fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FréttirLeiðari

Blindfullir íslenskir tónleikagestir

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 27. júlí 2018 19:00

Axl Rose, forsprakki Guns N Roses fór á kostum í Laugardal í vikunni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stærsta mál síðustu viku var stórtónleikar Guns N´ Roses sem fram fóru á þjóðarleikvangi okkar Íslendinga, Laugardalsvelli. Tónleikarnir voru af áður óþekktri stærðargráðu og það skal hér með viðurkennast að undirritaður beið með öndina í hálsinum yfir fréttum af einhvers konar skipulagsklúðri. Það hefði nánast verið skiljanlegt enda er skipulagning á slíkum viðburði ótrúlega flókið verkefni.

Engar slíkar fréttir bárust hins vegar. Þess í stað virðast tónleikagestir á einu máli um að tónleikarnir hafi verið stórkostlegir. Á rúmgóðu tónleikasvæðinu herma heimildir undirritaðs að miðaldra rokkarar hafa staðið tárvotir af aðdáun yfir misfullkomnum tónum úr barka æskuhetju sinnar, Axl Rose.

Eins og glöggir lesendur átta sig eflaust á þá sat undirritaður heima þetta kvöld. Ástæðan var fyrst og fremst sú að spænsk vinahjón hafa undanfarnar vikur (já, vikur) dvalið í sumarleyfi á heimili fjölskyldunnar ásamt börnum sínum. Þannig vill til að eftirlætishljómsveit Spánverjanna er einmitt Guns N´Roses og því bauðst ykkar einlægur til þess að passa barnunga syni hjónanna og leyfa þeim að eiga frábæra kvöldstund í Laugardal. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég er ljúga þessu. Heitkona mín bauðst til þess að passa og ég sat í súpunni með fýlusvip. Ég er bara ekki merkilegri maður en það.

Reynsla spænsku hjónanna af stærstu tónleikum Íslandssögunnar hefur þó sannfært mig um að við Íslendingar eigum ýmislegt eftir ólært þegar kemur að því að fara á slíka viðburði.

Í fyrsta lagi þurftum við hjónaleysin að stöðva þær fyrirætlanir spænsku hjónanna að mæta í biðröðina klukkan 9 um morguninn á tónleikadag. Röksemdir þeirra voru þær að annars gætu þau aldrei komist nálægt sviðinu en þekkjandi okkar fólk þá sögðum við þeim að hafa ekki áhyggjur af því. Þau mættu því upp úr klukkan 15 í röðina en tónleikasvæðið var opnað þremur tímum síðar. Þau voru með þeim fyrstu inn en Íslendingarnir mættu flestir eftir opnun og biðu í langri röð eftir að komast inn.

Í öðru lagi trúðu þau ekki eigin augum þegar þau gátu farið nánast alveg upp að sviðinu og tekið sér stöðu þar. Þau hafa mikla reynslu af stórum tónleikum og yfirleitt er stæði í gryfju fyrir framan tónleikasviðið selt á okurverði. „Við Íslendingar fyrirlítum stéttaskiptingu,“ voru mín svör og var ég nokkuð hreykinn af þeim þeirri útskýringu. Spánverjunum þótti mikið til koma.

Í þriðja lagi fannst þeim með hreinum ólíkindum hversu drukknir tónleikagestir voru. „Af hverju voru ekki allir að njóta tónlistarinnar í stað þess að raða í sig drykkjum og bíða endalaust á barnum.“ Við þeirri spurningu átti ég fá svör og var kannski ekki í góðri aðstöðu enda drakk ég fimm bjóra á Justin Bieber-tónleikum um árið.

Líklega gildir sama lögmál um risatónleika á Íslandi og sumarleyfisferðir á árum áður. Þá helltu ferðalangar sig fulla í flugvélinni á leiðinni út og margir urðu ekki beint besta útgáfan af sjálfum sér. Eftir því sem utanlandsferðir urðu hversdagslegri þá dró smám saman úr slíkri hegðun. Það er því mikil nauðsyn að risatónleikar verði reglulega skipulagðir hérlendis svo íslenskir tónlistargestir verði smátt og smátt fágaðri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni