fbpx
Þriðjudagur 19.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Svandís deildi þessari mynd af manni sínum þegar hann fékk geðrofskast – „Við þörfnumst hjálpar“

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 6. nóvember 2018 12:23

Myndin sem kom öllu af stað. Mynd:Svandís Funder Svendsen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðfaranótt laugardags voru Svandís Funder Svendsen, sem er íslensk, og maður hennar, Piet Funder Svendsen, stödd í móttöku Bella Sky hótelsins í Kaupmannahöfn. Þau voru þangað komin til að eiga góða helgi saman. En helgin varð öðruvísi en lagt var upp með því Piet, sem þjáist af áfallastreituröskun, fékk geðrofskast. Það endaði með að lögreglumenn settu hann í handjárn og hann varð að eyða næstu klukkustundum í fangaklefa.

Svandís skýrði frá málinu á Facebooksíðu sinni og hafa skrif hennar vakið mikla athygli og hafa meðal annars náð augum og athygli danskra þingmanna. Þegar þetta er skrifað hafa um 27.000 manns líkað við færslu hennar og henni hefur verið mikið deilt og danskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið.

Piet er 35 ára og hefur þjáðst af áfallastreituröskun síðan hann var sendur til Afganistan með danska hernum 2008. Áfallastreituröskun leggst yfirleitt á fólk sem hefur lent í lífshættulegum atburðum eða upplifað aðrar áfallavaldandi aðstæður. Piet hefur oft fengið geðrofsköst vegna sjúkdómsins en það sem gerir kastið á laugardaginn frábrugðið fyrri köstum er að nú var hann á almannafæri. Það var kveikjan að skrifum Svandísar sem vildi varpa ljósi á hvernig það er að búa með manni sem glímir við áfallastreituröskun.

Svandís sagði í samtali við DV að hún hafi ekki getað róað Piet niður, hann hafi grátið og öskrað móðursýkislega. Þetta endaði því með að beðið var um aðstoð lögreglu og sjúkraliðs. Hún sagði að Piet hafi orðið nojaður þegar hann sá skammbyssur lögreglumannanna og það hafi ekki orðið til að róa hann. Eftir að Svandís og lögreglumennirnir tveir höfðu reynt að róa hann í um hálfa klukkustund hafi þeim verið að takast ætlunarverkið. Þá hafi maður öskrað á hann og þá hafi Piet ráðist á hann.

„Lögreglumennirnir neyddust þá til að yfirbuga hann og taka hann með á lögreglustöðina.“

Hún segist hafa orðið óróleg þegar lögreglumennirnir nefndu lögreglustöðina og fangageymslu því áfallastreituröskunin veldur því að Piet á erfitt með að vera einn í litlu rými.

„Hann getur ekki verið einn þegar hann fær geðrofskast því hann getur þá skaðað sjálfan sig. En lögreglumennirnir sátu hjá honum í fangageymslunni í tvær klukkustundir þar til hann hafði jafnað sig og hægt var að sleppa honum.“

Svandís og Piet hafa verið saman í 12 ár og eiga þrjú börn. Piet hefur glímt við áfallastreituröskun í 10 af þessum 12 árum þeirra saman. Svandís sagði að lögreglumennirnir og starfsfólkið á Bella Sky eigi mikið hrós skilið fyrir viðbrögð sín. Þau hafi sýnt því fullan skilning að Piet glími við þennan erfiða sjúkdóm.

Piet og Svandís. Mynd:Úr einkasafni

Hún sagðist hafa birt Facebookfærsluna til að beina athyglinni að hvernig það er að eiga mann sem glímir við áfallastreituröskun.

„Hann er maðurinn minn en stundum gæti ég næstum alveg eins verið einstæð móðir. Hann fær ekki geðrofsköst daglega en samband okkar er ekki byggt á jafnvægi þar sem hann tekur þátt á sama hátt og ég. Ég er þreytt á að fólk skilur ekki hvernig þetta er fyrir uppgjafarhermenn og konur þeirra. Fólk skilur ekki af hverju maðurinn minn getur ekki tekið þátt á sama hátt og aðrir af því að hann lítur ekki út fyrir að vera veikur. Ég vonast til að þessi skrif mín verði til að þótt að fólk líti út fyrir að vera heilbrigt þá er ekki víst að það sé það og að fólk þarf að gæta sérstaklega að því að dæma ekki annað fólk sem hegðar sér stundum öðruvísi.“

Svandís segir að skrifum hennar hafi einnig verið ætlað að vekja athygli á að það er ekki hægt að fá næga hjálp fyrir þá sem þjást af áfallastreituröskun. Hún segist vilja sjá heildstæðari aðstoð fyrir fjölskyldur eins og hennar eigin.

„Ég vildi óska að það væri auðveldara að fá þá hjálp sem maður hefur þörf fyrir sem aðstandandi. Ég hef auðvitað fengið sálfræðihjálp hjá danska hernum, eins og ég á rétt á, en það er ekki nóg. Það er erfitt að fá fjölskyldulífið til að ganga upp þegar mér líður oft eins og ég sé einstæð móðir. Ef ég á að geta haldið áfram að hjálpa manninum mínum verður einhver að hjálpa mér.“

Skrif Svandísar hafa náð augum margra og meðal þeirra sem hafa lesið skrif hennar er Naser Khader, þingmaður og formaður varnarmálanefndar þingsins. Facebookfærslan hafði svo mikil áhrif á hann að hann sendi Svandísi skilaboð og ætlar nú að taka málið upp við varnarmálaráðherrann.

Hér fyrir neðan er þýðing á Facebookfærslu Svandísar síðan á laugardaginn:

„Ég er konan sem á mann sem lá öskrandi í einu horni í gestamóttökunni á Bella Sky í nótt eftir að hann fékk geðrofskast vegna áfallastreituröskunar sem hann glímir við eftir að hafa verið sendur til Afganistan fyrir 10 árum.

Ég er konan sem barðist í tæpar tvær klukkustundur með lögreglu- og sjúkraflutningsmönnum við að róa hann og tryggja að hann ynni hvorki sjálfum sér né öðrum að skaða.

Ég er konan sem varð að hjálpa lögreglunni að leggja manninn sinn niður þegar hann varð árásargjarn og brást illa við.

Ég er konan sem varð að horfa á eiginmann sinn settan í handjárn og fluttan í fangageymslu í slæmu andlegu ástandi.

Ég er konan sem stóð og grét í vonleysi eftir að maðurinn minn var fluttur á brott.

Ég er konan sem hef staðið við hlið mannsins mín undanfarin 10 ár og hef upplifað allar þær upp- og niðursveiflur sem áfallastreituröskun veldur.

Ég er konan sem hefur hugsað sér að standa við hlið mannsins míns og sigra áfallastreituröskunina.

Ég er konan sem vill að áfallastreituröskun og þau áhrif sem hún hefur á uppgjafarhermenn og aðstandendur þeirra fái meiri athygli.

Ég er konan sem get ekki meira en neyðist til að halda áfram!

Innilegar þakkir til starfsfólksins á Bella Sky sem sýndi ótrúlega mikinn skilning á veikindum mannsins míns. Þúsund þakkir til lögreglumannanna tveggja sem sýndu ekkert annað en samúð, skilning og virðingu og gerðu allt sem þeir gátu til að komast hjá handtöku.

#PTSD #PTSDawareness #veteraner

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kona með hjarta úr gulli kom Pétri til bjargar í Kópavogi: „Guð blessi þig yndislega kona“

Kona með hjarta úr gulli kom Pétri til bjargar í Kópavogi: „Guð blessi þig yndislega kona“
Fréttir
Í gær

Sigurþóra komin með húsnæði fyrir Bergið á dánardegi sonar síns – „Táknrænt að nota dagsetningu á versta degi lífs míns“

Sigurþóra komin með húsnæði fyrir Bergið á dánardegi sonar síns – „Táknrænt að nota dagsetningu á versta degi lífs míns“