fbpx
Mánudagur 17.júní 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Birgir segir að nú sé nóg komið – „25 milljónir. Þú færð ekki einu sinni tveggja herbergja íbúð fyrir það“

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 12. september 2018 11:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta lítur pínu út eins og málamyndagjörningur þar sem menn eru að slá sig til riddara án innistæðu,“ segir Birgir Jónsson, trommuleikari rokkhjómsveitarinnar Dimmu.

Á mánudag var greint frá því að heilbrigðisráðuneytið ætlaði þegar í stað að setja 25 milljónir króna í að fylgja eftir aðgerðaáætlun um fækkun sjálfsvíga á Íslandi. Birgir segir frábært að ráðamenn sýni vilja til að grípa til aðgerða í þessu mikilvæga máli en að mati Birgis er þetta of lítið og of seint, „eiginlega bara grátlega fyndið,“ eins og Birgir segir í pistli sem hann skrifaði á Facebook um málið og hefur vakið mikla athygli.

Auðveldara að fá þjónustu á bílinn

Í pistlinum segir Birgir að sem rokktónlistarmaður hafi hann kynnst allt of mörgum sem eru að glíma við þunglyndi, depurð og kvíða.

„Ég veit ekki alveg hvað það er í þessari senu en það er svo rosalega mörgum sem líður illa. Næmt og fallegt fólk sem er bara of brothætt fyrir þetta harða þjóðfélag og álagið sem því fylgir. Kannski er ekkert fleirum sem líður illa þar en annarsstaðar en þetta er allavega það sem ég þekki.“

Birgir segir að hans upplifun sé þannig að auðveldara sé að fá þjónustu á bílinn en fá aðstoð á sviði geðhjálpar eða sálfræðiþjónustu. „Við vitum hvernig staðan er á geðdeildinni, þar sem starfsfólk er undir „geðveiku“ álagi við að gera sitt besta við að redda einhverju en samt er fárveiku fólki hent út á götu í sárri neyð vegna fjárskorts, og svo er lokað á sumrin. Ef þú býrð út á landi þá ertu fokkd, sorrý.“

Horft á eftir grátlega mörgum svipta sig lífi

Birgir segir að hann og vinir hans hafi þurft að horfa á eftir grátlega mörgum svipta sig lífi, flottu ungu fólki sem hafði hæfileika í búntum sem hefði ekki gert neitt annað en að auðga samfélagið.

„En samt getur svarti hundurinn talið þeim trú um að heimurinn sé bettur settur án þeirra. Sem er alrangt. Alveg ótrúlega sorglega rangt. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að telja saman hvað DIMMA er búin að spila í mörgum jarðaförum eða koma með einum eða öðrum hætti að slíkum athöfnum eftir sjálfsvíg ungs fólks eða krakka sem látist hafa úr ofneyslu, sem er eiginlega það sama. Þetta er agalegt helvíti. Faraldur.“

Birgir segir í færslunni að við sem þjóðfélag getum ekki leyft okkur að láta þessi mál mæta afgangi. Fólk í sjálfsvígshugsunum, neyslu eða einstaklingar sem glíma við geðsjúkdóma verður að geta fengið bráðaþjónustu og nauðsynleg úrræði. „Þetta fólk getur ekkert alltaf borgað 15-20 þúsund fyrir sálfræðitímann sem er laus eftir dúk og disk, sérstaklega ekki ungt fólk.“

Mega ekki mæta afgangi

Tilkynnt var um 25 milljóna króna framlagið á málþingi á mánudag, undir yfirskriftinni Stöndum saman gegn sjálfsvígum, sem haldið var í húsakynnum Decode. Málþingið var haldið í tilefni Alþjóðadags sjálfsvígsforvarna þann 10. september.

Svandís Svavarsdóttir. Mynd: Velferðarráðuneytið

Mun framlagið verða notað til að hrinda í framkvæmd verkefnum sem lögð eru til í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að mikilvægt væri að þjónustan sneri að einstaklingum, væri aðgengileg, bæði í skólakerfinu og í heilsugæslunni. Sagði Svandís að geðheilbrigðismálin mættu ekki mæta afgangi og væru gríðarlega mikilvægur þáttur í góðu samfélagi.

Óhagkvæmt í efnahagslegu tilliti

En Birgir metur það svo að þetta 25 milljóna króna framlag muni daga skammt þegar öllu er á botninn hvolft.

„Það er auðvelt að leiða þessi mál hjá sér vegna þess að maður er kannski svo heppinn að vera ekki að eiga við þetta vandamál í sínu daglega lífi einmitt núna. En í ísköldum raunveruleikanum þá má einnig benda á þá hagfræðilegu staðreynd að við sem örþjóð höfum ekki efni á að missa allt þetta flotta fólk úr hagkerfinu. Við getum ekki misst tugi einstaklinga á hverju ári sem hefðu haldið áfram með sitt líf og orðið góðir og gildir efnahagslegir þegnar. Borgað skatta, keypt drasl, tekið lán, eignast börn, greitt í lífeyrissjóði og yfirhöfuð staðið undir og tekið þátt í samneyslunni. Hvert líf sem við töpum úr þessari jöfnu er svo miklu miklu verðmætara en þær upphæðir sem ráðamenn telja að þeir séu að setja í þessi mál til að bregðast við einhverju. Þetta lítur pínu út eins og málamyndagjörningur þar sem menn eru að slá sig til riddara án innistæðu. Ég efast ekkert um að þetta góða fólk telur sig vera að gera gott og hefur margar skýringar fyrir því að ekki er hægt að gera meira. En þetta er bara ekki nógu gott. Lélegt.“

„Er betra að skilja þessa krísu svona?“

Birgir varpar fram þeirri spurningu hvort færa ætti geðheilbrigðismálin úr heilbrigðisráðuneytinu í fjármálaráðuneytið. „Þar á bæ ættu menn að skilja að það er bara góður bissness að passa það að fólk sé ekki að kála sér hægri vinstri, því það er miklu betra að eyða smá pening, fjárfesta, í að halda þeim á lífi, svona hagfræðilega séð altso. Kannski er það eitthvað dæmi sem fólk getur sett uppí Excel skjalið sitt og skilið sem skynsamlega peningastjórnun frekar en eitthvað svona mjúkt aumingjavæl um hvað fólki líður illa í sálinni.“

Segir Birgir að kannski ættu tölur um sjálfsvígstíðni að koma fram á blaðamannafundum í Seðlabankanum, eins og þegar stýrivextir eru kynntir. „Þetta er leki úr hagkerfinu sem þar að stöðva. Ekki bara harmleikur fyrir ástvini þeirra sem falla heldur efnahagslegur harmleikur fyrir okkur öll. Er betra að skilja þessa krísu svona?“

Birgir endar pistilinn á að setja í samhengi hvað fæst fyrir 25 milljónir króna.

„25 milljónir. Þú færð ekki einu sinni tveggja herbergja íbúð fyrir það. Þetta er kannski það sem einn einstaklingur myndi greiða umfram virði íbúðarinnar sinnar í verðtryggða láninu sínu, þ.e. ef hann hefði lifað. Það er einn sæmilegur ráðherrabíll. Smápeningar. Hlægilegt klink í stóru myndinni. Þessi frétt ætti frekar að spyrja hvort þetta lið sé að grínast, er þetta í alvöru allt sem þið eruð með??“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Kona má ekki heita kona – Má þó heita Náttúra og Kráka : „Bara kvenfyrirlitning, hrein og klár“

Kona má ekki heita kona – Má þó heita Náttúra og Kráka : „Bara kvenfyrirlitning, hrein og klár“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Merkel komi til Íslands í ágúst

Fullyrt að Merkel komi til Íslands í ágúst
Fréttir
Fyrir 2 dögum

41 mál bókað hjá lögreglu frá miðnætti – Grunur um miðnæturgrill

41 mál bókað hjá lögreglu frá miðnætti – Grunur um miðnæturgrill
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ógnaði börnum með exi – Fékk vægan dóm

Ógnaði börnum með exi – Fékk vægan dóm
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ómar fékk sjokk þegar hann kom frá Spáni: Fær móral yfir því að vera þátttakandi í þessari menningu

Ómar fékk sjokk þegar hann kom frá Spáni: Fær móral yfir því að vera þátttakandi í þessari menningu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einn stærsti lottópottur sögunnar á laugardag

Einn stærsti lottópottur sögunnar á laugardag
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segir Bjarna hafa lítillækkað Katrínu: „Nú opinberaði hann yfirburði sína yfir Katrínu “

Segir Bjarna hafa lítillækkað Katrínu: „Nú opinberaði hann yfirburði sína yfir Katrínu “