fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Eirika segir móður sína vanrækta á Hrafnistu: „Systir mín hefur þurft að skipta um á blautu rúmi hjá mömmu“

Auður Ösp
Föstudaginn 14. júní 2019 12:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hugsa að ég myndi frekar vilja deyja í svefni heldur en þurfa að dvelja öldruð við þessar aðstæður. Það er vont að geta ekki verið öruggur um foreldri sitt,“ segir Eirika G. Guðjónsdóttir í samtali við DV en hún gagnrýnir harðlega manneklu og fjársvelti á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu á Nesvöllum.

Ein og afskipt

Aðstæður á Hrafnistu á Nesvöllum voru til umfjöllunar nýlega en á dögunum greindi DV frá andláti 68 ára gamallar konu sem þar var búsett. Konan lést í október síðastliðnum, ein og afskipt í herbergi sínu og var endurlífgun ekki reynd þegar komið var að henni. Dætur konunnar þrjár telja að andlát hennar hafi komið til vegna vanrækslu starfsfólks á umönnun hennar og segjast ítrekað hafa kvartað yfir umönnun móður þeirra.

Konan hafði verið ein inni á herbergi með mat, þó svo að skýr fyrirmæli væru til staðar um að hún ætti að borða undir eftirliti. Þá var hún ekki með bjöllu til að láta vita af sér, þótt það sé skýrt að vistmenn eigi að vera með hana. Niðurstaða Landlæknis var sú að eftirliti með konunni hafi verið verulega ábótavant og ekki í samræmi við þarfir hennar.

„Hún þarf bara að bíða“

Eirika skrifaði hugleiðingu á Facebook á dögunum og lýsti því sem við blasti þegar hún heimsótti móður sína á deildina. Þegar Eirika gekk inn á deildina var aðeins einn starfsmaður að störfum. Þegar Eirika grennslaðist fyrir um málið var henni tjáð að fimm starfsmenn hefðu hringt sig inn veika um morguninn.

„Ég varð sorgmædd í hjarta mínu að aðeins einn starfsmaður væri að sinna heilli deild og jafnframt var ég líka reið. Ég spurði starfsstúlkuna: „Ef að það þarf að skipta á mömmu, hvað þá?“

 Svarið sem Eirika fékk var að þá yrði að kalla á hjálp frá annarri deild og bíða eftir að einhver kæmi. Var henni sagt að móðir hennar „þyrfti bara að bíða“.

Eirika er búsett erlendis en heimsækir móður sína í hvert sinn sem hún kemur til Íslands. Hún segir að það sama hafi verið upp á teningnum þegar hún heimsótti móður sína í janúar síðastliðnum. Þá hringdu sex starfsmenn sig inn veika.

„Það er mjög erfitt að horfa upp á foreldri sem greinist með heilabilun og hvað þá að fá ekki góða umönnun þar sem að viðkomandi er orðinn aldraður. Allir einstaklingar eiga rétt á að það sé komið fram við þá sem einstaklinga en ekki einsleitan hóp.

„Ég velti því fyrir mér hvort það sé virkilega hægt að leggja það á einn starfsmann að hugsa um heila deild, með einstaklingum sem þurfa fulla umönnun,“ segir Eirika jafnframt og spyr:

„Finnst yfirmönnum Nesvalla Hrafnistu þetta ásættanlegt? Er í lagi að koma svona fram við íbúa Hrafnistu? Ég er svo sár og reið fyrir hönd þessara einstaklinga sem búa á þessari deild en þetta er þeirra heimili en ekki stofnun. Ég tel að hér sé um alvarlega vanrækslu að ræða sem er algerlega óásættanleg.“

Aldrei fleiri en þrír á vakt

Móðir Eiriku var greind með heilabilun árið 2008 og er bundin við hjólastól. Hún hefur dvalið á Hrafnistu á Nesvöllum í tæp fjögur ár. Alls búa 10 einstaklingar á deildinni. Af þeim eru fimm í hjólastól og fjórir þurfa fulla umönnun.

Heimilisfólkið þarf mismikla hjálp við daglegar athafnir en móðir Eiriku er ein af þeim sem reiðir sig algjörlega á aðstoð annarra. „Hún þarf 100 prósent þjónustu við allt, eins og að borða og baðast. Það þarf tvær manneskjur til að hjálpa henni upp úr stólnum og leggja hana í rúm.“

Í samtali við DV segist Eirika aldrei  hafa séð fleiri en tvo til þrjá starfsmenn á sömu vakt. Móðir hennar þarf því langoftast að bíða eftir aðstoð. „Systir mín hefur til dæmis þurft að skipta um á blautu rúmi hjá mömmu. Í eitt skipti var mamma í fötum af annarri konu þó svo að öll fötin hennar séu merkt.“

Faðir Eiriku kemur í heimsókn á deildina tvisvar á dag og sömuleiðis eiginmaður annarrar konu sem þar dvelur.

„Þeir eru þá að hjálpa til, eins og við að leggja á borð og svona og pabbi sér um að mata mömmu. Þeir eru í raun bara eins og starfsmenn þarna. Pabba finnst gaman að geta hjálpað til, en þetta á auðvitað ekki að vera svona. En það er ekki annað í boði.“

Eirika tekur fram að gagnrýnin beinist ekki að starfsfólki Hrafnistu, heldur þeim sem sitja við stjórnvölinn. Hún tekur heilshugar undir þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa í kjölfar andlátsins í október síðastliðnum. „Það er ekki hægt að leggja það á starfsfólkið að vinna undir þessum aðstæðum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga