fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Steini í Lottu: Pabbi hélt að hann héldi á Eiði Smára á fæðingardeildinni en þess í stað fékk hann feitan samkynhneigðan leikara

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 7. júlí 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tólfta sumarið í röð skemmtir leikhópurinn Lotta börnum og ekki síður foreldrum, ömmum og öfum um land allt. Eins og fyrri ár tekur leikhópurinn fyrir þekkt ævintýri og útsetur þau á sinn einstaka hátt. Þetta sumarið setur hópurinn upp leikrit um lygalaupinn Gosa eftir Önnu Berglindi Thorarensen og eru um 70 sýningar á dagskrá um land allt. Að auki eru tæplega 100 aðrir smærri viðburðir sem leikarar hópsins eru bókaðar á í sumar.

Einn af þeim sem hefur verið hluti af hópnum frá upphafi er Sigsteinn Sigurbergsson. Allir sem hafa séð sýningar Lottu geta vottað að þar á ferð er einstakur hæfileikamaður í leiklist. Sigsteinn, sem ætíð er kallaður Steini, settist niður yfir kaffibolla með Birni Þorfinnssyni, blaðamanni á DV, til þess að ræða um Lottu og persónuleg mál eins og slæma reynslu hans af skólakerfinu, skápinn sem hann dvaldi allt of lengi inn í og glímu föður síns við Alzheimer-sjúkdóminn skelfilega.

Hugmyndin að Lottu kviknaði í bílferð

Leikhópurinn Lotta var stofnaður haustið 2006 og fyrsta sýningin var frumsýnd sumarið 2007. „Hugmyndin að þessu sumarleikhúsi úti við kviknaði í bílferð þeirra Önnu Bergljótar, Dýrleifar Jónsdóttur og Ármanns Guðmundssonar. Þau hóuðu saman góðum hópi fólks sem ákvað að kýla á þetta. Viðtökurnar voru framar okkar björtustu vonum og við sáum því strax að þessi hugmynd virkaði,“ segir Steini.

Fljótlega kvarnaðist aðeins úr hópnum en  í dag er sterkur og samheldinn kjarni sem stendur að Lottu. „Þetta er einskonar sjómannslíf og það hentar ekki öllum. Álagið er mikið yfir sumarið og við lærðum fljótlega að það væri mikilvægt að vera með varamenn til taks. Á sýningunni um Gosa erum við með sex leikara á sviði en síðan er höfundur og leikstjóri sýningarinnar, Anna Bergljót Thoraransen, til taks ef eitthvað kemur uppá. Hún er búin að læra öll hlutverkin og stekkur inn þegar þörf er á og leysir okkur af þegar einhver þarf að fara í frí. Til dæmis fer ég fljótlega í tveggja vikna sumarfrí og þá leysir hún mig af,“ segir Steini.

Fresta nánast aldrei sýningum vegna veðurs

Það er ekki hægt að segja að veðrið hafi leikið við íbúa höfuðborgarsvæðisins undanfarna mánuði. Aðspurður hvort það hafi ekki sett strik í reikninginn varðandi sýningar sumarsins segir Steini: „Íslendingar eru alveg ótrúlegir og gestir klæða sig bara eftir veðri og mæta hressir og kátir. Rigningin hefur ekki mikil áhrif á okkur en það er helst rokið sem leikur okkur grátt,“ segir Steini.

Hann segir að þrátt fyrir að allra veðra sé von yfir íslenska sumartímann þá eru sýningarnar, sem leikhópurinn hefur aflýst, teljandi á fingrum annarrar handar á tólf árum. „Við látum okkur yfirleitt hafa það og það hefur gengið upp. Þegar við förum út á land þá erum við yfirleitt með þann möguleika að komast einhvers staðar inn ef veðrið er slæmt,“ segir Steini.

Fjölmiðlafár útaf umdeildum söngtexta

Síðasta sumar gaus upp gagnrýni á leikhópinn vegna söngtexta í sýningunni Litli andarunginn. Það voru ekki síst femínistar sem voru ósáttir en texti umrædds lags var sagður óviðeigandi og klúr, að hann hlutgerði konur og viðhéldi bjagaðri hugsun. „Já, það varð smá fjölmiðlafár út af þessum texta. Sérstaklega hjá femínustum en ég vil taka það fram að ég skilgreini mig sem slíkan. Þeir sem höfðu hæst í því máli áttu það eiginlega allir sameiginlegt að hafa ekki séð sýninguna og höfðu því ekki hlustað á lagið í sínu rétta samhengi. Karakterinn sem söng lagið var fordómafull karlremba sem síðar fær makleg málagjöld og því urðum við ekki vör við annað en að gestir sýningarinnar væru mjög ánægðir,“ segir Steini.

Steini í hlutverki sínu sem faðir Gosa.

Að hans sögn leggur leikhópurinn mikla áherslu á að leikverkin sem þau setja upp hafi boðskap og að þau séu óhrædd við að fjalla um eðlilega hluti sem einhverjir telja klúra eða jafnvel ógeðslega. „Við viljum hafa áhrif og miðla einhverjum boðskap. Sýningin um Gosa fjallar um ýmsar áleitnar spurningar varðandi fjölskylduna, í fyrra fjallaði sýningin um einelti og árið þar áður fjölluðum við um innflytjendur og flóttamenn. Við dönsum stundum á línunni og stundum förum við aðeins yfir hana. Við erum óhrædd við að fjalla til dæmis um eðlilega hluti eins og fæðingar. Í einu verkinu okkar fæðist einn karakterinn á sviðinu og því bjuggum við til risastóra píku sem einn leikarinn skreið út um. Við heyrðum af einhverjum sem fannst það ógeðslegt og jafnvel klúrt en við erum hjartanlega ósammála. Við verðum að ræða þessa hluti á opinskáan hátt, sérstaklega við börnin okkar,“ segir Steini.

Lauma inn bröndurum fyrir fullorðna

Áðurnefnt atriði er ekki eina fæðingin sem átt hefur sér stað á sviði hjá leikhópnum. Í nýja verkinu um Gosa fæðir einn karakterinn, sem Huld Óskarsdóttir leikur, barn á sviðinu. „Hún tekur það undan pilsinu sínu og naflastrengurinn kemur með. Huld sækir í eigin reynslu í þessu atriði en hún fæddi barn fyrir nokkrum árum á leiðinni upp á fæðingardeild. Hún var stödd í leigubíl og skyndilega mætti bara barnið í heiminn með hvelli. Hún átti því mjög auðvelt með að fara í þetta hlutverk,“ segir Steini og hlær.

Eitt af aðalsmerkjum leikhópsins er að þrátt fyrir að um barnaleikrit sé að ræða þá fljúga fjölmargir brandarar sem beint er að fullorðnum áhorfendum. „Það má segja að við höfum sótt þá fyrirmynd í teiknimyndina Shrek sem gerði það svo listavel að skemmta öllum aldurshópum. Við laumum því inn fullt af bröndurum sem börnin skilja ekkert í en foreldrarnir springa úr hlátri. Það er mjög gefandi og skemmtilegt. Það væru færri gestir á sýningunum okkar ef foreldrunum dauðleiddist,“ segir Steini.

Faðirinn bjóst við landsliðsmanni í íþróttum

Steini er uppalinn Garðabæingur og er fæddur inn í mikla íþróttafjölskyldu. Hann á þrjár systur sem allar hafa verið og eru afrekskonur í íþróttum en faðir hans, Sigurbergur Sigsteinsson, var einn af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar um árabilið. Hann er einn af örfáum einstaklingum sem hefur verið í landsliðinu í bæði handknattleik og knattspyrnu. Meðal annars lék hann lykilhlutverk þegar Íslendingar unnu Dani í fyrsta sinn í landsleik í handbolta og síðar var hann á sínum stað í vörn Fram í Evrópuleik gegn stórliðinu Real Madrid á leikvanginum goðsagnarkennda, Santiago Bernabeu.

„Ég held að allir hafi búist við því að ég yrði öflugur íþróttamaður. Þegar pabbi tók mig í fangið á fæðingardeildinni þá hélt hann eflaust að hann héldi á einhverjum Eiði Smára. Hann grunaði líklega ekki að hann héldi á feitum og samkynhneigðum leikara,“ segir Steini og hlær dátt. Hann prófaði fjölmargar íþróttagreinar en hélst ekki lengi í þeim. „Ég var líklega lengst í blaki af þessum greinum en ég sé eiginlega mest eftir því að hafa ekki prófað handbolta. Ég er viss um að ég hefði verið ágætur á þeim vettvangi en enginn vinur minn æfði handbolta og því fór ég í aðrar áttir,“ segir Steini.

Langur listi af greiningum

Hann segist ekki eiga ljúfar minningar frá skólagöngu sinni. Hann hafi strax rekist á vegg varðandi námið auk þess sem hann varð fyrir mikilli stríðni og einelti sem barn. „Á þeim árum voru ekki allar þessar greiningar komnar. Í dag er ég greindur með athyglisbrest, kvíða, ofvirkni, les- og skrifblindu svo eitthvað sé nefnt. Ég átti því mjög erfitt með að fylgjast með í tímum og lenti í sífelldum árekstrum við ósveigjanlegt skólakerfið. Til dæmis reyndi ég stundum að beisla hugann með því að teikna á blað á meðan ég reyndi að hlusta á kennarann en þá var það yfirleitt rifið af mér á þeim forsendum að ég væri augljóslega ekki að fylgjast með,“ segir Steini.

Hann hafi því fljótlega sannfærst um að hann væri heimskur og gæti einfaldlega ekki lært. „Það er ekkert sérstaklega góð upplifun fyrir ungan dreng að vera sannfærður um að hann væri fáviti. Það braust síðan út þannig að ég var algjör villingur á þessum árum. Ég lét eiginlega öllum illum látum og skammast mín fyrir margt. Mér leið ekki vel á þessum árum,“ segir Steini.

Steini að gera sig kláran á svið

Kallaður Steini píka

Ekki bætti úr skák að hann varð fyrir mikilli stríðni skólafélaga sinna. „Ég þótti kvenlegur og var með ýmsa takta sem gert var grín að. Ég var alltaf uppnefndur Steini píka og það særði mig mjög þó ég hafi reynt að bera mig vel. Orðið hommi var eitt helsta uppnefnið og ég var ekki einu sinni sjálfur farinn að horfast í augu við eigin kynhneigð á þessum tíma.“

Þéttur hópur vina stóð þó bakvið Steina og gerði lífið bærilegt í skólanum. „Ég átti og á ofboðslega góða og trausta vini. Þeir stóðu með mér á þessum árum sem var ómetanlegt. Ég hef síðan hitt gerendurna í gegnum árin og sumir kalla mig enn Steina píku, þá helst ef ég rekst á viðkomandi útá lífinu. Ég vil ekki festast í reiði og neikvæðum tilfinningum og því hef ég fyrirgefið öllu þessu fólki. Það eru kannski tveir sem ég myndi alveg heilsa á förnum vegi en ég mun samt ekkert mæta í jarðafarirnar þeirra,“ segir Steini brosandi.

Sér eftir að hafa ekki komið fyrr út úr skápnum

Eins og áður segir er Steini samkynhneigður og það reyndist honum erfitt að koma út úr skápnum. „Eftir alla þessa stríðni þurfti ég eiginlega að yfirgefa Garðabæ til þess sem ég og gerði. Ég var líka lengi að horfast í augu við þetta sjálfur og átti kærustur þegar ég var yngri. Það tók mjög langan tíma fyrir mig að telja í mig kjark að ræða þetta við foreldra mína. Ég tók loks það samtal þegar ég var 24 ára gamall og skalf af stressi. Síðan var þetta ekkert mál. Þau tóku því afar vel og sýndu mér fullan stuðning. Ég dauðsá strax eftir því að hafa ekki gert þetta miklu fyrr,“ segir Steini.

„Þetta er eitthvað sem ég átti að gera“

Að sögn Steina hefur leiklistin blundað í honum frá barnsaldri. „Ég fékk áhuga á leiklist strax á barnsaldri og fann strax að þetta átti vel við mig. Það var draumur minn að verða leikari,“ segir Steini. Þegar grunnskólagöngunni lauk fór hann í Fjölbrautarskólann í Garðabæ í skamman tíma en flosnaði fljótlega upp úr námi.

Steini sótti síðar um í leiklistardeild Listaháskóla Íslands og tók þátt í hinum alræmdu en fjölmennu inntökuprófum. „Mér gekk mjög vel og komst í lokaúrtakið. Þegar það próf var afstaðið fékk ég þau skilaboð að prófdómurunum hefði litist mjög vel á mig en þeir sem væru með stúdentpróf fengju forgang og því fengi ég ekki skólapláss,“ segir Steini.

Um mikið áfall var að ræða og segist Steini hafa farið í allsherjar fýlu. „Ég varð alveg brjálaður. Sár, reiður og bitur. Ég fór í svo mikla fýlu að ég ákvað að sækja aldrei aftur um að skólavist í leiklist. Ég ákvað að gera þetta bara sjálfur,“ segir Steini.

Hann sótti sér þvi reynslu hjá hinum ýmsu áhugamannaleikhúsum á höfuðborgarsvæðinu, allt þar til að hugmyndin um Lottu kviknaði. Síðan þá hefur það verkefni átt hug og hjarta Steina. „Ég hef líka leikið í sjónvarpi, sérstaklega í Stundinni okkar, í auglýsingum og síðan hef ég verið að veislustýra og skemmta við hin ýmsu tilefni. Mér finnst mjög gaman að leika fyrir börn og þetta form sem Lotta notar hentar mér afar vel. Ég finn að ég er á réttri hillu, þetta er eitthvað sem ég átti að gera,“ segir Steini.

Kvíðir því að velja á milli starfa

Sigsteinn Sigurbergsson.

Samhliða sumarvertíðinni hjá Lottu starfar Steini sem félagsliði í Dimmuhvarfi og hefur gert undanfarin þrettán ár. „Þetta byrjaði sem heimili fyrir einhverfa stráka með hegðunarvanda en hefur þróast talsvert á undanförum árum. Þetta er frábært og gefandi starf og ég gæti ekki hugsað mér betri vinnustað. Yfirmenn mínir hafa sýnt leiklistinni mikinn stuðning og ég er afar þakklátur fyrir það,“ segir Steini. Að hans sögn verður starfsemi Lottu sífellt umfangsmeiri og sérstaklega í ljósi þess að hópurinn hefur verið að sýna eldri verk innandyra á veturna. „Ég óttast þá stund mjög að ég þurfi að velja á milli Dimmuhvarfs og leiklistarinnar. Mér þykir ofboðslega vænt um þessa stráka sem ég hef unnið með undanfarin ár og ég get varla hugsað þá hugsun til enda að þurfa að gera upp á milli þessara starfa. Ég óttast samt að sá tími muni koma,“ segir Steini.

Greiningin var afar mikilvæg

Eins og áður segir er Steini félagsliði að mennt en sú vegferð hófst með mikilvægu prófi. „Eftir alla þessa árekstra við skólakerfið fór ég loksins í greiningu. Eftir langa bið sló ég í gegn í því prófi og fékk langan lista af greiningum,“ segir Steini og hlær. Hann segir að þetta hafi verið mjög stór stund. „Það var ótrúlegur léttir að fá þá viðurkenningu að maður væri ekki heimskur. Að þessir erfiðleikar mínir ættu sér skýringar,“ segir hann.

Hann hófst þegar handa við að feta menntaveginn og útskrifaðist loks sem félagsliði. „Ég þurfti ekki einu sinni lyf til þess að læra. Bara það að vita af þessum áskorunum sem hugur minn setur og vinna í kringum þær var nóg. Ég sat kannski í skólastofunni og leyfði mér að spila einhvern heiladauðann tölvuleik í símanum á meðan ég hlustaði á kennarann. Það er nauðsynlegt til þess að ég geti haldið einbeitingu,“ segir Steini.

Hann flaug í gegnum námið og fékk í fyrsta skipti háar einkunnir. „Ég fékk bara níur og tíur. Það var rosalega góð tilfinning og hafði góð áhrif á sjálfsmyndina.“

Erfitt að horfa upp á glímu föðursins við Alzheimer

Það er því mikið að gera í leik og starfi hjá Steina. Hann segist hafa afar gaman að því sem hann fæst við en þann stór skugga ber þó á að faðir hans er að glíma við Alzheimer-sjúkdóminn illvíga. „Það hefur tekið afar mikinn toll af fjöskyldunni, sérstaklega mömmu. Fjölskyldan mín er mjög náin. Ég elska foreldra mína og systur útaf lífinu og því er hrikalega erfitt að fylgjast með þessum eyðileggingarmætti sem Alzheimer-sjúkdómurinn hefur í för með sér. Foreldrar mínir eru hetjurnar mínar og það er afar sárt að fylgjast með þessum hræðilega sjúkdómi taka pabba yfir og geta ekkert að gert,“ segir Steini.

Hann segir að það sé afar mikilvægt fyrir einstaklinga að leita sér hjálpar ef  einhver einkenni láti á sér kræla. „Það er rosalega mikilvægt fyrir alla aðila að sjúklingurinn fái strax greiningu og sé meðvitaður um þá vegferð sem er að hefjast. Ef sjúkdómurinn fær að krauma óáreittur of lengi þá byrjar afneitun sjúklingsins og það brýst oft út í reiði og biturð,“ segir Steini.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“