fbpx
Fimmtudagur 09.júlí 2020
Fréttir

Pawel segir hugmyndir Sjálfstæðisflokksins í borginni óraunsæjar

Ræðir borgarmálin á Snapchat – Fór með DV upp í Árbæ

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 11. mars 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pawel Bartoszek ætlar sér að verða borgarfulltrúi fyrir Viðreisn. Pawel var þingmaður Viðreisnar en datt út af þingi í síðustu alþingiskosningum, síðan þá hefur hann eytt tímanum í að kynna sér Reykjavíkurborg og hefur síðustu vikur farið á milli staða í borginni og rætt málefni borgarinnar á Snapchat. DV fékk að fylgja Pawel upp í Árbæ þar sem hann var að snappa í Rofabæ og fyrir utan leikskólann Árborg. „Ég er ekki viss hvað ég er með marga fylgjendur á Snapchat, það eru rúmlega þúsund manns, stundum eru það tvö þúsund manns sem horfa á myndböndin,“ segir Pawel.

„Ég fékk bók um Reykjavík í jólagjöf, þar var grein eftir Reyni Vilhjálmsson sem hannaði þetta hverfi, Árbæ. Það er skemmtilegt að sjá pælingarnar að baki. Hérna fyrir neðan var byggð fyrir þegar hverfið byggðist upp á sjötta áratugnum, lágreist byggð. Hérna norðanmegin við Rofabæinn er háreistari byggð, lengra í burtu er verslun og svo iðnaður. Þeir sem hafa spilað Sim City-tölvuleikina kannast vel við þetta.“

Það er kalt úti þennan fimmtudag og Pawel gengur rösklega áfram. „Það er gaman fyrir okkur miðbæjarrotturnar að sjá hjartað og sálina sem lögð var í hverfi eins og þetta. Þegar verið var að byggja upp hérna þá var vinstri umferð, það sem margir vita ekki er að þá var Rofabærinn gamli Suðurlandsvegurinn, hérna keyrði fólk á leið til Selfoss. Eins og allir vita er búið að koma fyrir sjö hundruð þúsund hraðahindrunum hérna en fólk vill keyra þessa leið því þetta er vingjarnleg akstursleið.“

Það heyrist á Pawel að hann vill 1. eða 2. sætið á lista Viðreisnar, búast má við niðurstöðum uppstillingarnefndar flokksins á næstu vikum og enn óvíst hvort Pawel verði yfirleitt á listanum. „Uppstillingarnefndin er á fullu að setja saman sigurlista,“ segir Pawel og hlær. „Að öðru leyti verð ég að segja: „No comment.“

Pawel stoppar við lítinn verslunarkjarna og tekur Snapp. „Þetta svæði var byggt upp á bestu hugmyndum þess tíma, mér finnst alltaf kostur að reyna að blanda byggð. Koma fyrir verslun og vinnustöðum í meira mæli en gert er hér. Við ættum að vaxa inn á við í framtíðinni en að byggja austar. Það breytir því ekki að mér finnst þetta mjög heillandi svæði.“

Leiðin liggur í átt að leikskólanum Árborg alveg við Elliðaá. Pawel byrjaði að fjalla um þéttingarreiti í borginni á Snapchat en hefur að undanförnu verið að taka myndbönd fyrir utan leikskóla.

Mynd: Skjáskot af Facebook.

Það er búið að tala um það í Facebook-hópum að það sé dularfullur maður að taka myndir fyrir utan leikskóla, hvað segir þú við því?

Pawel hlær. „Þú kynnist ekkert borgarlandinu með því að fletta heimasíðu Reykjavíkurborgar og sumt af því sem maður er að skoða verður maður að fá tilfinningu fyrir með því að mæta á staðinn. Það er líka gott að kíkja inn í skólana til að kynnast starfinu, ég hef gert töluvert af því, sérstaklega á Stakkaborg þar sem sonur minn er á leikskóla. En ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki áhugamál meirihlutans,“ segir Pawel. Hann tekur fram að hann taki aldrei myndir af krökkunum, enda eigi þau ekki heima í stjórnmálabaráttu.

Eins og stendur er Pawel í atvinnuleit en hann grípur í laus verkefni þegar þau gefast. „Ég viðurkenni að það var ekki gaman að falla af þingi, það er forréttindastaða að setja leikreglurnar og ákveða hvert peningarnir fara, en það er aldrei að vita hvort maður snúi aftur á þing einn daginn. Nú einblíni ég á þetta og vona að einhver vilji fá mann.“

Pawel var í Sjálfstæðisflokknum áður en hann gekk til liðs við Viðreisn og hefur verið talinn sem mikill frjálshyggjumaður. Aðspurður hvort hann sé tilbúinn að vinna með hverjum sem er í borgarstjórn segir Pawel að svo sé en þegar litið sé til skipulagsmála þá eigi hann meiri samleið með núverandi meirihluta. „Ég er mikill talsmaður Borgarlínu, ég vil sjá Vatnsmýrina byggjast upp sem blómlega blandaða byggð og ég vil sjá flugvöllinn fara í Hvassahraun. Ég vil sjá fjölbreyttar samgöngur, uppbyggingu hjólastíga, að sjálfsögðu mun fólk ferðast áfram á einkabíl en áherslan á að vera á fjölbreyttar samgöngur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið skref frá þessu með prófkjörum, vali á lista og áherslum, þannig að við óbreyttar aðstæður er hann ekki  sjálfsagðasti kosturinn til að vinna með.“

Varðandi hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um þrjú ný hverfi segir Pawel þær óraunsæjar. „Til lengdar þá finnst mér allar hugmyndir um að breyta iðnaðarsvæðum í íbúðabyggð góðra gjalda verðar en ég held að því miður, miðað við áherslur Sjálfstæðisflokksins, þá séu allar þessar óraunhæfu hugmyndir ekki það sem verði að veruleika heldur að menn drífi sig í að byggja mjög mikið af úthverfum, mjög hratt því það er einfaldast. Þá þenst borgin út og það hugnast mér ekki.“

Pawel vill þó alls ekki útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, það sé hrokafullt að gera það á þessu stigi. „Við erum ekki í borgarstjórn og kjósendur þurfa að segja sína skoðun á þessum málum, svo er það stjórnmálamannanna að vinna úr því.“

Hvað skilur að Viðreisn og Samfylkinguna?

„Samfylkingin er orðin mjög vinstrisinnuð, sérstaklega í þessu samstarfi. Ég myndi segja að við værum talsvert opnari fyrir hlutum á borð við fjölbreytni í skólarekstri og öðru. Ég hef engan draum um að öll börn verði í einkaskóla en það þarf að nýta krafta einkaframtaksins í skólakerfinu. Hvort sem er í skólum, leikskólum eða í velferðarþjónustu. Svo tel ég að við gætum gert betur en þau, eins og til dæmis að reka Strætó.“

Má segja það að þú og Viðreisn vilji höfða til þeirra sem styðja skipulagshugmyndir vinstriflokkanna en vilja minnka yfirbyggingu og fjárútlát?

„Ég myndi ekki stilla þessu þannig upp. Hugmyndir mínar í skipulagsmálum hafa verið inni á þeirri línu sem er nú í borginni, hluti Sjálfstæðisflokksins var þar líka en hann er búinn að losa sig við þann hluta flokksins. Borgin þarf að byggjast upp með því að þétta byggð og bjóða upp á öflugar almenningssamgöngur. Á sama tíma þarf að halda vel utan um fjármál borgarinnar, sú hít er ekkert botnlaus, að mörgu leyti hefur núverandi meirihluti farið full bratt í að seilast í vasa skattgreiðenda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Segir karlmenn með lítið sjálfstraust uppnefna Kára

Segir karlmenn með lítið sjálfstraust uppnefna Kára
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Starbucks kallaði hana ISIS

Starbucks kallaði hana ISIS
Fréttir
Í gær

Kári segir Smára McCarthy vera með skringilegt höfuð á herðum sér

Kári segir Smára McCarthy vera með skringilegt höfuð á herðum sér
Fréttir
Í gær

Sjólaskipabræður fagna sigri í risaskattsvikamáli

Sjólaskipabræður fagna sigri í risaskattsvikamáli
Fréttir
Í gær

Veðurvaktin: Áfram hlýtt og stillt veður – Bongó framundan.

Veðurvaktin: Áfram hlýtt og stillt veður – Bongó framundan.
Fréttir
Í gær

Vinnuslys og óvenjulega margir árekstrar á Suðurnesjum

Vinnuslys og óvenjulega margir árekstrar á Suðurnesjum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fangelsinu á Akureyri lokað varanlega. 42 ára saga á enda.

Fangelsinu á Akureyri lokað varanlega. 42 ára saga á enda.
Fyrir 2 dögum

Kerfið keyrir á meðvirkni – framvarðasveitin enn samningslaus

Kerfið keyrir á meðvirkni – framvarðasveitin enn samningslaus