fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Vegagerðin dreifði krabbameinsvaldandi efni um allt land: Heilbrigðisráðherra á meðal þeirra sem hvatti til notkunarinnar

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 29. október 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stýrihópur á vegum umhverfisráðherra hvatti Vegagerðina til að nota illgresiseyðinn Roundup svo hægt verði að draga úr áhrifum alaskalúpínu og kerfils í íslenskri náttúru. Þetta var meðal þess sem kom fram í svörum við fyrirspurn Hringbrautar sem greindi frá málinu. 

Stýrihópurinn var skipaður af Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra og núverandi heilbrigðisráðherra. Auk hennar sátu í stýrihópnum Jón Gunnar Ottóson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri. Þessi stýrihópur hvatti til notkunar á illgresiseyðinum sem hefur verið bannaður í fjölmörgum löndum sökum þess að vera talinn krabbameinsvaldandi. 

Í svari Vegagerðarinnar til Hringbrautar kom fram að notað hafi verið um 1.300 lítra af illgresiseyðinum á árunum 2009 til 2016. Starfsmenn Vegagerðarinnar staðfestu við Hringbraut að um 1000 lítrum af vatni hafi verið blandað í hverja 5 lítra af illgresiseyðinum. Þess vegna má álykta að um 260 þúsund lítrum af vökva sem innihélt þennan krabbameinsvaldandi illgresiseyði hafi verið dreift víðsvegar um Ísland. 

Í illgresiseyðinum Roundup er að finna efnið Glyphosate sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að geti valdið krabbameini. DV greindi frá því fyrr á þessu ári að Roundup illgresiseyðirinn hafi þá og áður verið í sölu á Íslandi en þá var það meðal annars að finna í Garðheimum. Í frétt Hringbrautar er vakið athygli á því að um 9 þúsund dómsmál hafi verið höfðuð í Bandaríkjunum gegn framleiðanda Roundup illgresiseyðisins.

Fjöldi starfsmanna Vegagerðarinnar, bæði núverandi og fyrrverandi, staðfestu það við Hringbraut að þeir hafi ekki fengið nein sérstök fyrirmæli um það að notast við hlífðarbúnað á meðan þeir blönduðu illgresiseyðinum við vatn. Matvælastofnun tekur það fram á heimasíðu sinni að sérstaklega sé efnið hættulegt þeim sem vinna við að blanda það.

„Já, sérstaklega þeim sem vinna með glýfosat, við að blanda og úða því eða vinna á ökrum með erfðabreyttum jurtum sem eru úðaðir oft á vaxtartímanum. Það má búast við að einhverjar leifar séu enn til staðar þegar matvælin koma á diskinn okkar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt