fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Unnið að endurreisn WOW ?

Fréttir

Heba lenti í hrottalegri líkamsárás – Stungin sjö sinnum og áreitt af lögreglu: „Ég er hrædd við það að deyja“

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 18. ágúst 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er með svo mikla áfallastreituröskun eftir þetta allt saman,“ segir Heba Lind Björnsdóttir en hún varð fyrir alvarlegri líkamsárás fyrr á árinu í Vesturbænum í Reykjavík. Árásarmaðurinn var kunningjakona Hebu sem hún hefur nú kært til lögreglu fyrir tilraun til manndráps.

„Við höfðum hist fyrr um nóttina og hún ætlaði að leyfa mér að gista, en svo sagði hún mér fyrirvaralaust að drulla mér út. Þá tók hún upp bjúghníf og dúndraði honum í lærið á mér,“ segir Heba. „Hvað gerir maður þegar verið er að stinga mann? Maður ver sig. Svo gerði hún það aftur strax og þá reyndi ég að halda henni og hófust þá slagsmál upp á líf og dauða. Konan stakk mig sjö sinnum.“

Heba var handtekin í kjölfar atviksins, alblóðug, og flutt upp á bráðadeild Landspítalans í fylgd lögreglu. Heba stendur einnig í málsókn gagnvart tveimur ónefndum lögregluþjónum sem komu að þessu máli. Að sögn Hebu hafa þessir sömu lögreglumenn ítrekað áreitt hana og níðst á henni.

Hún segist hafa áður lent í lögreglunni vegna ósættis á heimili sínu, við eiginmann sinn vegna neyslu hennar, en að þessir tveir tilteknu lögregluþjónar hafi gengið skrefinu lengra við hvert tækifæri.

„Ég vissi ekki einu sinni að ég væri á leiðinni á spítala. Það var búið að handjárna mig og setja á mig hauspoka. Ég var alvarlega slösuð þarna, með stungusár og ég var búin að segja löggunni það, en þá sneru þeir upp á mig,“ segir hún.

 

Neydd upp á geðdeild af lögreglunni

Þegar komið var á bráðamóttökudeild segist Heba hafa verið of stjörf til þess að lýsa því sem gerðist eftir árásina og á leiðinni. Lögreglumennirnir, að hennar sögn, töluðu við hana í hæðnistón og gerðu óspart grín að henni og hennar ástandi. Í læknisvottorði Hebu kemur fram að hún hafi verið flutt upp á bráðamóttöku með sjúkrabíl, en þær upplýsingar segir hún að séu lygi.

„Svo er ég rukkuð fyrir sjúkrabíl sem ég var ekki einu sinni í,“ segir Heba. „Af hverju er logið í læknisvottorðinu að ég hafi komið með sjúkrabíl?“

Einnig segir í sama læknisvottorði að sagan hafi verið að öllu leyti fengin af lögreglu, en Heba segir vera góða ástæðu fyrir því. „Ég er þannig að ég þarf að vera helvíti hrædd til þess að halda kjafti. Ég man eftir að hafa hugsað: Nú er best að þegja og þykjast vera í losti, láta sauma mig saman, lifa þetta af og ekki upplifa þetta aftur.“

Úr læknisvottorði Hebu.

Í vottorðinu kemur fram að Heba hafi verið ósamvinnuþýð, meðal annars hrækt á lögreglumenn og verið óróleg í járnum, en að hennar sögn reyndi hún bara að bíða þetta af sér og halda ró sinni. Þá bætir Heba við að málin hafi versnað þegar lögreglumennirnir neyddu hana upp á geðdeild Landspítalans næsta dag.

„Þegar ég vaknaði á spítalanum stóð ein löggan við hornið á herberginu á sjúkrahúsinu. Þá ákváðu þeir að taka mig, stórslasaða. Þeir fóru ekki með mig í fangaklefa, heldur fóru þeir með mig inn á geðdeild. Það var bókstaflega búið að tæma geðdeildina, enda enginn í augsýn nema tveir starfsmenn þarna. Lögreglan fór síðan að neyða ofan í mig pillur og hæðast að mér á sama tíma,“ segir Heba. Lýsir hún þarna atviki þar sem lögreglumaðurinn, sem er annar þeirra sem hún hefur kært, stóð með fimmtán litlar töflur í lófanum og tíndi þær ofan í hana gegn hennar vilja.

Heba setur spurningarmerki við það hvers vegna komið var svona fram við hana, en árásarkonan var aldrei sett í gæsluvarðhald. „Hennar hlið er einfaldlega bara þögguð niður,“ segir Heba og bætir við að það sé ýmislegt sem lögreglan neiti að rannsaka, að margt viðgangist sérstaklega gegn þeim sem eru fíklar. „Ég var búin að upplifa helvíti þessa nótt og síðan var ég neydd á geðdeildina. Lögreglan hefur í fyrsta lagi ekki heimild til að fara með mig á geðdeild, en þeir sögðu við mig að ég þyrfti að fara þangað. Ég kom þangað, öll í hakki og stórsá á mér.“

 

„Ég á ekkert minna skilið að lifa en aðrir“

Heba segir að málið hafi lítið skánað eftir að hún losnaði af geðdeildinni og segir að eiginmaður hennar hafi fengið reglulega símtöl frá lögreglunni. „Annar þeirra sem ég kærði hringdi og spurði manninn minn þrisvar sinnum hvort hann gæti staðfest að ég væri í neyslu,“ segir hún. „Hann spurði sérstaklega hvort hann mætti hafa það eftir manninum mínum að ég væri ennþá í neyslu. Þarna var ég nýkomin úr meðferð en samt fær maðurinn minn lögregluna í símann að fiska eftir upplýsingum um mig, eitthvað til að klína á mig.“

Að sögn Hebu óttast hún að hún verði látin hverfa einn daginn, að einhver vafasamur sem misbeiti valdi muni koma því í verk að „enn einn fíkillinn bara hverfi, eins og maður sér svo oft um í fréttunum.“ Heba segir hótanir lögregluþjónanna gefa ýmislegt til kynna, að hún þori varla öðru en að þegja um allt málið. Á næstunni stendur til hjá henni að fylgja ákærumálunum eftir, halda áfram meðferðarúrræðum og vona hið besta. „Ég er móðir, ég er systir, ég er vinkona. Ég á ekkert minna skilið að lifa en aðrir. Ég er rosalega hrædd við að vera drepin. Ég er í alvörunni hrædd um það,“ segir Heba.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Mikil fita gerir Skagamönnum erfitt fyrir – Ekkert leyndarmál hvað veldur

Mikil fita gerir Skagamönnum erfitt fyrir – Ekkert leyndarmál hvað veldur
Fréttir
Í gær

Sjö mánaða stúlka kemst ekki í aðgerð á Landspítalanum vegna plássleysis

Sjö mánaða stúlka kemst ekki í aðgerð á Landspítalanum vegna plássleysis
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Engin páskaegg fyrir fátæk börn í ár – Inga vonar að páskaeggjaframleiðendur geri betur næst

Engin páskaegg fyrir fátæk börn í ár – Inga vonar að páskaeggjaframleiðendur geri betur næst
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýtt athvarf fyrir sprautufíkla verður opnað í vor – Heiða og Baldur bæði ósátt við að vera vænd um ósannsögli

Nýtt athvarf fyrir sprautufíkla verður opnað í vor – Heiða og Baldur bæði ósátt við að vera vænd um ósannsögli