fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Una sakar Hörpu um að gera lítið úr bók föður síns

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 8. október 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hitt verður að segjast eins og er að í viðtölum um sýninguna og í sýningarskrá virðist Harpa hafa undarlega tilhneigingu til þess að gera lítið úr ævisögu Sölva Helgasonar: bókinni  „Sölvi
Helgason – listamaður á hrakningi“, sem faðir minn, Jón Óskar, skrifaði og út kom 1984. Stundum er jafnvel engu líkara en að Harpa afneiti tilvist bókarinnar,“ skrifar Una Margrét Jónsdóttir, dagskrárgerðarmaður á RÚV, í grein í Morgunblaðinu í dag.

Tilefnið er sýningin Blómsturheimar, sem er yfirlitssýning á verkum Sölva Helgasonar. Sölvi, sem uppi var á 19. öld, var sérstæður maður, flakkari, listamaður og heimspekingur. Í lifanda lífi var Sölvi utangarðsmaður í samfélaginu en nútímamenn hafa margir mætur á list hans. Sýningarstjóri Blómsturheima er listamaðurinn Harpa Björnsdóttir.

Faðir Unu er hið þekkta skáld Jón Óskar sem lést árið 1998. Jón Óskar var þekktastur fyrir framsækna ljóðlist sína en hann fékkst líka við smásagnagerð, skrifaði endurminningar sínar í mörgum bindum sem vöktu mikla athygli, og sendi einnig frá sér nokkur rit sem falla undir sögulegan fróðleik. Þar á meðal er bókin Sölvi Helgason – listamaður á hrakningi. Þessa bók gaf Jón Óskar út árið 1984 og hana gerir Una, dóttir hans, að umtalsefni í greininni.

Una sakar sýningarstjórann Hörpu um að sniðganga eða gera lítið úr þessu verki föður síns er Harpa fer yfir það sem ritað hafi verið um ævi og verk Sölva Helgasonar. Una staðnæmist til dæmis við það sem skrifað er um þetta í sýningarskrá vegna sýningarinnar Blómsturheimar, en þar segir:

„Sú saga hefur ekki enn verið sögð að fullu þótt margir hafi fjallað um líf hans í tímans rás. Ekki aðeins spunnust sagnir um Sölva í lifanda lífi, heldur hafa að honum látnum verið ritaðir um hann æviþættir og samin um hann skáldverk, leikrit, ljóð og söngvar.“

Una bendir á að þarna sé ekki minnst á ævisögu föður hennar um Sölva. Harpa geti bókarinnar ekki heldur í viðtali við Fréttablaðið um sýninguna og svo virðist sem hún setji hana í flokk með nokkrum æviþáttum sem ritaðir hafi verið um listamanninn. Una segir að raunveruleikinn sé hins vegar allt annar:

„Þar sem þetta gefur allskakka mynd af raunveruleikanum er rétt að taka eftirfarandi fram: Jón Óskar skrifaði ekki æviágrip eða æviþátt um Sölva. Hann skrifaði ævisögu hans, rúmlega 260 síðna bók. Í bókinni birtust um 20 myndir eftir Sölva, flestar í lit, og í tengslum við útkomu bókarinnar var haldin sýning á verkum Sölva í Þjóðminjasafninu sem opnuð var í desember 1984. Það mun hafa verið fyrsta myndlistarsýningin sem eingöngu var helguð verkum Sölva. Faðir minn var þrjú ár að vinna að bókinni og byggði hana meðal annars á dómabókum, handritum eftir Sölva Helgason og aðra á Landsbókasafni og Þjóðminjasafni, og á tugum prentaðra bóka og blaða, eins og sjá má í heimildaskrá bókarinnar „Sölvi Helgason – listamaður á hrakningi“. Hann fór á ýmsa staði á landinu til þess að sjá verk eftir Sölva og staði þar sem hann hafði verið. Þá stóð hann í bréfaskriftum við söfn erlendis og komst í samband við afkomendur Sölva, bæði vestanhafs og hér heima. Við heimildavinnuna fékk hann aðstoð hjá móður minni, Kristínu Jónsdóttur, enda veitti ekki af við svo umfangsmikla könnun heimilda. Hún sá einnig um uppsetningu sýningarinnar á verkum Sölva ásamt föður mínum.“

Una bendir á að þessi bók hafi verið fyrsta raunverulega ævisaga Sölva Helgasonar sem kom út á prenti og hún hafi verið brautryðjandaverk. „Hún var líka varnarrit fyrir Sölva, fyrsta bókin um hann þar sem ævi hans var lýst sem ferli listamanns fremur en lífi flakkara og vandræðamanns.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“