fbpx
Þriðjudagur 19.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Stephen Hawking varaði mannkynið við áður en hann kvaddi

Geimverur, gervigreind, loftslagsbreytingar og náttúruhamfarir

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 14. mars 2018 11:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breski vísindamaðurinn Stephen Hawking lést í nótt, 76 ára að aldri. Stephen var einn virtasti og þekktasti vísindamaður heims og var hann duglegur að deila þekkingu sinni með almenningi. Á undanförnum árum hefur Hawking sent almenningi skýr skilaboð um framtíðina hér á jörðinni og bent á að aðgerða sé þörf.

Sjá einnig: Stephen Hawking er látinn – Einn mesti vísindamaður síðari tíma

Ýmislegt gæti farið úrskeiðis

Á síðasta ári sagði Hawking að jarðarbúar þyrftu að yfirgefa jörðina á næstu tvö hundruð árum til að tryggja framtíð mannkyns. Sagði Hawking að ýmislegt gæti farið úrskeiðis á næstu áratugum eða árhundruðum; loftsteinn gæti skollið á jörðina, náttúruhamfarir gætu haft skelfilegar afleiðingar, geimverur gætu gert árás eða vélmenni tekið yfir jörðina.

Sagði Hawking að ef mannkynið ætli sér að lifa áfram sé nauðsynlegt að nema land á öðrum plánetum, fjarri heimahögunum á jörðu niðri.

„Eftir því sem ég eldist verð ég alltaf meira og meira sannfærður um að við séum ekki ein“

Svipað og á Venus

Eitt helsta áhyggjuefni Hawkings sneri að hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum. Hægt og bítandi værum við að ganga á auðlindir jarðar og skemma plánetuna. Framtíðin á jörðinni væri ekki björt, næstu árhundruð, ef fram heldur sem horfir. Svo gæti farið að hitastigið á jörðinni verði svipað og á plánetunni Venus í fjarlægri framtíð.

„Ef þú hittir einhvern sem neitar því að hlýnun jarðar sé staðreynd segðu honum þá að fara til Venusar. Ég skal borga farið fyrir hann,“ sagði Hawking eitt sinn.

Ef loftslagsbreytingar gera ekki út af við jörðina mun eitthvað annað gera það, að sögn Hawkings. Svo gæti farið að loftsteinn rækist á jörðina með skelfilegum afleiðingum. „Þetta er enginn vísindaskáldskapur heldur staðreynd,“ sagði hann.

Gervigreind tekur fram úr manninum

Varðandi gervigreind og vélmenni sagði Hawking að við værum í raun að þróa nýja tegund lífveru. Þessar lífverur, eins og Hawking kallaði vélmennin, munu brátt taka fram úr manninum hvað þekkingu og getu til að framkvæma hluti varðar. Hawking nefndi svo sem enga tímasetningu í þessum efnum en benda má á að Hawking er ekki fyrsti vísindamaðurinn sem varar við þessu. Elon Musk, stofnandi Tesla og Space X, hefur áður talað með svipuðum hætti um gervigreind.

„Andinn er kominn úr glasinu og ég óttast að gervigreind muni koma í staðinn fyrir manninn einn daginn. Ef það er til fólk sem hannar tölvuvírusa er til fólk sem mun reyna að þróa vélmenni sem bæta sig stöðugt og fjölga sér,“ sagði hann og hvatti til þess að eitthvert yfirvald tæki að sér eftirlit með þessari þróun svo hún færi ekki úr böndunum.

Skilaboð úr geimnum

Hawking hefur einnig látið hafa eftir sér að hann hafi orðið sífellt meira sannfærður um tilvist geimvera eftir því sem árin hafa lifið. „Eftir því sem ég eldist verð ég alltaf meira og meira sannfærður um að við séum ekki ein,“ sagði hann eitt sinn. Hawking nefndi svo plánetuna Gliese 832c sem er í 16 ljósára fjarlægð frá jörðinni, en vísindamenn hafa velt vöngum yfir því hvort þar sé líf að finna. Athuganir hafa gefið til kynna að þar gætu verið kjöraðstæður fyrir líf.

„Einn daginn gætum við fengið skilaboð eða merki frá plánetum eins og Gliese, en við ættum að hugsa okkur tvisvar um áður en við svörum,“ sagði hann og bætti við að vel gæti verið að einhvers staðar þarna úti sé að finna háþróaða siðmenningu sem er komin lengra maðurinn. „Hugsanlega sjá þau okkur í sama ljósi og við sjáum bakteríur.“

Þetta eru ekki einu áhyggjurnar sem Hawking lýsti yfir á löngum og gæfuríkum ferli sínum sem vísindamaður. Hawking benti á ekki alls fyrir löngu að maðurinn væri sjálfum sér verstur í raun. Offjölgun, loftslagsbreytingar, súrnum sjávar og ágangur í náttúruauðlindir væru meðal þeirra vandamála sem maðurinn þyrfti að vinna bug á – og það í sameiningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kona með hjarta úr gulli kom Pétri til bjargar í Kópavogi: „Guð blessi þig yndislega kona“

Kona með hjarta úr gulli kom Pétri til bjargar í Kópavogi: „Guð blessi þig yndislega kona“
Fréttir
Í gær

Sigurþóra komin með húsnæði fyrir Bergið á dánardegi sonar síns – „Táknrænt að nota dagsetningu á versta degi lífs míns“

Sigurþóra komin með húsnæði fyrir Bergið á dánardegi sonar síns – „Táknrænt að nota dagsetningu á versta degi lífs míns“