fbpx
Laugardagur 25.maí 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Þorbjörg og Heiðrún: Kynferðisleg áreitni gagnvart hinsegin konum samfélagslega samþykkt – ekki eðlilegt ástand

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 4. desember 2018 13:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Heiðrún Fivelstad, ritari og skrifstofustýra Samtakanna ’78, segja að konur í samkynja samböndum þurfi að heyra ótal óviðeigandi spurningar eða staðhæfingar frá karlmönnum, yfirleitt þegar menn eru í glasi. Þær segja að svo virðist sem slík sambönd njóti ekki sömu virðingar og önnur. Þetta kemur fram í skoðanapistli sem birtist í Fréttablaðinu.

Þær nefna dæmi um áreitni sem þær hafa þurft að heyra. „Stelpur! Þurfið þið ekki eitthvað meira, kannski einn harðan?“, „Skærist þið?“, „Hvenær fæ ég svo að vera með?“, „Má ég horfa?“, „Hvernig veistu að þú sért lesbía ef þú hefur aldrei sofið hjá karlmanni?“, „Bíddu ha, ertu tvíkynhneigð? Þannig að ég á séns!“ „Ein nótt með alvöru karlmanni og þið fattið hverju þið eruð að missa af!“

Gerist oft á skemmtistöðum

Þær segja að þetta gerist oft á skemmtistöðum. „Konur í samkynja samböndum kannast líklega flestar við spurningar sem svipa til þeirra hér að ofan. Þær eru bornar upp af ólíklegustu karlmönnum í ólíklegustu aðstæðum. Oftast gerist það þó á skemmtistöðum eða á mannamótum þar sem áfengi er haft um hönd. Stundum höfum við það á tilfinningunni að kurteisi, mannvirðingu og almennri skynsemi sé skolað niður með bjórnum,“ segja Þorbjörg og Heiðrún.

Þær segja að hinsegin konur þekki þessa reynslu vel. „Hinsegin konur vita að það að fara í sleik við konu á skemmtistað er ávísun á óvelkomna athygli og áreitni, hróp, óþægilegar spurningar og káf. Við erum hoknar af reynslu í því að hunsa, hlæja að og berja af okkur óvelkomna athygli og beiðnir um þríleiki. Eftir nógu mörg skipti þarf ekki einu sinni að koma að spurningunni. Við þekkjum augnaráðið. Þrátt fyrir það að við séum allar konur, birtist áreitni í garð hinsegin kvenna á mismunandi hátt eftir kyntjáningu. Okkar reynsla er sú að konur með karllægari kyntjáningu – klæða sig og bera á „karlmannlegan“ hátt – verða frekar fyrir árásargjarnari áreitni og líkamlegu ofbeldi eða hótunum um slíkt. Þær hinsegin konur sem hafa kvenlæga kyntjáningu eru hins vegar frekar hlutgerðar og áreittar kynferðislega,“ segja Þorbjörg og Heiðrún.

„Kyssist fyrir mig!“

Þær segja að í þessu birtist samblanda af fordómum gagnvart hinsegin fólki og kvenfyrirlitningu. „Fyrir hinsegin konur er það ákvörðun að leiðast, faðmast, dansa eða kyssast á almannafæri. Við segjum við óþægilega karla „Nei takk, ég er í sambandi“ og látum „með konu“ kannski ósagt, því við vitum hvað gerist þá. Sambönd tveggja kvenna njóta ekki sömu virðingar og gagnkynja sambönd. „Hún má vera með! Hvar er hún? Kyssist fyrir mig!“ Raunar er kynferðisleg áreitni gagnvart hinsegin konum svo samfélagslega samþykkt að við þurfum að minna fólk á að þetta er ekki eðlilegt ástand. Það var auðveldara að gera lítið úr og hlæja að áreitninni þegar við vorum yngri og óreyndari, en eftir að hafa lent í sams konar áreitni og ofbeldi árum saman höfum við áttað okkur á því hversu skaðleg viðhorfin eru sem liggja að baki. Þau viðhorf sem kristallast í áreitni í garð hinsegin kvenna er eitruð samblanda hinseginfóbíu, klámvæðingar og kvenfyrirlitningar,“ segir Þorbjörg og Heiðrún.

Ábyrgð allra

Þær segja að þær ættu ekki að þurfa að velja sér stað og stund til að kyssast. „Réttindabarátta hinsegin fólks snýst um margt, þar á meðal lagalega og samfélagslega viðurkenningu á fjölbreytileikanum. En baráttan snýst ekki síst um virðingu. Við hinsegin konur eigum rétt á því að upplifa okkur öruggar eins og við erum, með hverjum sem við erum, hvernig sem við lítum út, klæðum okkur eða klippum á okkur hárið. Við eigum ekki að þurfa að undirbúa okkur andlega áður en við höldum út úr húsi. Við eigum ekki að þurfa að velja okkur staði þar sem við vitum að við verðum fyrir minni áreitni. Við eigum ekki að þurfa að taka ákvörðun í hvert skipti sem við kyssum maka okkar. Staðan er samt sem áður sú árið 2018 að hinsegin konur geta ekki fengið að vera óáreittar í almannarýminu. Það er á allra ábyrgð að breyta því,“ segja þær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eitt stærsta fíkniefnasmygl sögunnar – Fjórir Íslendingar í haldi – Kókaínið metið á hundruði milljóna

Eitt stærsta fíkniefnasmygl sögunnar – Fjórir Íslendingar í haldi – Kókaínið metið á hundruði milljóna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mynd dagsins: „Jesús fokkíng Kristur”

Mynd dagsins: „Jesús fokkíng Kristur”