fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Kettirnir sem eiga miðbæinn

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 30. nóvember 2018 15:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kettir glæða  höfuðborgina lífi. Sumum fer lítið fyrir á meðan aðrir valsa um eins og kóngar í sínum kastala og líta á heimilisfesti sína sem tillögur frekar en annað. Fimm miðbæjarkettir hafa vakið sérstaka athygli á samfélagsmiðlum fyrir að hafa gert sig heimakomna fjarri heimkynnum sínum.

Facebook-hópurinn Spottaði kött nýtur mikilla vinsælda og eru meðlimir hans yfir tólf þúsund talsins. Það vekur sérstaka lukku meðlima hópsins að rekast á einn af þessum fimm fræknu köttum, en þeir eru mögulega jafnvel frægustu kisar landsins. Svona fyrir utan jólaköttinn.

Kóngurinn Baktus

Frægasti miðbæjarkötturinn er án efa ferski fressinn Baktus. Hafdís, eigandi Baktusar, er jafnframt eigandi verslunarinnar Gyllti kötturinn. Baktus tók einhliða ákvörðun um að hann væri fyrirtækjaköttur frekar en einkaköttur og fluttist búferlum frá heimili sínu yfir á vinnustað Hafdísar. Skipti engu hvað Hafdís reyndi, Baktus vildi búa í versluninni. Hann hefur einnig vanið komur sínar í verslun Icewear þar sem hann leggur sig gjarnan á ullarteppi, helst úti í glugga til að geta fylgst með vegfarendum og leyft þeim að dást að sér. Þrátt fyrri að vera í fullu starfi við að vera krútt þá leyfir Baktus sér þó stundum að kíkja á pöbba í nágrenninu, gestum til mikillar gleði. Myndir af honum má finna á Instagram undir myllumerkinu baktusthecat og nýtur hann mikilla vinsælda meðal ferðamanna sem þykir það hinn mesti fengur að ná sjálfu með kattarkonungi miðbæjarins.

Rósalind Rektor

Háskólakötturinn Rósalind er gleðigjafi sem hefur vanið komur sínar í Háskóla Íslands. Hún er metnaðargjörn læða og eftir að hafa gert fullnægjandi könnun á húsakosti og aðstæðum í skólanum óð hún beinustu leið inn til rektors, tilbúin að taka við starfinu. Hægt er að fylgjast með henni undir myllumerkinu #rosalindrektor á Instagram. Rósalind gleður og kætir háskólanema sem eru að bugast undan verkefnaskilum og próflestri. Hún hefði kannski frekar átt að sækjast eftir stöðu við námsráðgjöf?

Ráðhúskötturinn Emil

Ráðhúskötturinn Emil er pólitíkusinn í hópnum. Hann passar upp á að borgarstjórnin hagi sér nú sæmilega í Ráðhúsinu, töltir svo  yfir í Iðnó þar sem hann leggst makindalega á stól og leyfir gestum að dást að sér. Hann tekur hlutverk sitt í borgarstjórn mjög alvarlega og hann hefur því verið „spottaður“ meðal annars á borgarráðsfundi, ársfundi Strætó og núna síðustu helgi var hann með yfirsetu á sýningunni Handverk og Hönnun í ráðhúsinu. Honum er annt um samborgara sína og eiga margir honum góðan greiða að gjalda eftir að hann aðstoðaði þá í borgarstjórnarkosningunum í maí síðastliðnum. Aðdáendur Emils eru duglegir að deila myndum af honum á áðurnefndum hóp, Spottaði kött.

Kötturinn Púki

Kötturinn Púki kattarvaktar Laugarveginn. Myndir af Púka sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum segja nánast sögu og má vel sjá fyrir sér týpískan mánudag hjá honum. Mættur klukkan 10 í vinnuna á ferðaskrifstofunni Around Iceland. Í hádeginu bregður hann sér yfir í Mál og menningu þar sem hann skoðar nýjustu bókartitlana og fær sér bita á kaffihúsinu Rúblunni. Eftir vinnu bregður hann sér til eldri borgaranna á Vitatorgi en að því loknu er gott að slappa af. Skellir hann sér þá á uppáhaldsbarinn sinn, Lewboski bar, áður en hann skellir sér heim. Púki er á Facebook undir nafninu Púki Kotturrinn.

Ófelía, drottning Skólavörðustígs

Ófelía heldur til á Skólavörðustíg. Hún er tignarleg í útliti, af svonefndu ragdoll-kyni og vekur athygli fyrir fallega loðna feldinn sinn og himinblá augu. Hún er einkum fræg fyrir smáglæpi, leiklist og fyrirsætustörf. Henni brá fyrir í kvikmyndinni Undir trénu í hlutverki sem skipti sköpum fyrir söguþráðinn. Ekki  hefur hún þó fengið mikið borgað fyrir hlutverkið en hún hefur ofan í sig með harðfiskþjófnaði, starfsmönnum Krambúðarinnar til gleðiblandinnar mæðu. Vinsælt er að smella af henni mynd enda ekki oft sem maður hittir fyrir bláeygða hefðarketti sem þar að auki eru frægir leikarar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu