fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Felix Bergsson er búinn að finna næsta útvarpsstjóra: „Kletturinn sem RÚV þarf á að halda“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 8. nóvember 2019 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Felix Bergsson, leikari, söngvari og ötull dagskrárgerðarmaður á RÚV, er ekki í vafa um hver ætti að verða næsti útvarpsstjóri RÚV. Magnús Geir Þórðarson stígur brátt upp úr stóli útvarpsstjóra og tekur við starfi leikshússtjóra Þjóðleikhússins. Starf útvarpsstjóra verður auglýst laust til umsóknar en nú þegar eru hafnar vangaveltur um hverjir eigi möguleika á stöðunni.

Óskakandídat Felix er Kolbrún Halldórsdóttir. Hún er fyrrverandi þingmaður og ráðherra VG, leikkona, leikstjóri og ötull liðsmaður á vettvangi félagsmála listamanna. Að mati Felix er hún sá leiðtogi sem RÚV þarf á að halda. Felix skrifar eftirfarandi Facebook-pistil um málið:

„Kletturinn sem RÚV þarf á að halda

Magnús Geir Þórðarson hefur staðið sig frábærlega sem útvarpsstjóri og gjörbreytt RÚV. Í mínum huga hefur hann gert RÚV að nútímafjölmiðli sem var löngu orðið tímabært. Hugmyndaríkur, lausnamiðaður og bráðsnjall. Ég mun sakna hans mikið nú þegar hann lætur af störfum.

Í gegnum tíðina hef ég ekki haft mig í frammi þegar verið er að velja í stór embætti en í ljósi þess hversu nauðsynlegt það er að finna einhvern sem heldur merki RÚV á lofti get ég ekki orða bundist og skelli mér út í djúpu laugina. Ég veit nefnilega hver þessi manneskja er. Sú sem heldur áfram að bæta miðlana okkar, sú sem skilur nauðsyn RÚV í íslensku samfélagi, sú sem hefur skilning á íslensku samfélagi og kann að vinna með stjórnmálamönnum að því að bæta lífið á fallegu eyjunni okkar. Sú sem er með hjartað á réttum stað.

Ég mæli með að Kolbrún Halldórsdóttir verði næsti útvarpsstjóri.

Hún hefur alla þá kosti sem þarf til að verða frábær leiðtogi fyrir RÚV á næstu árum. Hún þekkir starfið vel og brennur fyrir íslenska menningu og dagskrárgerð. Samstarf okkar og vinátta ná langt aftur og ég hef alla tíð dáðst að framtíðarsýn hennar, visku og þori. Hún hefur verið ótrúlega afkastamikil í gegnum tíðina og það er magnað að fara í gegnum afrekalistann. Þar má finna leiksýningar heima og heiman, óperur, útvarpsþætti, sjónvarpsþætti, stjórn á stórum viðburðum, leikhúsrekstur, alþingissetu, ráðherradóm, forsæti Bandalags íslenkra listamanna að ógleymdum mikilvægum lagasetningum, alþjóðasamstarfi, baráttu fyrir umhverfi, menningu og mannréttindum og svo mætti lengi telja. Hún hefur unun af því að vinna með fólki á öllum aldri en ekki síst ungu fólki. Mér finnst ég alltaf þekkja fólk á því hvernig því gengur að vinna með ungu fólki og treysta því til stórra verka.

Já í mínum huga er Kolla einstök. Hún er klettur sem vinir og fjölskylda reiða sig á. Hún getur verið sá sami klettur fyrir RÚV og leitt fjölmiðil sem við viljum öll vera stolt af.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“