fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Steinn er edrú eftir ár í helvíti: „Ég vissi aldrei hvar ég átti að vera“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 14. janúar 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég var í 12 ára bekk í barnaskólanum upp á Skaga þegar yfirkennarinn kom upp til okkar og sagði: „Strákar það vantar fólk í útskipun og þeir ykkar sem viljið megið fara.“ Þá fórum við í frystiklefana að henda út frosnum kössum. Þetta var ekkert erfitt maður þurfti bara að klæða sig vel og vera með lopavettlinga. Og svo fór maður líka uppskipun um borð í Víking að skrúbba. Þarna stóðum við litlustrákarnir með Höskuldi gamla á dekkinu að skrúbba lestarborðin, stóru strákarnir voru í lestinni að pikka fiskinn ofan í málin.“

Svona hefst frásögn Steins Braga Magnasonar, sem vinnur á Hamborgarabúllunni. Steinn segir sögu sína á Facebook síðu átaksins „Fólkið í Eflingu“. Þar má einnig finna fjölmargar aðrar sögur fólksins í stéttafélaginu, fólks sem vinnur margvísleg störf í íslensku samfélagi en oft á tíðum fyrir lág laun.

Það er engin ástæða til að breyeta þessari frásögn og ætti enginn að láta hana fram hjá sér fara. Frásögn Steins er svohljóðandi:

„Ég var 14 ára að vinna hjá HB & CO á Akranesi, að bera fisk á borðin fyrir konurnar sem voru að snyrta. Þá voru ekki þessi færibönd, við komum með kassann og hvolfdum þessu á borðin hjá þeim. Þunnildin og allur afskurður fóru í marning sem er bara hakk og endaði sem fangamatur ofan í fanga í fangelsum í Ameríku, þetta var okkur sagt.

Ég var farandverkamaður frá 16 ára aldri, ég var á sjó eða í frystihúsum á Þingeyri, á Flateyri, Súðavík, Súganda, Vestmannaeyjum, Hornafirði, Djúpavogi og Patró. En maður vildi helst vera í landi á sumrin og þá fann maður sér málningarvinnu á Skaganum, tók rútuna á sveitaböllin í Logaland, Ferstiklu eða Borgarnes. Þetta voru svo góðar hljómsveitir sem maður var að elta á böllin, Grýlurnar, Brunaliðið, Brimklóm, HLH flokkurinn og Tíbrá. Ég fór að tjútta úr mér djöfulinn á meðan aðrir sáu bara slagsmálin, ég sá þau aldrei.

Ég vissi aldrei hvar ég átti að vera, það var flækingur á mér alveg þangað til að það rann af mér. Ég fór fyrst í áfengismeðferð 1987 og fór svo aftur árið 1988 , síðan komu ár í helvíti, myrkur andskotans, en svo hef ég verið edrú síðan 1991.

Ég var á sjó við norðurströnd Noregs það fiskaðist ekki neitt, það var búið að eyðileggja fiskimiðin. Grindhoraður þorskur og eitthvað af keilu. Þetta var 1988 þegar það var ofveiði hjá Norðmönnum og þá lokuðu þeir og byggðu stofninn upp frá grunni, en þá fóru Íslendingar og aðrir og rændu því sem Norðmenn höfuð byggt upp. Ég fékk rétt trygginguna mína borgaða.

Ég kláraði trygginguna, og fór blankur til Köben, spurði um gistingu og var boðið að búa með húsatökufólki á Ryesgade, þar voru dýnur og svefnpokar og mér var sagt að taka það sem ég vildi. Fyrstir koma og fyrstir fá.

Ég labbaði þaðan út á Amager á Kofoed skolen sem er hjálparstofnun fyrir útigangsfólk, geðfatlaða og alkóhólista. Ég gat fengið vinnu hjá Kofoed skólanum að rífa niður bretti í eldivið og fékk borgaði í gjaldmiðli sem var notaður innan stofnanarinnar. Ég gat keypt eina máltíð og hálfan Cecil sem voru 10 sígarettur í pakka fyrir þriggja tíma vinnu. Þetta er viðamikil stofnun, fólk gat líka búið þarna á veturna en með því skilyrði að taka inn Antabus. Danirnir fundu upp Antabus og eru svo hrifnir af þessari uppfinningu sinni. En þetta var skóli lífsins fyrir mig að kynnast fólkinu þarna.

Það voru margir staðir í Köben þar sem hægt var að fá að borða frítt. Í einhverri kirkjunni var bakherbergi þar sem eldri konur buðu upp á tebolla og rúgbrauð með söxuðum lauk sem var frítt og ef maður átti pening þá keypti maður sér egg með.

Seinna þegar ég hafði verið edrú í mörg ár gerði ég aðra atrennu og fór aftur til Danmerkur árið 2006 þegar mér fannst allt svo klikkað hérna heima. Allir að meika það en ég var ekki að meika neitt. Ég flutti út og var eitt ár á Jótlandi í Haderslev og en það var ekki mikla vinnu að fá. Þeim fannst ég ekki kunna dönsku og sendu mig á tungumálanámskeið, sem mér finnst gott hjá þeim að gera, það er erfitt að vera á atvinnumarkaðnum og kunna ekki tungumálið. Í tungumálaskólanum kynntist ég fullt af fólki sem kom úr erfiðum aðstæðum, sérstaklega var fólkið frá Congo illa leikið af áfallastreituröskun en samt mjög fallegar manneskjur.

Atvinnurekendur í Danmörku fá lánað fólk til prufu hjá féló, ég var ráðin í vinnu í verksmiðju sem framleiddi baðinnréttingar, ég fékk ekkert borgað, bara bæturnar hjá féló og svo var mér skilað aftur þegar ég hafði unnið út prufutímann.

Mér fannst erfitt að vera einn úti og tala eitthvað barnamál og eiga aldrei almennilegar samræður við neinn og ég kom aftur heim í júní 2008. Ég var rétt byrjaður að vinna hérna á Hamborgarabúllunni þegar hrunið kom. Þá fannst mér allir rosa stressaðir á Íslandi og ég var alveg gáttaður á því hvernig fólk lét, komandi frá Danmörku þar sem allir voru svo rólegir í röðinni sinni og ligeglad.

Þegar ég lét renna af mér á sínum tíma, þá fékk ég einhverja veirusýkingu og ónæmiskerfið bilaði, þetta fór alveg með boðefnaboðskapinn og ég hef síðan strítt við síþreytu. Ég vinn því 80 prósent vinnu og fer heim eftir hádegi og legg mig annars er ég ónýtur. Brennisteinsmengunin af Hellisheiði fer líka illa í mig, ég svitna og missi þol. Hún er verst í austan átt og þegar það er kalt, þá finn ég mest fyrir henni. Hún leggst eftir jörðinni og hún kemur beint inn um kjallaragluggann.

Ég mæti hérna á Búlluna klukkan sjö á morgnanna, set í þvottavél og laga kaffi og svo þarf að þrífa allt, sjæna og græja servíettur í boxin og salt í baukana. Svo byrja ég að skera niður grænmetið og preppa í bakkana sem þurfa að vera tilbúnir klukkan ellefu þegar Búllan opnar. “Preppa” kemur af enska orðinu “preparing” þetta er einhver kokkamálýska. En ég er sem sagt að taka saman allt sem fer á borgarana, kál, tómatinn, Dijon sinnepið, lauk, mæjó og gera tilbúið fyrir strákana sem eru að steikja hamborgarann.

Þegar ég klára þetta þá opnum við klukkan 11 og ég fer í frönskurnar og er með strákunum í mestu ösinni í hádeginu. Aðeins minna að gera núna, rólegra beint eftir hátíðirnar þegar fólk er nýbúið að borða fullt af kjöti.

Ég leigi herbergi hjá ættingja en ef ég væri að leigja íbúð í bílskúr, þá færu meira en tveir þriðju af kaupinu mínu bara í leigu. Það er fullt af fólki sem hefur það skítt í þjóðfélaginu, sérstaklega þeir sem eru á leigumarkaðnum, það fólk má ekki leyfa sér neitt, ekki einu sinni fara til læknis.

Ég hef unnið hérna í 10 ár og ég hef aldrei verið á sama stað eins lengi. Þegar maður er ungur þá vill maður alltaf vera að prófa eitthvað nýtt og fá kikkið en það minnkar með aldrinum.

Hérna er ég alltaf að gera það sama, víst kemur yfir mann að verða leiður, af því að heilinn vill fá leikfimi en þá reynir maður að hugsa hlutina öðruvísi og meðvitað. Kallast það ekki athafnajóga?

Þegar maður er ungur þá er maður ör, og þá er alltaf takmarkið að klára. En þegar maður eldist þá vill maður njóta þess að gera hlutina vel af því að maður veit að maður hefur bara ákveðinn tíma. Með aldrinum vill maður gefa sér tíma til þess að reima skóna.“

Sjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segir undirskriftalistann gegn Bjarna plebbalegan og óvirðingu við lýðræðið

Segir undirskriftalistann gegn Bjarna plebbalegan og óvirðingu við lýðræðið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá á nýjan leik

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá á nýjan leik