fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Tókst ekki að sanna að hún hefði stolið 465 þúsund króna fartölvu

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 21. nóvember 2019 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað unga konu af ákæru um að hafa stolið fartölvu úr verslun Tölvulistans að verðmæti 465 þúsund krónur. Í ákæru kemur fram að konan hafi, þann 21. mars 2017, farið í verslun Tölvulistans þar sem hún sveik út umrædda tölvu sem er af gerðinni Macbook Pro.

Konan var sögð hafa látið starfsmann Tölvulistans skuldfæra andvirði tölvunnar á reikning Skinney – Þinganes hf. Þann 28. mars, rúmri viku síðar, barst kæra frá Tölvulistanum um stuld á umræddri tölvu og barst kæran að umræddri konu sem meintum geranda. Var konan sögð hafa villt á sér heimildir og sagst vera á vegum Sinneyjar-Þinganess sem kannaðist ekki við hana sem starfsmann.

Meðal gagna málsins var myndupptaka úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar. Myndgæði eru sögð í meðallagi og mátti þar sjá kvenmann eiga í samskiptum við starfsmann. Þeim samskiptum lýkur þegar konan tekur tölvuna og yfirgefur verslunina.

Konan neitaði sök í málinu og sagðist ekki kannast við að hafa farið í verslun Tölvulistans umræddan dag eða tekið við fartölvu frá starfsmönnum verslunarinnar. Taldi hún mögulegt að einhver hefði misnotað nafn hennar en slíkt hefði áður gerst. Þá kannaðist hún ekki við undirritun á nafni hennar á reikningi frá Tölvulistanum.

Í niðurstöðu dómsins segir að andlit manneskjunnar á upptökunni sé ekki mjög greinilegt og ekki sé unnt að sjá hvort um sömu manneskju sé að ræða. Þá var ekki að finna samanburðargögn um útlit ákærðu, ekki tekin skýrsla af afgreiðslumanni í versluninni né leitast við að kanna hvort hann gæti borið kennsl á konuna, til dæmis með myndsakbendingu. Þá liggur rithandarrannsókn á undirritum á nafni konunnar á reikningi Tölvulistans ekki fyrir.

„Fallast má á það með ákæruvaldinu að ákveðin líkindi kunni að vera í ritun einstakra bókstafa í nafni ákærðu miðað við undirritun ákærðu á lögregluskýrslu  o.fl. Um þetta  atriði verður  hins vegar ekkert fullyrt og ekki er unnt  að reisa sakfellingu á þessu atriði þegar ekki nýtur við sérfræðilegrar rithandarrannsóknar. Þessu til viðbótar verður ráðið að lögregla hafi ekki rannsakað hver var notandi þess símanúmers sem skráð var fyrir umræddri pöntun og fram kemur á fyrrgreindum reikningi. Það símanúmer passar ekki við skráð símanúmer ákærðu samkvæmt lögregluskýrslu. Í raun er rannsókn málsins  mjög takmörkuð og verður ráðið af gögnum að hún hafi ekki hafist fyrr en rúmum tveimur árum eftir að kæra  barst lögreglu.“

Í ljósi þessa taldist ekki vera komin fram lögfull sönnun um sekt konunnar í málinu. Var hún því sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. Allur sakarkostnaður málsins, samtals 508 þúsund krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala