fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Hvalaskoðunarfyrirtæki vill aðeins konu sem stöðvarstjóra: „Förum ekki í dulbúning með hverju við erum að leita að“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 23. febrúar 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík var stofnað árið 2001 með einum skoðunarbát. Fyrirtækið hefur vaxið mikið síðan þá og nú starfa þar um 45 starfsmenn og bátarnir orðnir níu talsins. Gentle Giants auglýsa nú eftir stöðvarstjóra og athygli vekur að einungis er óskað eftir konu til starfans.

Auglýsingin

Um er að ræða sumarstarf, frá 1. maí til 30. september og segir í auglýsingunni að það sé fjölbreytt, skemmtilegt og lifandi. Stöðvarstjóri beri ábyrgð á daglegu skipulagi og starfsmannastjórnun í miðasölu, vaktaplönum, ferðaskipulagi, samskiptum við áhafnir og fleira. Síðan segir:

„Við leitum að öflugri konu á aldrinum +/- 35-50 ára sem hefur m.a. þessa eiginleika:
– Leiðtogi, ljúf og góð í mannlegum samskiptum.
– Sjálfstæð, skipulögð, snyrtileg og öguð í vinnu.
– Stundvís og lausnamiðuð.
– Talar og ritar góða íslensku og ensku.
– Hefur góða almenna tölvukunnáttu.“

„Við leitum að öflugri konu“
Auglýsingin „Við leitum að öflugri konu“

Heimild til sektargreiðslu

Ef gömul dagblöð eru skoðuð má sjá ógrynni af starfsauglýsingum þar sem óskað er eftir annað hvort konu eða karli. En síðan á tíunda áratug síðustu aldar hefur þetta verið ólöglegt nema að uppfylltum vissum skilyrðum.
Í þriðju málsgrein 26. greinar jafnréttislaga segir:

„Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta ákvæði gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu.“

Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur hjá Jafnréttisstofu bendir á að ef tilgangurinn með því að auglýsa sérstaklega eftir starfskrafti af öðru hvoru kyninu sé ekki að leiðrétta kynjahalla á vinnustaðnum, að uppfylltum vissum skilyrðum, hljóti slík auglýsing að teljast ólögmæt.

Eru einhver viðurlög við þessu?

„Það er í raun eitthvað sem hefur aldrei reynt á enn þá og engin dómafordæmi til. Það er almennt sektarákvæði til í jafnréttislögunum en engin ákveðin tala nefnd þar. Þetta þyrfti að útfæra betur.“

Eru lögin óljós?

„Lögin sem slík eru nokkuð ljós, með undantekningarákvæðum og slíkt. En góð stjórnsýsla myndi kalla á skýrari ramma varðandi viðurlögin.“

Jón segir að fyrirspurnir varðandi slíkar atvinnuauglýsingar hafi ratað til Jafnréttisstofu en í þeim tilvikum hafa auglýsingarnar talist samræma undantekningarákvæðunum.

Vilja konu í ljósi reynslunnar

Stefán Guðmundsson, stjórnarformaður Gentle Giants, segist hafa fengið ábendingar um að auglýsingin hefði mátt orðast á annan hátt. Jafn framt að hann muni taka þeim ábendingum og hafa þær í huga.

Af hverju auglýstuð þið aðeins eftir konu?

„Við höfum reynslu í þessum málum eftir sautján ára starf. Það er okkar mat í fyrirtækinu að kona sem er gædd þessum kostum sé betri fyrir okkur en karlmaður.“

En aldurinn, byggið þið það líka á reynslu?

„Já, vegna okkar reynslu leitum við að einhverjum á þessu aldursbili.“

Þið voruð ekki með neinn ákveðinn einstakling í huga þegar þið auglýstuð?

„Nei, alls engan. Við vonum bara að það sé einhver öflug kona þarna úti sem hefur áhuga á þess og er þessum kostum gædd.“

Stefán segir að Gentle Giants muni skoða allar umsóknir, líka þær sem koma frá karlmönnum. Einnig segir hann að fyrirtækið hafi fengið hrós fyrir að standa heiðarlega að þessum málum. „Að við komum hreint til dyranna og förum ekki í einhvern dulbúning með hvað við erum að leita að. En það eru skiptar skoðanir og ég lít á báðar hliðar málsins. Við tökum því fagnandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“