fbpx
Laugardagur 26.september 2020
Fréttir

„Merki um takamarkalausan drullusokkshátt“

Jáeindaskanninn hefur tafist um 18 mánuði – Hundruð milljóna kostnaður

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 3. mars 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í september árið 2015 ákvað stjórn Íslenskrar erfðagreiningar að færa íslensku þjóðinni jáeindaskanna að gjöf og átti að byggja utan um hann og fleira sem honum fylgdi á lóð Landspítalans við Hringbraut. Skanninn er PET/CT-myndgreiningartæki sem finnur æxli í mannslíkamanum og greinir þau. Samkvæmt áætlun átti skanninn að vera kominn í gagnið sléttu ári síðar. Nú eru liðin tvö og hálft ár og sjúklingar þurfa enn að leita til Danmerkur eða Svíþjóðar til að komast í slíkan skanna og kostnaðurinn rýkur upp.

Finnur og greinir krabbameinsæxli.
Jáeindaskanni Finnur og greinir krabbameinsæxli.

Tafir á tafir ofan

Jáeindaskanni er mjög flókið tæki sem smíða þarf sérstök hús utan um og tengja þau við spítalann. Byggja þarf biðstofu inni í spítalanum sjálfum, undirbúningsrými, hringhraðal þar sem nauðsynleg geislavirk efni eru búin til, rými undir skannann sjálfan auk fleiri rýma fyrir starfsemina, alls 250 fermetra.

Hönnun bygginganna var gerð í nóvember árið 2015 og forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, tók fyrstu skóflustunguna 12. janúar árið 2016. Áætlað var að skanninn yrði tekinn í notkun um miðjan september árið 2016 og framkvæmdin gekk vel framan af.

En síðan var opnun aðstöðunnar frestað fram á haustið 2017, síðan janúar 2018, svo febrúar og nú er búið að fresta henni fram í miðjan mars og óvíst hvort það standist.

Takmarkalaus drullusokksháttur

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er ósáttur við þær tafir sem orðið hafa á verkefninu. Í samtali við DV segir hann: „Mér finnst það bölvað. Mér finnst þetta bera merki um takmarkalausan drullusokkshátt af spítalanum. „So what else is fucking new?““

Hverju er um að kenna?

„Nú verð ég að vera sanngjarn. Það er ýmislegt sem getur gerst. Það þurfti að reisa hús utan um skannann og staðla aðferðir við að búa til ísótópana. Einhverjir verktakar fóru yfir tímann og það er alveg ofboðslega pirrandi, en svona gerist. Ég get lofað þér því að það er hægt að koma svona löguðu hraðar í gegn. Eins og er get ég lítið sagt um þetta mál annað en að það pirrar mig.“

Fylgist þú náið með framkvæmdinni?

„Nei. Við erum búin að gefa þennan skanna og nú er þetta ekki í okkar höndum og hefur ekki verið frá því að hafist var handa við bygginguna. Af og til spyr ég um þetta, því mér finnst þetta vera orðinn mjög langur tími. Eiginlega alveg ótrúlega langur og mér finnst þetta með algjörum ólíkindum. Ég hélt að þetta yrði komið í notkun fyrir ári eða um það bil.“

Segja framkvæmdatímann mjög viðunandi

Húsin eru komin upp og sjúklingar hafa farið í hefðbundinn myndgreiningarhluta jáeindaskannans. Slík tæki eru þó til víða í heilbrigðiskerfinu og enn bólar ekki á að aðalhluti skannans komist í notkun. Stefán Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar spítalans, segir það viðbúið að dagsetningar varðandi svo flókna framkvæmd standist ekki. Helstu tafirnar hafa verið vegna vottana húsnæðisins og leyfum frá Lyfjastofnun. Í byrjun febrúar sagði hann við við DV að tveggja ára framkvæmdatími væri mjög viðunandi.

Pétur Hannesson, yfirlæknir á röntgendeild, sagði um miðjan febrúar verkefnið hafa tekið skemmri tíma en sambærileg verkefni erlendis. „Það er reynslan að utan að mjög erfitt er að gera nákvæmar áætlanir vegna þess hve flókið það er að hefja starfsemi sem þessa, sem er tæknilega flókin og með marga óvissuþætti. Hér er um að ræða framleiðslu geislavirkra innrennslislyfja sem lúta ströngustu kröfum lyfjaframleiðslu. Metnaður fyrir að koma starfseminni af stað hefur einnig valdið því að áætlaður tímarammi hefur verið þröngur.“

Jafnframt segir hann að Lyfjastofnun hafi ekki enn tekið út starfsemina og að tafirnar hafi verið vegna vottaðs húsnæðis og bilana sem komu upp í einstökum hluta tækjabúnaðarins.

Mikil fjölgun PET-rannsókna á undanförnum árum.
Tölur frá Sjúkratryggingum Íslands Mikil fjölgun PET-rannsókna á undanförnum árum.

Dýrt að senda sjúklinga utan

Tafir á uppsetningu jáeindaskannans hafa í för með sér mikið óhagræði fyrir sjúklinga og kostnað fyrir Sjúkratryggingar Íslands. Metfjöldi sjúklinga hefur verið sendur í PET-rannsóknir á Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn og Háskólasjúkrahúsið í Lundi undanfarin tvö ár. Árið 2012 voru 29 sjúklingar sendir í rannsóknir. Heildarkostnaður Sjúkratrygginga var þá fjórtán og hálf milljón króna.

Árið 2016 voru 214 sjúklingar sendir í PET-rannsóknir og heildarkostnaðurinn 104 milljónir. Á síðasta ári voru 216 sjúklingar sendir út en kostnaðurinn var aðeins lægri vegna hagstæðara gengis, 92,5 milljónir. Þetta gerir um 400 þúsund krónur á hvern sjúkling sem sendur er út og tæplega helmingur upphæðarinnar er ferðakostnaður. Ekki liggja fyrir kostnaðartölur fyrir janúar og febrúar árið 2018.

Kostnaður spítalans vegna tafa 113 milljónir

Líkt og vegna annarra verkefna sem tefjast hefur kostnaður við byggingu og uppsetningu jáeindaskannans aukist verulega. Sá kostnaður leggst hins vegar alfarið á Landspítalann enda var gjöf Íslenskrar erfðagreiningar bundin við ákveðna tölu í upphafi. Gjöfin var 6,5 milljónir Bandaríkjadala, um 850 milljóna króna á þávirði fyrir skannann sjálfan og hluta af húsunum og aðlögun eldri byggingar spítalans.

Í febrúar árið 2016 var áætlað að bygging húsanna myndi kosta 268 milljónir króna og skanninn um 657 milljónir. Íslensk erfðagreining greiddi skannann að fullu og áætlað var að gjöfin dekkaði 72 prósent af húsbyggingunni, um 193 milljónir, en spítalinn stæði straum af 28 prósentum, um 75 milljónum.

Samkvæmt bókhaldi Landspítalans er heildarkostnaður við verkið nú kominn upp í 1.038 milljónir og hlutur spítalans 188 milljónir. Hækkanir vegna tafa í eitt og hálft ár hafa því kostað spítalann um 113 milljónir. Um er að ræða bráðabirgðaútreikninga og enn gætu borist reikningar, til dæmis vegna frekari tafa á verkinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Helgi undrast áhugaleysi lögreglu eftir innbrot og stórþjófnað – Grunar þjófaflokk um að láta barn skríða inn um gluggaboru

Helgi undrast áhugaleysi lögreglu eftir innbrot og stórþjófnað – Grunar þjófaflokk um að láta barn skríða inn um gluggaboru
Fréttir
Í gær

Nístandi fátækt hjá fólki í ferðaþjónustu – Hjón með 100 þúsund á mánuði

Nístandi fátækt hjá fólki í ferðaþjónustu – Hjón með 100 þúsund á mánuði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvít jörð á Flateyri og gul viðvörun fyrir norðan

Hvít jörð á Flateyri og gul viðvörun fyrir norðan
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tæknilegur klaufaskapur Þorbjarnar opinberar aðkomu hans að gagnasöfnun fyrir kæru Samherja

Tæknilegur klaufaskapur Þorbjarnar opinberar aðkomu hans að gagnasöfnun fyrir kæru Samherja