fbpx
Laugardagur 08.ágúst 2020
Fréttir

Rafrettur – með eða á móti?

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 17. nóvember 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Notkun á rafrettum hefur lengi verið þrætuepli enda sitt sýnist hverjum um skaðleysi eða skaðsemi þeirra. Við fengum tvo álitsgjafa til að bera saman bækur sínar en niðurstöður þeirra voru vægast sagt áhugaverðar.

MEÐ

Læknar hvetja fólk til að skipta yfir í veip

Arnaldur Sigurðarson er sjálfstætt starfandi blaðamaður og kvikmyndagerðarmaður en hann er nýlega kominn heim frá London þar sem hann stundaði meistaranám. Arnaldur er hlynntur notkun á rafrettum. „Tóbak er án efa meðal skaðsömustu uppgötvunum mannkynssögunnar. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni drepur tóbak um 8 milljónir manns á heimsvísu ár hvert. Um helmingur notenda tóbaks mun deyja af sjúkdómum sem rekja má til neyslu þess. Ef það væri hægt að fá neytendur til að skipta yfir í eitthvað annað sem skaðar þá jafnvel bara örlítið minna, þá myndi samfélagið sem heild njóta góðs af. Því verður það að teljast vægast sagt furðulegt að íslenskir fjölmiðlar hafa undanfarið kynt undir hysteríu í kringum veip, sem er einmitt ætlað til að draga úr neyslu tóbaks.

Það er vissulega rétt að fólk hefur verið að greinast með sjúkdóma tengdu veipi í Bandaríkjunum, en við nánari athugun þá eru sambærilegir sjúkdómar ekki að koma fyrir annars staðar, þrátt fyrir vafasamar fullyrðingar um að einn einstaklingur hafi veikst hér heima. Það að einn einstaklingur veikist er varla faraldur, hvað þá tölfræðilega marktækt til að gera tengsl milli sjúkdóma og veipsins. Í Bandaríkjunum er nefnilega því miður mikið um svartamarkaðsbrask tengt kannabis og þá nánar til tekið veipvökva sem innihalda gerviform af virka efninu í kannabis.

Viðbrögðin hérna heima við þessu gervivandamáli er að tala um að banna veip og að takmarka vökva sem „höfða til barna“, hvað sem það á að þýða. Síðast þegar ég athugaði þá sækja fullorðnir alveg jafn mikið, ef ekki meira, í hluti með nammibragði en börn. Verulega hefur dregið úr tóbaksreykingum á undanförnum árum og það helst beint í hendur við að veipið hefur orðið sífellt vinsælli kostur.

Sem betur fer er ekki horft á veipið með þessum hysterísku augum alls staðar. Ég er nýfluttur heim frá Bretlandi þar sem sjá má mun fleiri auglýsingar fyrir veip til að aðstoða fólk við að hætta að reykja en fyrir nikótíntyggjó, sem virðist vera það eina sem er leyfilegt að auglýsa hér heima. Læknar þar í landi fara ekkert leynt með það að hvetja fólk til að skipta yfir í veip og er það orðið svo algengt að það má meira að segja finna veipbúðir í spítölum. Þá hefur breska ríkið einnig sett sér það djarfa markmið að útrýma tóbaksreykingum alfarið fyrir árið 2030.

Það eru til ýmsar getgátur og fullyrðingar um að veipið leiði til tóbaksreykinga meðal ungs fólks, ég leyfi mér að fullyrða að það er álíka vitlaust að halda því fram og að fullyrða að neysla kannabis leiði sjálfkrafa til neyslu sterkari efna. Einungis hafa verið gerðar félagsfræðilegar rannsóknir á þessu fyrirbæri en ekki klínískar þannig það hefur enn sem komið er ekki komið fram neitt haldbært sem sýnir fram á nein raunveruleg tengsl þarna á milli. Ungt fólk sem er ekki þegar orðið háð tóbaki ætti engan veginn að fara út í að nota veip og ekkert væri eðlilegra en að nota góðar forvarnir til að koma í veg fyrir slíkt, en þær forvarnir mega ekki vera það grófar að bitni á fullorðnum veipurum.

Klínískar rannsóknir sem hafa verið gerðar á veipi sem hafa ekki verið framkvæmdar bandvitlaust vegna þekkingarleysis rannsakenda á veipi (ég vísa þá til rannsóknar, þar sem kom fram að veip inniheldur meira formaldehýð en sígarettur, sem var dreift víða í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum) hafa sýnt fram á að veipið er að lágmarki 95% öruggara en að reykja sígarettur. Það er nefnilega búið að rannsaka efnin sem fara í löglega veipvökva alveg svakalega vel, það eina sem er ekki vitað á þessu stigi er nákvæmlega hvernig þessi hafa áhrif á líkamann þegar þau blandast saman.
Vegna þekkingarleysis á fólk það gjarnan til að setja allt veip í sama flokk, en vökvinn skiptir höfuðmáli í þessu samhengi. Hver sem er getur sett vafasaman vökva í veipið sitt og sett heilsu sína í hættu. En vökvar sem eru framleiddir í samræmi við eðlilegar reglugerðir eru ekkert skaðlegri fyrir þig en venjulegur kaffibolli. Hysterían sem er í gangi í Bandaríkjunum á sér eðlilegar skýringar, tóbaksfyrirtækin tapa gífurlega á veipi en það gera fylkin þar í landi líka, þau eru að missa skatttekjur í stórum stíl.

Ef það væri raunverulegur vilji hjá heilbrigðisráðherra og læknum hér á landi að koma í veg fyrir heilsutjón út af veipi þá væri rétta leiðin svo sannarlega ekki að herða lögin hér á landi enn frekar og beina fólki aftur í tóbakið. Ef vilji er til að koma í veg fyrir sambærileg veikindi og hafa komið upp í Bandaríkjunum þá væri eina rétta leiðin að koma kannabisefnum undir sambærilegt eftirlit og veipið er nú þegar með.“

 

Á MÓTI

Foreldrar ættu ekki að líta á rafrettur sem skaðlaust fyrirbæri

Kristín Ómarsdóttir lýðheilsufræðingur heldur úti vefsíðunni heilsuseigla.com og brennur að eigin sögn fyrir bættri heilsu og vellíðan. Kristín er með BA- í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands auk mastersgráðu í lýðheilsuvísindum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún er á móti rafrettum.

„Notkun á rafrettum hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og er Ísland engin undantekning. Hlutfall framhaldsskólanema sem nota rafrettur hefur tvöfaldast á Íslandi frá 2016 samkvæmt rannsókn sem Rannsókn og greining gerði í október 2018. Börn og ungt fólk eru langstærsti neytendahópurinn á Íslandi en aðeins 4% fullorðinna nota rafrettur. Um 10–15% grunnskólanema og 25% framhaldskólanema sem aldrei hafa reykt nota rafrettur daglega. Aðeins í mars á þessu ári tók ný lög gildi þar sem bannað er að selja ungmennum tækin og áfyllingarefnin. Höfum við sofnað á verðinum? Einstaklingar sem hafa aldrei reykt eru að byrja að reykja rafrettur þar sem þær eru taldar skaðlausar og oftar en ekki heyrir maður sagt: „þetta er bara gufa og því skaðlaust“. En er það svo?

Rafrettan hitar vökva til að búa til loftúða (aerosol) sem notandinn andar að sér. Loftúðinn getur útsett notendur fyrir efnum sem vitað er að hafa skaðleg áhrif á heilsufar, svo sem ofurfínar agnir þungamálma auk rokgjarnra efnasambanda sem notandinn andar að sér. Loftúðinn inniheldur einnig fjölmörg önnur efni sem minna er vitað um sem geta verið líkama notandans skaðleg en langtímarannsóknir standa enn yfir. Rafrettur innihalda færri eiturefni en sígarettur og vindlar en eru þó ekki alveg lausar við öll eiturefni.

Það eru til yfir þúsund tegundir af veipvökva og erfitt er að alhæfa að allt sé jafn skaðlegt. Sjálfstæð rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum fann 20 skaðleg efni í veipvökva og þar á meðal krabbameinsvaldandi efni. Hægt er að bæta við nikótíni í veipvökvana í mismunandi styrkleika. Nikótín er ávanabindandi og getur valdið ýmsum einkennum frá hjarta-, heila- og miðtaugakerfi, öndunarfærum og fleiri líffærum. Þó svo að nikótín sé ekki talið vera krabbameinsvaldandi þá getur það haft áhrif á stress, kvíða, einbeitingu og svefn hjá einstaklingum. Það er sérstaklega skaðlegt unglingum og börnum þar sem það hefur áhrif á þroska heila- og miðtaugakerfis.

Nikótíneitrun stafar af of mikilli neyslu nikótíns sem er hættuleg og getur valdið dauða. Um 30–60 milligrömm af nikótíni eru álitin vera banvænn skammtur fyrir fullorðna. Þetta er mikið magn og erfitt er fyrir fullorðinn einstakling að neyta svo mikils nikótíns en viðkvæmasti hópurinn fyrir nikótíneitrun er börn og er orsökin oftast fljótandi nikótín eða önnur nikótínvara sem þau komast í.

Það eru ekki til neinar langtímarannsóknir á eiturefnafræðilegu öryggi rafretta svo hægt sé að alhæfa að rafrettur séu skaðlausar. Það sem við vitum er að notkun rafretta eykur líkur á einkennum öndunarfærasjúkdóma og að rafrettur hafa skemmandi áhrif á lungu við langvarandi og jafnvel skammtímanotkun. Erfitt er að rannsaka hvort munur sé á rafrettum þar sem mikið úrval er af tækjunum sjálfum sem virka á mismunandi vegu en einnig eru til óteljandi tegundir af veipvökvum og ekki alltaf staðlað ferli um framleiðslu á þeim sem og innihaldslýsingar geta verið ónákvæmar og því ómögulegt að segja til um hvað nákvæmlega finnst í vörunni.

Annar vinkill á umræðunni er að einstaklingar og sérstaklega unglingar eru að nota rafretturnar fyrir kannabisneyslu og það veldur áhyggjum. Rafrettan auðveldar neyslu á kannabis og eykur söluna á THC-olíu. Tetrahydrocannabinol (THC) er kannabisolía sem er notuð í rafretturnar og rannsókn sem birt var í New England Journal of Medicine sýndi að 84% af 53 sjúklingum sem höfðu verið lagðir inn á spítala vegna öndunarerfileika höfðu notað THC-olíu í rafretturnar. Hluti þeirra sjúklinga þurfti að notast við öndunarvélar til að ná bata. Um 94% af sjúklingum í rannsókninni voru innskráð á spítala til þess að fá meðferð við lugna- og öndunarfæravandamála. Helstu einkenni sjúklinga voru mæði, hósti, brjóstverkur, ógleði, magaverkir og hiti. Allt voru þetta sjúklingar með enga fyrri sögu af öndunarfærasjúkdómum en áttu það sameiginlegt að nota rafrettur.

Markaðssetning á rafrettum minnir óneitanlega á markaðssetningu sígaretta í kringum 1950–1960 þar sem Fred Flinstone var notaður til að auglýsa sígarettur. Í dag finnst okkur það fáránleg hugsun að nota barnaefni til að auglýsa sígarettur en ef við skoðum markaðssetningu á rafrettum þá sést greinilega hver markhópurinn er. Börn og unglingar eru aðgengilegur markhópur og hafa auglýsingar á rafrettum snúist um hversu skaðlaust veipið er og hversu gott það er á bragðið. Þú getur stundað íþróttir án þess að það hafi áhrif á getu þína og hversu töff það er að reykja. Í auglýsingu frá 1960 þar sem læknir auglýsir sígarettur talar hann um hversu bragðgott og notalegt það er að reykja Camel. Auglýsingar á rafrettum í dag einblína á bragðefnin og ég velti fyrir mér hvort við séum að upplifa endurtekna markaðssetningu. Þetta hljómar allt mjög kunnuglega allavega. Munum við horfa til baka eins og við gerðum með sígarettur og hugsa hversu fáránlegt þetta var? Við vitum ekki hversu skaðlegt þetta er eða hvaða áhrif þetta hefur á langtímaheilsu rétt eins og við vissum ekki með venjulegar sígarettur á sínum tíma. Foreldrar ættu ekki að líta á rafrettur sem skaðlaust fyrirbæri í lífi nútíma unglings.

Í viðtali við Tómas Guðbjartsson, prófessor og lækni á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans, kemur fram að fimm ungir karlmenn hafa á þessu ári leitað á Landspítala með gat á lunga sem virðist mega rekja til rafrettureykinga. Í fjórum tilvikum olli innöndun á ertandi veipgufu hóstakasti og yfirþrýstingi á lungum með þeim afleiðingum að annað lungað féll saman. Í Bandaríkjunum hafa 800 manns veikst og 12 látist vegna þess sem talið er að megi rekja til rafrettunotkunar.

Alls konar samsæriskenningar eru um rafretturnar og vilja menn meina að tóbaksframleiðendur séu að kosta þessar ,,neikvæðu“ umfjöllun um rafrettur. Markaður fyrir rafrettur hefur þó vaxið gígantískt og er markaðurinn metinn á marga milljarða Bandríkjadala. Því má segja að rafrettumarkaðurinn sé að nálgast virði tóbaksmarkaðarins. Ómögulegt er að vita hvort þessar samsæriskenningar standast en eitt veit ég fyrir víst, að græðgin blindar manninn.

Við vitum ekki nóg en við vitum þó að rafrettan er ekki skaðlaus! Rafrettur geta haft skaðaminnkandi áhrif á einstaklinga sem vilja hætta að reykja en að byrja að reykja rafrettur eða leyfa börnum að reykja rafrettur set ég spurningarmerki við. Er það þess virði að taka sénsinn? Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum og þau eiga alls ekki að vera tilraunadýr þessara nýjunga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Í gær

Sólþyrstir Íslendingar flykkjast enn til sólarlanda

Sólþyrstir Íslendingar flykkjast enn til sólarlanda
Fréttir
Í gær

Líklegt að samkomutakmarkanir verði hertar

Líklegt að samkomutakmarkanir verði hertar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mikið um þjófnað á höfuðborgarsvæðinu – Hvatt til að fólk sé á varðbergi

Mikið um þjófnað á höfuðborgarsvæðinu – Hvatt til að fólk sé á varðbergi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

ÁTVR færir öryggismálin til Securitas

ÁTVR færir öryggismálin til Securitas