fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Kolefnisútstreymi úr Kötlu segir ekkert til um hvort gos sé í aðsigi eða hve stórt það verður

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 20. september 2018 22:05

Ætli það verði hægt að nota þessa aðferð til að fylgjast með Kötlu?

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eldfjallið Katla hefur vakið mikla athygli bæði í erlendum og innlendum fjölmiðlum undanfarið. Fjallið gaus síðast árið 1918 en margir bera kvíðboga fyrir mögulegu Kötlugosi þar sem það gæti orðið gífurlega öflugt og valdið óskunda, meðal annars truflunum á flugumferð.

Nýleg vísindagrein um mikið útstreymi kolefnis úr Kötlu hefur vakið athygli og margir dregið af þeim upplýsingum þær ályktanir að næsta Kötlugos sé yfirvofandi og það verði stórt. Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðfræðings er rangt að draga þessar ályktanir. Alls sé óvíst um hvort Kötlugos sé yfirvofandi og því síður gefi þetta tilefni til að meta stærð næsta goss.

Tumi skrifar pistil um málið á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar og er pistillinn svohljóðandi:

Nýleg grein Evgeniu Ilyinskayu og samstarfsfólks í tímaritinu Geophysical Research Letters um útstreymi koldíoxíðs (CO2) frá Kötlu hefur vakið verðskuldaða athygli enda um að ræða mjög áhugaverðar nýjar niðurstöður Ein helsta niðurstaða greinarinnar er að útstreymi CO2 frá Kötlu geti verið á stærðarbilinu 10-20 þúsund tonn á dag. Þetta eru stórar tölur og setja Kötlu í flokk með þeim eldfjöllum í heiminum þar sem útstreymi CO2 er mest.

Í fjölmiðlaumræðu sem átt hefur sér stað í kjölfar útkomu greinarinnar gætir nokkurs misskilnings um þýðingu þessara niðurstaðna. Mælingarnar segja ekkert um hvort nú sé gos í aðsigi eða hve stórt næsta gos verður enda fjalla höfundar hvergi um það mál í grein sinni. Mælingarnar sýna hinsvegar ótvírætt að CO2 leitar upp í miklum mæli og hefur gert í einhver ár, hve lengi er ekki vitað en svipað útstreymi gæti hafa varað undanfarna áratugi. Öllu óljósara er hvort þessi mikla losun tengist beint grunnstæðu kvikuhólfi undir Kötlu eða hver tenging þess er við kvikusöfnun í eldstöðinni. Hugsanlegt er að Katla virki eins og nokkurskonar ventill eða uppstreymisrás fyrir gas sem losnar úr kviku á miklu dýpi undir suðurhluta gosbeltisins. 

Þessar merkilegu mælingar sýna að við eigum ýmislegt ólært um eldvirknina og eiginleika einstakra eldstöðva. Eins og höfundar greinarinnar benda á kalla niðurstöðurnar á að fram fari mun ítarlegri mælingar. Það er til dæmis mikilvægt að vita hvort útstreymið er stöðugt eða árstíðabundið. Hugsanlega munu frekari mælingar varpa nýju ljósi á hegðun Kötlu og gætu þannig hjálpað okkur við að bæta enn frekar eftirlit og hættumat. Meiri mælingar eru líka eina leiðin til að fá áreiðanlegra mat á heildarlosun eldstöðvarinnar. Í framhaldinu þarf að meta hvað tölurnar segja okkur um kvikuna undir Kötlu og hvaða lærdóma má draga af þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt