fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Starfsfólk Smáratívolís skeytingarlaust um 5 ára stelpu sem fótbrotnaði: „Ég skammast mín fyrir að hafa farið með barnið þangað“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 4. ágúst 2018 11:57

Frá Smáratívolí

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fimm ára barnabarn Elísabetar Einarsdóttur fótbrotnaði í rennibraut í Smáratívolí á föstudag. Starfsfólk Smáratívolís skeytti engu um meiðsli stúlkunnar og henni var sagt að hætta að gráta. Þegar Elísabet bað um aðstoð við að koma slösuðu barninu af vettvangi, til dæmis í hjólastól eða kerru, var henni sagt að það væri ekki hægt.

„Ég skammast mín fyrir að hafa farið með börnin á þennan stað,“ segir Elísabet í viðtali við DV en hún hafði ekki hugmynd um tilvist skemmtigarðsins fyrr hún kom á staðinn. „Ég var að fara með dóttur mína til læknis og með í för voru tvö barnabörn mín, þriggja og fimm ára stelpur. Þær báðu um að fá að fara í skemmtigarðinn og ég hugsaði með mér að ég gæti þá fengið mér kaffisopa á meðan. Ég innritaði þær því þarna inn í barnagæslu og skildi eftir símanúmerið mitt. Það var síðan hringt í mig úr skemmtigarðinum og mér tjáð að stelpan væri að gráta. Ég hélt þá bara að hún væri eitthvað sorgmædd.“

Þegar Elísabet kom á vettvang sá hún strax að eitthvað óeðlilegt amaði það. Fimm ára stúlkan var illa haldin. „Hún er ekki barn sem grætur nema eitthvað sé að. Sársaukinn var svo mikill að ég gat ekki tekið á fætinum, gat ekki klætt hana í skóinn.“

Elísabet segir að á meðan þessu stóð hafi maður gefið sig á tal við hana og sagt henni að systurnar hefðu komið brunandi niður rennibrautina og lent á honum. „Hann var mjög áhyggjufullur en ég skil ekki alveg hvað var í gangi. Var fullorðinn maður í þessari rennibraut með börnunum? Og starfskonan var fullkomlega áhugalaus um það sem hann var að segja.“

Þarna hjá stóð starfskona sem Elísabet álítur að hafa verið um eða yfir þrítugt. Starfskonan sýndi líðan barnsins engan áhuga en sagði einu sinni: „Hættu að gráta.“ Elísabet gerði henni ljóst að þetta barn gréti ekki að ástæðulausu. „Það var líka ekki þannig að hún væri hljóðandi,“ segir Elísabet.

Elísabet þurfti að halda á slösuðu barninu að næsta útgangi og sú þriggja ára með í för líka. „Ég varð að leggja hana niður þarna á planinu fyrir utan, fara síðan með þá þriggja ára og ná í bílinn, aka til hennar og taka hana upp. Ég fór með hana á slysadeildina þar sem hún var mynduð og í ljós kom að hún var ristarbrotin.“

Smáratívolí hringdi en hafði samt engan áhuga á meiðslum barnsins

Á meðan Elísabet var stödd með börnin á slysadeildinni hringdi karlmaður úr Smáratívolí í hana og spurði hvort hún væri ekki búin að sækja börnin. Hún sagði honum að hún væri stödd á slysadeildinni þar sem annað barnið hefði fótbrotnað í rennibraut í skemmtigarðinum. Maðurinn hafði engan áhuga á þeim fréttum og rauf samtalið.

„Mér fannst þetta kostulegt. Héldu þau kannski að þau væru búin að týna börnunum?“

Elísabet segist ekki vita hvort almennt séu slysagildrur í Smáratívolí: „Það geta alltaf orðið slys. Það sem mér blöskrar hins vegar er þetta ótrúlega skeytingarleysi starfsfólksins. En mér fannst samt vera allt of dimmt þarna og þetta er hálfdrungalegur staður. Það er ljóst að ég fer aldrei með börn þangað aftur.“

Stúlkan mun ná sér og líðan hennar er eftir atvikum ágæt. „Þetta var sem betur fer ekki mikið brot en brot engu að síður og hún var grátandi hérna í nótt. Hún er fjörug og lífsglöð, er mikil sundkona og finnst ekkert skemmtilegra en að busla í vatni. En hún er í gifsi og fer ekki í sund næstu vikurnar.“

DV reyndi að hafa samband við Smáratívolí vegna málsins en ekki er svarað þar í síma um helgar heldur er einungis símsvari. Var þá send fyrirspurn um málið á netfang fyrirtækisins en henni hefur ekki verið svarað. Fjallað verður nánar um málið eftir að svar berst frá Smáratívolí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu