fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Dularfullur dauðdagi í miðbæ Reykjavíkur – Fjölskyldan niðurbrotin – „Það er eins og hann hafi verið að flýja undan einhverjum“

Auður Ösp
Laugardaginn 22. september 2018 10:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Eina vonin er að einhver gefi sig fram með upplýsingar,“ segir Tammy Goettemoeller, móðir Darins Maverick Goodman, 25 ára pilts sem lét lífið á hroðalegan hátt á Íslandi í lok júní síðastliðnum. Enn er ekki vitað hver aðdragandinn var að þessu hörmulega atviki. Fjölskylda Darins vill ekki útiloka að dauða hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Sitja eftir með ótal spurningar

DV greindi upphaflega frá málinu en Darin fannst látinn eftir að hafa fallið fram af þaki á byggingu í miðborg Reykjavíkur þann 30. júní síðastliðinn. Hann var fluttur með hraði á Landspítalann en úrskurðaður látinn skömmu síðar.

Engin vitni voru að atvikinu. Þann 31. ágúst síðastliðinn birti lögreglan ljósmyndir af upptökum úr öryggismyndavélum í miðborginni og óskaði eftir að ná tali af fólkinu á myndunum í tengslum við rannsókn málsins. Fram kom að fólkið átti í samskiptum við Darin fyrr um kvöldið og gæti mögulega sagt til um  um málsatvik áður en slysið átti sér stað.

DV ræddi við Tammy síðastliðinn föstudag þar sem hún sagði að aðstandendur Darins ættu ennþá eftir að fá svör við ótal spurningum varðandi atburðarás þessa kvölds.

Lækjargata í miðborg Reykjavíkur. Myndin er úr safni.

Setur spurningarmerki við áreiðanleika eiturefnarannsóknar

Í samtali við DV segir Tammy að fjölskyldan sé engu nær um atburði kvöldsins eða hvað leiddi til þess að Darin endaði uppi á þaki American Craft Bar í Lækjargötu þann 30. júní síðastliðinn.

„Við höfum ekki fengið neinar nýjar upplýsingar frá rannsóknarlögreglunni. Það var reyndar bandaríska sendiráðið sem lét okkur vita með tölvupóstskeyti að það væri verið að lýsa eftir þessum einstaklingum sem sjást á myndunum.

Rannsóknin stöðvaðist þegar einn af lögreglumönnunum fór í mánaðarlangt frí. Við höfum mætt kurteisi og hlýju frá íslensku lögreglunni en það hefur ekkert komið fram sem getur útskýrt hvers vegna Darin fór þarna upp.

Okkur var sagt að eiturefnarannsókn hefði sýnt fram á áfengi í blóði hans og smávegis koffín, og að hann hefði látist vegna innvortis blæðinga.“

Hafið þið einhverjar hugmyndir um hvað gerðist þetta kvöld?

 „Okkur grunar að honum hafi verið byrluð ólyfjan. Samkvæmt eiturefnarannsókn þá neytti hann aðeins áfengis en satt að segja þá set ég spurningarmerki við það hversu áreiðanlegar þessar niðurstöður eru þegar eiturefnarannsókn er framkvæmd níu dögum eftir andlátið.

Við erum hrædd um að einhver hafi verið að elta hann, eða að hann hafi sjálfur verið að elta einhvern sem stal frá honum, eða þá að hann hafi verið með ofskynjanir eftir að hafa verið byrluð ólyfjan.“

Segja útilokað að Darin hafi neytt eiturlyfja

Darin var að sögn Tammy alls ekki hvatvís.

„Hann var einstaklega skipulagður. Hann setti allt upp í Excel-skjal, Íslandsferðina þar á meðal. Áður en hann fór var hann búinn að skipuleggja hvern einasta dag í ferðinni, kortleggja allan kostnað og lista niður kosti og galla þess að dvelja á gistiheimili eða í tjaldi. Hann skipti mánaðarlaununum sínum niður á mismunandi reikninga, einn fyrir ferðalög, einn fyrir skattgreiðslur, einn fyrir sparnað og svo framvegis.

Þar sem þetta var hans persónuleiki þá vitum við fyrir víst að hann myndi aldrei fara að ferðast þvert yfir hnöttinn til þess að neyta eiturlyfja,“

segir Tammy og bætir við að þau hafi rætt ítarlega við nánustu vini Darins. Þeir segjast aldrei hafa séð hann snerta eiturlyf.

„Darin var heldur ekki þunglyndur eða neitt slíkt. Það eina sem komst að hjá honum var hvert hann ætti að ferðast næst. Ég veit það fyrir víst að hann var í fullkomnu andlegu jafnvægi og það sem var efst í huga hans var að skipuleggja næsta ferðalag. Hann var hraustur og liðugur og einhverra hluta vegna hefur hann klifrað upp á þakið á Icelandic Craft Bar. Eins og ég segi, það er eins og hann hafi verið að flýja í burtu frá einhverjum, eða þá verið með ofskynjanir.“

Að framanverðu virðist þakið vera mjög bratt. Ef einhvern annar hefur komist upp á þakið líka þá er líklegt að sá hinn sami hefði líka fallið. Það er eins og hann hafi verið að flýja undan einhverjum. Kannski hefur einhver elt hann á bak við húsið?“ segir Tammy jafnframt. „Við erum viss um að mennirnir tveir sem sjást á myndinni vita eitthvað um málið. Það væri óskandi ef við gætum bara fundið þá.“

Tammy segir að það hafi einnig verið gríðarlega erfitt ferli sem tók við þegar flytja þurfti lík sonar hennar heim til Bandaríkjanna.

„Það tók 15 daga að fá hann hingað út til Bandaríkjanna vegna þess að það þurfti fyrst að framkvæma krufningu. Við erum ekki enn búin að sjá skýrsluna.

Hann bjó í rúmlega níu klukkustunda akstursfjarlægð frá okkur og var komin í sitt fyrsta starf eftir útskrift, en hann hafði áður verið í lærlingsstöðu hjá sama fyrirtæki. Samstarfsfélagar hans hafa margir hverjir haft samband við mig og deilt með mér fallegum orðum um Darin. Planið hjá honum var að flytja til New Orleans þegar hann kæmi heim frá Íslandi, en þar beið hans verkefni.

Viku áður en hann hélt til Íslands var honum úthlutað hættulegu verkefni í vinnunni þar sem hann þurfti að fara niður í stórt tæki. Hann hringdi bæði í pabba sinn og mig og sagðist elska okkur. Eftir á sendi hann okkur síðan skilaboð til að láta okkur vita að allt hefði gengið vel og að það væri í lagi með hann.

Við vorum stöðugt með áhyggjur af Darin á þessum ferðalögum hans af því að hann óttaðist aldrei neitt. Það er versta martröð allra foreldra að fá símtal í líkingu við það sem við fengum frá sendiráðinu.

Við sitjum hér eftir með tómarúm í hjartanu og ég efast um að það muni nokkurn tímann hverfa. Þetta er það skelfilegasta sem hægt er að ganga í gegnum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni