fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Láta heimildarmynd um Michael Jackson ekki stöðva sig: „Þetta er ekki heppilegasta tímasetningin fyrir okkur“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 11. mars 2019 13:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menntaskólinn á Egilsstöðum frumsýnir 16. mars leikritið Thriller, þar sem tónlist eftir Michael Jackson verður fyrirferðamikil.

Heimildarmyndin Leaving Neverland verður sýnd í tveimur hlutum á RÚV í þessari viku, í kvöld og á miðvikudag. Í myndinni stíga fram tveir karlmenn og segja frá því hvernig Jackson misnotaði þá á sjö ára tímabili.

Ísgerður Gunnarsdóttir, leikkona stendur að sýningunni ásamt nemendum. „Þetta er ekki heppilegasta tímasetningin fyrir okkur,“ sagði Ísgerður í samtali við blaðamann.

„Sýningin er ekkert um Michael Jackson. Þetta er frumsamið verk sem við sömdum saman. Það eina sem er notað er tónlistin, við erum ekki að nota textana eða fjalla neitt um hann sjálfan. Þannig séð tengist sýningin honum ekki með beinum hætti.“

Þó Jackson sé umdeildur voru Ísgerður og nemendur sammála um að tónlistin hans sé enn sem áður góð.

„Við erum ekki að taka neina afstöðu með eða á móti honum með þessu verki, við erum bara að nota lögin“

Þegar fréttir fóru að berast af heimildarmyndinni var hópurinn búinn að taka ákvörðun um að nota tónlist Jacksons en íhugaði þó að endurskoða þá ákvörðun.

„Það var ein sem hætti, en það var áður en við byrjuðum. Við heyrðum af þessari mynd eftir fyrsta námskeiðið, áður en við fórum að búa til verkið. Þegar ég frétti af þessu þá spurði ég hópinn, því það var ekkert hitamál fyrir mér að nýta endilega hans tónlist, og ég spurði þau einfaldlega hvort þau vildu breyta.“

„Hinir voru bara á því að þetta væri góð tónlist og skemmtileg lög og vildu ekki breyta því. Þau ákváðu bara að hugsa um tónlistina en ekki myndina eða hans sem persónu eða hvað hann gerði eða gerði ekki.“

Eftir því sem heimildarmyndin varð fyrirferðameiri í umræðunni fór hópurinn þó að hafa áhyggjur af því að hún kynni að eyðileggja fyrir þeim.

„Það hafa alveg komið upp áhyggjur í hópnum um hvort þetta muni skemma fyrir verkinu, en ég sagði við þau að mér þætti ólíklegt að fólk færi að nota þetta gegn Menntaskólanum á Egilsstöðum hvort Michael Jackson braut af sér eða ekki. Maður allavega vonar að þannig verði það ekki, þau tengjast þessu ekki neitt.“

Verkið er frumsamið og Ísgerður og nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum sömdu það í sameiningu. Í verkinu gagnrýna nemendurnir breytingar sem hafa orðið í framhaldsskólakerfinu síðustu ár.

„Í verkinu eru þau að koma því á framfæri að þau eru ósátt við að það  hafi verið breytt úr fjögurra ára kerfi í menntaskóla í þriggja ára. Það er alltaf verið að segja þeim að þetta séu bestu ár lífsins en svo hafa þau ekki tíma til að njóta þeirra því það er svo mikið að gera í skólanum. Það er í rauninni það sem verkið fjallar um og skiptir þau meira máli  heldur en einhver heimildarmynd.“

En ætlar Ísgerður að horfa á heimildarmyndina?

„Ég veit ekki hvort mig langar að sjá hana. Ég hugsa að ég horfi allavega ekki á hana fyrir frumsýninguna og ég hef ekki tíma í það heldur, enda verðum við á æfingu þegar hún verður sýnd.“

Verkið verður, eins og áður segir, sýnt 16. mars næst komandi og hópurinn heldur sínu striki þrátt fyrir að Jackson sé afar umtalaður og umdeildur þessa stundina.

„Það voru greinar í síðustu viku sem veltu því upp  hvort það ætti að hætta að spila tónlistina hans og þá auðvitað komu upp smá áhyggjur“

„Þetta er í rauninni stærra en hann. Má njóta þess góða sem fólk gerir ef það gerir eitthvað ljótt? Í stærra samhengi heldur en hann því það eru svo margir, leiðinlegt að segja það, hafa gert margt gott og líka margt vont. Það er ótrúlega ánægjulegt að það sé verið að afhjúpa fólk en hvað svo? Hvað á svo að gera við fólkið? Hvernig á þetta að vera? Hvað má og hvað má ekki?“

„Má njóta þess góða ef fólk gerir eitthvað vont?“

Hópurinn í Valaskjálf þar sem verkið verður sýnt
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“