „Þetta eru bara mannleg samskipti þegar allt kemur til alls. Að kunna að glíma við nettröll er hæfileiki sem velflest okkar, að minnsta kosti í Pírötum, búa yfir. Þannig að við vorum eiginlega á heimavelli að glíma við nettröllin á Alþingi sem snúa út úr öllu, bókstaflega öllu. Það var þetta sem kom mér helst á óvart, hversu mikill tröllismi er þarna. Þetta er bara ákveðin keppni, morfískeppni. Þannig hafa stjórnmálin verið, og því þarf að breyta.“

Spillingarsögur 

Það málefni sem Björn brennur helst fyrir þessa stundina segir hann tvímælalaust vera spillingarmál. Hann hefur opnað síðu á netinu þar sem hægt er að deila nafnlausum frásögnum af spillingu á Íslandi.

„Í gegnum tíðina hefur maður heyrt svo margar og mismunandi sögur um spillingu, sumar sögurnar jafnvel mjög oft. Það er kominn tími til að ráðast í svona verkefni og ég átti erfitt með að skilja hvers vegna enginn hafði gert það nú þegar. Í umræðunni virðist spilling oft aðeins tengd við það þegar brún umslög eru rétt undir borðið, sem við höfum nú séð í Samherjamálinu að á sér vissulega stað.  En spilling er líka til í mörgum öðrum formum. Maður sér athugasemdir, eins og núna nýlega, þar sem fólki finnst bara fallegt af sjávarútvegsráðherra að hringja í gamlan vin sinn, og spyrja hvernig honum líði. Og það er mjög vel skiljanlegt, en þetta er samt spilling. Það er hagsmunaárekstur þarna á milli. Enginn sjávarútvegsráðherra sem væri ekki vinur hans, myndi hringja í hann og spyrja hvernig honum liði. Hann tók sér þessa ábyrgðar- og trúnaðarstöðu og hún er bara því miður mikilvægari, þegar allt kemur til alls, heldur en þetta vinasamband. Þetta dæmi er birtingarmynd á því hversu illa sumir virðast skilja hagsmunaárekstra, og það eitt og sér er alvarlegt og er ein ástæða fyrir því að ég er safna saman þessum sögum. Til að segja: Þetta er spilling og þetta ber að taka alvarlega.“

Í framhaldinu vonast Björn til að gefa út sögurnar til að fræða og sýna fram á mismunandi birtingarmyndir spillingar. „Í rauninni áþekk hugmyndafræði og  í #metoo-byltingunni. Söfnunin á þeim sögum var til að sýna fram á að andstætt því sem margir töldu, þá var þetta mun algengara en fólk gerði sér grein fyrir og veitti einnig þolendum, sem ekki höfðu túlkað framkomu og hátterni gagnvart þeim sem áreitni, grundvöll til að þekkja háttsemina sem áreitni.“

En er spilling á Alþingi?

„Já, ég segi það alveg óhikað.“

„Ég er algjört nörd og viðurkenni það fúslega“

Sú menning sem gjarnan er kölluð nördamenning er ekki nokkuð sem oft hefur verið tengd við þingmenn. En Björn segist stolt nörd og gengur jafnvel enn lengra og bendir á að margt á Alþingi og í lagaverki Íslands komi í raun frá slíkri menningu. „Ég er algjört nörd og viðurkenni það fúslega. Ég myndi segja að kjarninn að lögum, stjórnmálum og svona komi frá nördisma. Það er að segja, það að fara í gegnum reglubækurnar í spunaspilunum þar sem maður er að skoða ákveðna setningu og reyna að skilja hver ætlunin með tiltekinni reglu er, hver er birtingarmynd hennar í tilteknum aðstæðum og hvernig skal túlka hana. Þetta er ekkert annað en lagalestur.

Um daginn var ég með með syni mínum að spila monopoly. Þar stendur í reglum að það megi kaupa hús hvenær sem er. Svo þegar sonur minn lenti á reit sem ég átti, þá keypti ég hús áður en ég rukkaði hann um leigu. Sem er líklega mjög ósanngjarnt og allt það, en út frá því sem reglurnar segja þá virðist það vera hægt. Og ef allir nota sömu reglur þá er kannski jafnræði í því, en ekki endilega ætlunin þegar reglan var skrifuð. Það kom alveg góð rökræða þarna á eftir þar sem sonur minn fór á netið til að kanna hvort þetta virkaði í raun og vera svona. Nördismi er nákvæmur, nákvæm þekking á einhverju sem er kannski ekki alveg það vinsælasta í samfélaginu og þess háttar. Mín nördamenning er í spunaspili og borðspilum, en var áður í tölvuleikjum.“

Jólin 

Nú eru jólin á næsta leiti. Björn segir jólahefðir fjölskyldunnar ekkert sérstaklega strangar. „Ætli það sé ekki bara risalamande sem maður gerir. Það er sérgrein hjá mér að skella í einn svoleiðis. Ég kenndi fjölskyldu konunnar minnar að hafa möndlugraut, þá erum við með möndlugjöf sem er pakkað inn og enginn veit hvað er, yfirleitt eitthvert spil.“

Eins ákveður fjölskyldan yfirleitt hver jólin fyrir sig hvað skuli hafa í matinn.

„Það er bara það sem við ákveðum með skömmum fyrirvara. Það er anarkismi þar. Konan mín er ekki mikið fyrir reyktan mat, annars væri líklega hangikjöt, en við höfum prófað ýmislegt, það er engin hefð þar. Ef eitthvað er þá er bara gaman að prófa eitthvað nýtt. Við erum heima á jólunum sjálfum, en förum líka í jólaboð hjá fjölskyldunni. Helsta hefðin hefur verið að fara til ömmu minnar á annan í jólum en þetta árið verður boðið óvenju snemma í desember.“

Í æsku Björns voru jólin öllu hefðbundnari, en hann dvaldi til skiptis hjá móður sinni og föður á jólunum. „Þegar ég var barn skipti ég á milli þess að vera hjá mömmu og pabba á aðfangadag og jóladag. Sitt á hvað. Það var í raun bara mín ákvörðun, mér fannst það sanngjarnast þannig. Svo var það annar í jólum hjá ömmu.“

Björn er ekki mikið fyrir að klæða sig upp fyrir þingið. Það sama gildir um jólin. Helst myndi hann vilja halda þau á náttfötunum, og kannski endar það þannig í framtíðinni.

„Við fluttum til útlanda og höfðum ekki fjölskylduna hjá okkur. Þá gerðum við okkur grein fyrir að fyrst við værum komin með barn þá þyrftum við kannski að fara að koma okkur upp einhverjum jólahefðum. Það eru oft krakkarnir sem búa til hefðirnar og nú hefur sonur minn ákveðið að gerast grænmetisæta svo ég veit ekki alveg hvernig jólin verða. En þetta snýst um að hafa gaman.“

Útúrsnúningar á þingi 

„Stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að hafa umræðuna málefnalega. Það er allt í lagi að gantast af og til, en ef pólitíkin er í sífelldri útúrsnúningarökræðu þá er aldrei verið að ræða kjarna málsins,“ segir Björn og bendir á að á Alþingi skipti miklu máli hvaðan hugmyndir og tillögur komi. Jafnvel þó svo meirihluta þingmanna finnist viss tillaga góð þá getur hún verið felld einfaldlega vegna þess að hún stafaði ekki frá réttum aðila.

„Við höfum alveg séð það, að það hefur komið hugmynd, til dæmis í fjárlögunum, breytingatillaga frá minnihluta sem er hafnað en síðan er sama breytingatillagan lögð aftur fram af meirihlutanum og er þá samþykkt. Þetta er kerfi þar sem þú vilt ekki gefa andstæðingum þínum plús í kladdann og eiga það á hættu að árangur annarra komi niður á þér.“

Þetta gildi ekki aðeins um minnihluta gegnt meirihluta Alþingis.

„Það var eitt mál, margir nefndarstarfsmenn að baki því, um rafrænar þinglýsingar. Málið var komið á lokaúttökudag, síðasti nefndarfundurinn, og það átti að klára þetta mál úr nefnd. Þá kemur einn svokallaður samstarfsmaður úr minnihlutanum og stöðvar málið. Segir bara „nei, það þarf að skoða þetta betur“. Þá reyndist flokkur þessa manns ekki vera með fleiri mál til að koma í gegn, þarna þarf nefnilega að vera visst jafnvægi líka. Ef Píratar fengju þrjú mál í gegn þyrftu allir hinir úr minnihlutanum líka að fá þrjú mál í gegn, alveg óháð því hversu góð málin væru.

Meirihlutinn vill að við fáum eins fá mál út og við getum. Svo þeir stjórna í rauninni heildarfjöldanum, en svo er líka innri barátta innan stjórnarandstöðunnar um að enginn fái meira en hinir. Það er náttúrlega sorglegt, en svona virkar kerfið, baunatalning. Ég hef ekki fyrirgefið viðkomandi þingmanni þetta ennþá, langt í frá.“

Ekkert heyrt frá siðanefnd

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,  þingmaður Pírata, var talin hafa brotið siðareglur Alþingis vegna ummæla hennar um að rökstuddur grunur væri á að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásmundur Friðriksson, hefði dregið sér almannafé með akstursgreiðslum. Björn Leví hefur einnig sagt slíkan rökstuddan grun á ferðinni, en ekki hlotið ávítur siðanefndar.

„Nei, ég hef ekki hlotið slíkar og ég skil ekki af hverju.“

Telur þú að það sé vegna kyns þíns ? 

„Ég sé ekki aðra útskýringu á því, það er bara þannig. Siðanefndir sem slíkar geta alveg virkað og hafa gert það erlendis, við erum bara ekki komin nógu langt í dag. Hérna ætti siðanefnd að vísa málum til þar til bærra yfirvalda til að auka traust og eyða efasemdum. Varðandi akstursgreiðslur Ásmundar hefði vel geta orðið niðurstaðan að ekkert misjafnt hefði átt sér stað, það lítur ekki út fyrir að vera það og til að eyða þessum efa hefði verið rétt að láta þar til bæra aðila, saksóknara eða aðra klára þetta. Það var hins vegar ekki gert.“

Björn segir þetta ríma við spillingarsögurnar sem hann safni saman. Þar sé að finna sögur sem ekki margir tengi við spillingu. Líkt og símtal sjávarútvegsráðherra til Þorsteins Más Baldvinssonar vegna Samherjamálsins.

„Það er viðurkennt líka, í svörum þingsins, að ráðherrar fá borgaða dagpeninga fyrir að fara út á flugvöll, og fá líka far með ráðherrabílnum á sama tíma. Þarna er verið að tvíborga og þetta eru hlunnindi sem samkvæmt reglum ber að greiða til baka. En það er ekki gert. Þetta eru hlunnindi sem eru laun og ber að borga skatt af. En eftir því sem ég best veit er það ekki gert. Þarna eru þeir með hærri laun í hvert sinn sem þeir fara til útlanda, allavega fyrir dagpeningana, til að komast til og frá flugvelli, en svo fá þeir líka matarpening, en fá svo frían mat í matarboðum í opinberum heimsóknum. Þarna er alveg hvati í kerfinu til að fara til útlanda, því þarna fá ráðherrar pening í vasann. Í öllum skilgreiningum spillingar gæti þetta vel flokkast sem spilling. Í svari þingsins um þessa hefð var sagt að fyrir þessu hefði myndast hefð, hefð fyrir að fara ekki eftir lögum reglum.“

Margt sem Íslendingar þurfa að læra

Mynd: Eyþór Árnason

„Það er margt í þessu sem við þurfum að læra og að hluta til vona ég að spillingarsögurnar geti byrjað umræðuna. Við þurfum að ræða þetta meira, við erum svo nátengt og lítið samfélag að við þurfum virkilega að vera með þessi atriði á hreinu og gæta okkar hvað þau varðar. Kunna að stíga til hliðar, það er ekkert vandamál að segja af sér sem ráðherra eða eitthvað svoleiðis. Ég tek oft dæmið um Hönnu Birnu, hefði hún stigið til hliðar strax í stað þess að fara að skipta sér af lögreglunni og því, þá efast ég ekki um að hún væri formaður Sjálfstæðisflokksins í dag, en þetta er list sem við kunnum ekki og því hvarflaði þetta ekki að henni. Það er bara neitað og neitað fram í rauðan dauðann, eða þagað.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi