fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Vilborg ekki sátt eftir ferð í Þjóðleikhúsið: „Þetta er tæplega boðleg framkoma við leikhúsgesti“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 21. nóvember 2019 09:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í óvistlegu og hrollköldu anddyrinu máttum við hírast þarna í hnapp eins og kindur í rétt og bíða þess að dyrnar lykjust upp,“ segir Vilborg Auður Ísleifsdóttir sagnfræðingur í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni gagnrýnir hún Þjóðleikhúsið en Vilborg fór í október að sjá brúðkaup Fígarós – sýningu sem hún hafði mjög gaman af. „Þetta var dásamleg sýning, litrík og fjörug, söngurinn íðilfagur, búningarnir skrautlegir og tónlistin guðdómleg. Einn skugga bar þó á og var það meðferðin á leikhúsgestum fyrir sýningu,“ segir Vilborg.

Hún bendir á að mörgum þyki gott að koma með fyrra fallinu á leiksýningar. Þetta eigi kannski sérstaklega við um Þjóðleikhúsið enda andrúmsloftið þar sérstakt og húsið sögulegt.

„Ásamt allstórum hópi leikhúsgesta var ég komin rúmlega hálfsjö, en húsið er opnað fyrir sýningargesti klukkan sjö. Í óvistlegu og hrollköldu anddyrinu máttum við hírast þarna í hnapp eins og kindur í rétt og bíða þess að dyrnar lykjust upp. Þetta er tæplega boðleg framkoma við leikhúsgesti, sem einnig eru skattgreiðendur og leggja fram sinn skerf til reksturs hússins – auk þess að kaupa aðgöngumiða.“

Vilborg segir að þessi reglufesta eða sparsemi komi sér enn verr á barnasýningum „þar sem litlir krakkar hafa engar selskapsblöðrur og húsameistari ríkisins var afar sínkur á rými fyrir salerni.“ Segir Vilborg að margir  foreldrar, afar og ömmur hafi lent í meinlegri klípu í þessum efnum.

„Mörgum þykir vænt um Þjóðleikhúsið og eiga minningar tengdar því frá bernskudögum. Þetta er eitt flottasta hús sem almenningur á kost á að koma í. Menningarandi svífur þarna yfir vötnunum og í kristallssalnum er gaman að setjast í sófa eða hægindastóla í útskotum hans og fá sér kaffibolla eða jafnvel vínglas – ef tími vinnst til – virða fyrir sér myndirnar og mannfólkið og skreppa á salerni án þess að óttast að missa af fyrsta þætti. Nú er því miður búið að fjarlægja sófana og hægindastólana og umrædd útskot eru þar með töluvert óvistlegri.“

Vilborg segir að leikhúsferð sé meira en leiksýningin sjálf, þarna sé fólk að gera sér dagamun, fer í spariföt og hlakkar til að sýna sig og sjá aðra. Það eigi að taka vel á móti fólki og gefa því tíma til að njóta þess sem húsið hefur upp á að bjóða.

„Fyrir börn og unglinga hefur þetta uppeldisgildi. Það eru tilmæli mín til þar til bærra yfirvalda að breyta þessu og opna húsið klukkan hálfsjö. Ef menn eru að horfa í laun starfsmanna, þá má benda á að á rýmri tíma myndi seljast meira af þeim veitingum sem þarna eru á boðstólum og mætti segja mér að tekjurnar stæðu undir þeim aukakostnaði sem af þessum breytingum hlýst. Þetta væri allra hagur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu