fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Þetta á enginn að þurfa að upplifa: Tryggvi og Elísabet fá ekki að vera saman – Börnin brotin og barnabörnin gráta afa sinn

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Mánudaginn 19. nóvember 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vildi svo sannarlega geta tekið þennan pakka frá þeim, að þeim þyrfti ekki að líða eins og þeim hefur liðið,“ segir Elísabet og reynir að halda aftur að tárunum. „Við Tryggvi höfum aðeins talað um það, við erum með aðeins þykkari skráp en svo veit ég ekkert hvenær hann brestur. Þetta er ekki sjálfgefið að maður haldi þetta út.“

Elísabet Andrésdóttir er eiginkona Tryggva Ingólfssonar. Tryggvi er lamaður fyrir neðan háls og hefur verið sviptur heimili sínu á Hvolsvelli og hefur þurft að dúsa í litlu herbergi á Landspítalanum í Fossvogi. Áður hafði Tryggvi dvalið við gott atlæti á dvalar- og hjúkrunarheimilinu á Kirkjuhvoli á Hvolsvelli í ellefu ár. Í byrjun árs þurfti Tryggvi að fara í aðgerð á Landspítalanum. Á meðan hann var fjarverandi skrifaði starfsfólk heimilisins undir undirskriftalista þess efnis að það myndi ganga út ef Tryggvi sneri aftur á Kirkjuhvol. Allir sem þekkja fjölskylduna vel segja að framkomu eins og þessa eigi enginn skilið að upplifa.

Fjölskyldan þráir að fá Tryggva heim. Börnin hans eru brotin. Konan hans veit ekki hvort hún hafi þetta af. Barnabörnin gráta að hafa ekki afa sinn í nágrenninu eins og áður sem nú er fastur í stofufangelsi á Landspítalanum. Í stuttu máli er búið að tvístra fjölskyldu sem á sinn rétt á að vera saman.

Fjölskylda Tryggva hefur fengið mismunandi skýringar á þessum aðgerðum starfsfólks, allt frá því að Tryggvi væri erfiður í samskiptum og ylli miklu álagi á starfsfólk, yfir í að ekki væri hægt að tryggja öryggi hans á Kirkjuhvoli. Hjúkrunarheimilið gat þó í 11 ár veitt honum þjónustu án þess að nokkurn tímann hafi verið rætt að öryggi hans væri ógnað með veru hans þar.

Í stað þess að dvelja í rúmlega fimm hundruð metra fjarlægð frá eiginkonu sinni þá aðskilja rúmlega 100 kílómetrar þau. Tryggvi dvelur einn og yfirgefinn á lungnadeild Landspítalans í Fossvoginum og getur ekki hitt ástvini sína eins oft og hann langar. Hann segist upplifa sig sem einskis nýtan pappakassa sem er hent í geymslu. Fjölskyldumeðlimir telja að um gróft mannréttindabrot sé að ræða en engin lausn virðist í sjónmáli. Kostnaðurinn við dvöl Tryggva í Fossvoginum er ærinn eða 350 þúsund krónur á dag.

Börnin eru að molna niður

Tryggvi segir að fjarveran frá fjölskyldunni sé það erfiðasta sem hann er að ganga í gegnum þessa daganna. „Þetta er bara orðið þannig núna að börnin eru bara að molna niður. Nú eru þetta engin smábörn sem við eigum. Við hjónin erum kannski af gamla skólanum og við bara bítum á jaxlinn, en þegar við sjáum börnin okkar vera að bugast þá er mjög erfitt að horfa upp á það. Þetta er að leggjast ansi þungt á okkur“

Blaðamaður DV hitti börnin hans Tryggva og konu hans austan fyrir fjall.

Aníta Tryggvadóttir var vitni af því þegar Tryggvi dettur af hestbaki og lamast, hún segir að þessi þolraun sem fjölskyldan sé að ganga í gegnum sé erfiðara en að upplifa slysið og afleiðingar þess.

„Mér finnst þetta búið að vera hreinasta helvíti ef ég á að vera alveg hreinskilin. Nú horfði ég upp á pabba detta af baki þegar ég var 13 ára, horfi á hann detta, lamast og allt ferlið sem fór í gang. Þetta er sorgarferli í mörg ár sem maður fer í gegnum í gegnum mörg ár. Svo kemur þetta fyrir og þetta er bara miklu erfiðara heldur en nokkurn tímann með slysið. Það er eitthvað sem gerðist, það var slys. Sorglegt og erfitt. En að horfa upp á þetta af mannavöldum er bara skelfilegt og ekkert gert í því.“

Elísabet Andrésdóttir, eiginkona Tryggva segir að fjarveran sé erfið og það sé mjög erfitt að vita af eiginmanni sínum í eiginlegu stofufangelsi. Fjarveran frá eiginmanni sínum hefur gert allt erfiðara fyrir hana, en hún bjó örstutt frá hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli og gat því eytt mun meiri tíma með eiginmanni sínum á þeim tíma en í dag.

Mér datt náttúrulega ekkert annað í hug en að hann kæmi bara heim, miðað við hversu vel þetta gekk á Kirkjuhvoli. Þrátt fyrir einstaka hnökra eins og gerist alla staðar. Maður hefur bara látið þessa átta mánuði líða með því að hafa bara nóg fyrir stafni og vera bara dauðþreytt þegar maður fer að sofa, til þess að ná að sofa.“

Sonur Tryggva, Finnur Bjarki Tryggvason, segir að lítið sem ekkert samráð hafi verið haft við fjölskyldu Tryggva um brotthvarf hans af Kirkjuhvoli.

„Mér er bara að öllu óskiljanlegt að þessi ákvörðun hafi verið tekin, líka með þessu offorsi. Kannski líka vegna þess að við höfum ekki fengið almennileg svör af hverju þetta gerðist.

Hann var að koma heim og það líður ein helgi og einn dagur og ég átti að koma með hann heim um páskana. Slysið gerðist nú um páskana svo þetta er nú ekki uppáhalds tíminn okkar. Þetta var ótrúlegt högg. Auðvitað var ég fokvondur. Hann var bara á leiðinni heim og svo í allt í einu var hann ekkert á leiðinni heim. Hann var búinn að vera þarna í 11 ár,“ segir Finnur Bjarki sem er svekktur, reiður og sár út í samfélagið fyrir að bregðast föður hans. Hann bætir við: „Lítið dæmi, þá vorum við að fresta afmæli strákanna minna þangað til að afi kæmi heim. Þeir gráta enn og rukka um það, hvenær við getum haldið uppá afmælið.“

Elísabet eiginkona Tryggva

Hverju svarar þú?

„Ég á ekki til nein svör.“

Þá hefur fjölskyldan leitað sér sálfræðiaðstoðar en baráttan hefur haft djúpstæð áhrif á alla fjölskylduna. Málið hefur vakið mikla athygli. Kristín Einarsdóttir sem þekkir bæði til máls Tryggva og starfaði sem deildarstjóri iðjuþjálfunar á LSH í 13 ár hefur kallað eftir að starfsfólkið á Hvolsvelli verði rekið. Það skal samt tekið fram að þangað vil Tryggvi komast aftur ef hann mætti ráða. Kristín segir:

„Það að einhverjar prímadonnur á Hvolsvelli sem ráðið hafa sig til þjónustustarfa inn á heimili Tryggva, fari upp á afturfæturna og með hótunum ætli að þvinga hann út af eigin heimili er með öllu óásættanlegt og sýnir hversu mikið er ábótavant í menntun umönnunarstétta.“

Viðtal við börn og eiginkonu Tryggva má sjá hér að neðan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“