fbpx
Fimmtudagur 26.nóvember 2020
Fréttir

Ingi og Guðbjörg flytja til Spánar: „Við erum rosalega fegin að sleppa burt“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. nóvember 2019 09:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef við hefðum ekki gæs og fisk í frystinum myndum við svelta síðustu daga hvers mánaðar,“ segir Guðbjörg Sigurlaug Gunnlaugsdóttir sem hyggst flytja af landi brott ásamt unnusta sínum, Inga Karli Sigríðarsyni, og setjast að á Spáni.

Guðbjörg og Ingi stíga fram á Facebook-síðunni Við erum hér líka, en það eru hjónin Gunnar Smári Egilsson og Alda Lóa Leifsdóttir sem birta þar sögur öryrkja hér á landi.

DV birtir hér að neðan hluta af frásögn Guðbjargar og Inga Karls.

Gætu ekki gefið börnunum að borða

„Það eru einkum þrjár ástæður fyrir að við erum að flytja til Spánar. Í fyrsta lagi er maturinn þar 80 prósent ódýrari en hér. Ef Ingi væri ekki með byssu pabba síns og færi á skytterí, ef hann fengi ekki fara á skak með vini sínum til að fiska í soðið og ef hann væri ekki bæði nýtinn kokkur og klár í að búa til góðan mat úr litlu; þá gætum við ekki gefið börnunum okkar að borða, ekki þegar liðið er á mánuðinn. Örorkubæturnar duga ekki fyrir framfærslu,“ segir Guðbjörg.

„Í öðru lagi erum við að flýja húsnæðiskreppuna á Akureyri. Við fáum ekki nógu stóra íbúð fyrir okkur öll, enga sem við höfum efni á. Við erum sex í heimili og átta þegar yngri börnin hans Inga koma til Íslands. Við búum í tveimur litlum íbúðum í dag, komust ekki fyrir í annarri og getum eiginlega ekki búið svona lengur. Hvernig á fjölskylda að búa í tveimur íbúðum? Við erum á biðlista eftir stærri íbúð, en gætum verið þar endalaust. Ég held að það sé engin íbúð í félagslega kerfinu á Akureyri sem er nógu stór fyrir sex til átta manna fjölskyldu.

Svo er of dýrt fyrir okkur að fá yngri börnin frá Noregi. Það kostar meira um 140 þúsund krónur að fá þau í heimsókn, jafnvel þótt við fáum lánaðan bíl til að sækja þau suður til Keflavíkur. Þegar við erum flutt til Spánar geta þau komið til okkar fyrir fimmtíu þúsund krónur. Og búið með okkur í einbýlishúsinu. Við leigjum hús með mörgum svefnherbergjum, þremur baðherbergjum og með húsgögnum fyrir sama verð og við borgum fyrir aðra íbúðina hér á Akureyri.“

Þriðja ástæðan sem þau nefna er af persónulegri toga og snýst um ósætti og forræðisdeilur milli Guðbjargar og barnsföður hennar. Telja þau að hætta stafi af manninum. „En síðan vill svo til að við getum líka átt betra líf á Spáni, búið betur, búið öll saman, borðað betur. Búið börnum okkar heimili. Tryggt þeim öryggi og frið. Það getum við ekki hér, ekki sjens.“

Lentu bæði í slæmum slysum

Ingi og Guðbjörg eiga samtals sex börn frá átta ára aldri til átján ára aldurs; Ingi á þrjú og Guðbjörg á þrjú. Í greininni á Facebook-síðu Við erum hér líka segir: „Þau sitja saman í eldhúskróknum og segja sögu sína, klára oft setningar hvors annars. Þau segja sögu sína saman, líka þann hluta sem þau upplifðu í sitthvoru lagi.“

Í umfjölluninni kemur fram að Guðbjörg sé með fæðingargalla, lá þverlegu í fæðingu og fæddist með hryggskekkju. Þegar hún var sautján ára lenti hún í slysi, snjóýta keyrði aftan á kerru sem var aftan í bílnum sem hún ók, hún fékk þungt högg á hrygginn og þoldi það illa þar sem hryggurinn var ekki sterkur fyrir.

„25 ára var Guðbjörg orðin óvinnufær vegna stoðkerfisvanda. Þá var hún einstæð móðir, skoskur barnsfaðir hennar og fyrrum sambýlismaður var fluttur aftur út til Skotlands. Hún kynntist þá manni og eignaðist með honum tvö börn í stuttri sambúð. Og síðan hefur hún verið að reyna að losna við þennan mann úr lífi sínu,“ segir í umfjölluninni

Þá segir að Ingi hafi alist upp í Mosfellsbæ, verið iðinn og alltaf að. „Hann var alla vetur á skíðum og keppti þar til hnén gáfu sig. Hann var á sjó sem unglingur og ungur maður þar til hann varð fyrir slysi, skipafélagi hans hafði blandað saman klór og sápu og við það myndaðist klórgas sem Ingi andaði að sér og skaðaði lungun. Hann hefur ekki enn náð sér, hvorki í lungunum né hnjánum. En lífið hélt áfram. Ingi hélt áfram að vinna, eignaðist ungur dóttur með fyrri barnsmóður sinni, en þau bjuggu aldrei saman. Hann var í óreglu og leiddist út í harðari neyslu, fór í meðferð og varð edrú, kynntist konu, hóf sambúð og eignaðist barn. Og þegar sambandið var að leysast upp var annað barn á leiðinni.“

Líf Inga virtist vera að leysast upp

Á þessum tímapunkti var Ingi ekki öryrki, hann hafði ekki látið hálf ónýt hné stöðva sig, ekki léleg lungu og ekki vímuefnin; komst í gegnum þetta og hélt áfram að berjast í lífinu og fyrir lífinu. „Og fyrir lífi barnanna sem hann átti og barnsins sem var á leiðinni. En þetta var erfið fæðing, móðirin barðist fyrir lífi sínu og það gekk mjög erfiðlega fyrir barnið að koma í heiminn. Mér er sagt að ég hafi fengið taugaáfall, en ég man ekki eftir því, segir Ingi. Á eftir fylgdi álag vegna skilnaðar og líf Inga virtist vera að leysast upp. Þegar afi hans fékk hjartaáfall og dó varð það kornið sem fyllti mælinn, Ingi hrundi saman. Ég sökk niður í þunglyndi og vonleysi, sökk niður í kolsvart myrkur.“

Ingi skyldi við barnsmóður sína, missti vinnu, missti heimili sitt, var veglaus og allslaus, afllaus og viljalaus, en samþykkti að flytja til vina sinna á Akureyri.

„Þar bjó barnsmóðir hans með börnin. Ingi gat umgengist þau og hafið hæga batagöngu. Stundum reyndi hann að vinna, var vongóður til að byrja með, kannski um of og fór þá fram úr sér og þurft að gefast upp. Læknirinn bannar honum að vinna, segir hann engan mann til þess. Einu sinni réð hann sig sem módel við listaskólann, en gafst upp á því. Ekki bara vegna kvíðans og álagsins heldur líka vegna þess að bæturnar voru skertar um hverja krónu sem hann vann sér inn. Þegar upp var staðið, þegar tekjurnar fyrir módelstörfin höfðu líka skert húsnæðisbæturnar, hafði hann tapað 15 þúsund krónum á þessari vinnu. Hvernig á maður að lesa í þau skilaboð? Þú ert hvattur af kerfinu til að vinna, en svo er þér refsað fyrir það. Hver skilur þetta kerfi?“

Leist vel á aðstæður á Alicante

Í umfjölluninni segir að Ingi hafi átt sína góðu daga en þurft að passa sig á álaginu. Minnsta stress gat kippt undan honum fótunum. Hann var í þessu ástandi þegar hann kynntist Guðbjörgu. „Var eitthvert vit í því? Hvað hafði hann að gefa þessari þriggja barna einstæðu móður? Hann, sem gat varla staðið undir sjálfum sér? Getur öryrki leyft sér að elska? Og vera elskaður? Verður honum ekki bara refsað? Getur það endað vel?“

Í umfjölluninni segir að tvö yngri börn Inga búi í Osló, en elsta dóttir hans á Íslandi og fer hann með forræði yfir henni. Hann getur því flutt með dóttur sína til Spánar.

„Ingi var skiptinemi í Gvatemala sem unglingur og kann spænsku. Í fyrra fór hann með vini sínum til Malaga að kanna aðstæður og leyst vel á. En þegar á reyndi kusu þau að fara til Alicante, á Íslendingasóðir. Þar er mikill fjöldi öryrkja og eftirlaunafólks sem flúið hefur dýrtíðina á Íslandi. Öll fjölskyldan er að læra spænsku. Börnin fara í skóla á Spáni í næstu viku, eru að byrja nýtt líf? Kvíðir ykkur fyrir, eigið þið eftir að sakna Akureyrar? Ha? spyrja börnin og láta sem þau skilji ekki spurninguna. Nei, við söknum Akureyrar alls ekki neitt. Okkur hlakkar til. Við erum að springa.

Foreldrarnir geta heldur ekki beðið. Eftir hverju? Að losna héðan, skilja erfiðleikana eftir? Eða að byrja nýtt líf á Spáni? Hvort skiptir meira máli? Bæði. En erfiðleikarnir eru raunverulegir á meðan framtíð er óljós. Við erum rosalega fegin að sleppa burt. Við getum ekki verið hérna, getum ekki dregið fram lífið hérna. Það er bara ekki hægt,“ segir í greininni.

Geta allt – nema lifað á Íslandi

Aðspurð hvernig þau, tveir öryrkjar á lífeyri, gátu staðið í forræðismálum samtímis segir Ingi: „Púff, við höfum ekki haft efni á þessu.“ Guðbjörg fékk gafsókn og lögmaðurinn tók líka að sér mál Inga.

„Við höfum ekki borgað henni krónu og munum aldrei geta borgað fyrir alla hennar vinnu. Við vitum hvert fullt verð ætti að vera og það er engin leið til að við getum borgað það. En hún lagði til upphæð sem við munum ráða við ef greiðslunum er dreift á nokkra mánuði, kannski rúmt ár. Ef við hefðum ekki hitt þessa konu hefðum við aldrei getað farið í bæði forræðismálin. Það er bara þannig.

Við vorum heppin að finna þessa konu. Við höfum verið heppin síðan við tókum saman. Við stöndum saman, leynum hvort öðru engu og tölum saman um allt. Saman getum við margt. Og með smá heppni getum við nánast allt. Nema lifað á Íslandi. Þar getur enginn lifað hér sem er svo óheppinn að vera öryrki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Tólf konur myrtar á Íslandi og konum refsað eftir að hafa verið neyddar til að flytja fíkniefni

Tólf konur myrtar á Íslandi og konum refsað eftir að hafa verið neyddar til að flytja fíkniefni
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Móðir Ævars Annels biður hann um að gefa sig fram við lögreglu

Móðir Ævars Annels biður hann um að gefa sig fram við lögreglu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leggja til að netsala á áfengi verið bönnuð með öllu

Leggja til að netsala á áfengi verið bönnuð með öllu
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Stúlkan er fundin