fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Ótrúlegir hlutir gerðust þegar Andri hætti á lagernum: „Við vorum í erfiðustu vinnunni og með lægsta kaupið“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. október 2018 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vinn hjá litlu fjölskyldufyrirtæki í Hveragerði. Ég hef lært svo mikið af fólkinu hérna sem ég elska að vinna með. Núna áðan var ég að reyta arfa sem er frekar hefðbundið, en ég hef lært svo mikið að ég myndi ánægður reyta arfa það sem eftir er. Garðyrkjuvinnan er klárlega besta vinna sem ég hef iðkað hingað til,“ segir Andri Már Agnarsson, starfsmaður á Garðyrkjustöð í Hveragerði.

Andri Már er félagi í Eflingu og er hann einn þeirra sem segir sögu sína í tengslum við átakið Fólkið í Eflingu. Andri ákvað að taka sénsinn ekki alls fyrir löngu og segja upp starfi sínu sem var líkamlega erfitt og slítandi. Hann sér ekki eftir því og stefnir á nám í skógræktarfræðum. Hann segir að ótrúlegir hlutir hafi gerst síðan hann hætti í starfi sínu á lager.

Rétt slapp

„Ég rétt slapp! Ég var í lagervinnu áður en ég kom hingað. Ég vann við að færa þunga kúta fram og til baka. Við vorum bara strákar á lagernum. En þetta var góður hópur, við stóðum saman og hittumst eftir vinnu og svoleiðis.

En hjá þessu stóra fyrirtæki vorum við botninn í augum hinna sem unnu þarna. Við vorum í erfiðustu vinnunni og með lægsta kaupið og engin leið að vinna sig upp, svo blautir á bak við eyrun að við höfðum ekki hugmynd um hvort eða hvenær væri brotið á okkur,“ sagði Andri.

Grunar að það sé oft brotið á ungu fólki

Andri segir að hann hafi líka unnið líkamlega erfiða vinnu í fiskvinnslu þar sem hann var að færa til bakka og ker allan liðlangan daginn. Segir Andri að þegar þeim var sagt að vinna nokkra aukatíma af því að það þurfti að klára eitthvað verk þá unnu þeir áfram, það var ekki fyrr en einn úr hópnum sem þekkti réttindi þeirra stóð upp og sagði að þetta væri ekki löglegt að þeir gerðu sér grein fyrir rétti sínum, segir Andri.

„Mig grunar að það sé oft brotið á þessum hópi, ungu fólki og útlendingum. Það er fólkið sem er illa upplýst og hefur engan að leita til. Vandamálið er að fólk sem vinnur svona vanmetna vinnu finnst það vera svo einangrað og hjálparvana, engin að gæta þeirra, ekki einu sinni trúnaðarmaðurinn á svona stórum vinnustað. Þér fer að líða eins og þú sért einskis virði, þú veist að það er bara litið á þig sem ódýrt vinnuafl og að það eru verk sem þarf klára. Þú færð í bakið og skrokkurinn gefur undan og þú biður um fjögurra daga frí og þér er svarað að þú fáir tvo daga til þess að jafna þig.“

Sá strákana festast

Andri segir að hann hafi ekki haft orku í neitt og farið heim og dottið út af. „Ég sá strákana festast, þeir voru kannski búnir að vinna á lagernum í átta eða níu ár, orðnir tæplega þrítugir og komust engan veginn burt, kannski búnir að festa kaup á íbúð og skuldugir.“

Andri segir að hann hafi unnið á umræddum lager í tvö á rog það hafi endað með þunglyndi, hann hafi upplifað það að ekkert væri að gerast í lífinu. Að lokum segist hann hafa tekið áhættuna og sagt upp án þess að hafa nokkuð annað starf fast í hendi.

„Fjölskyldan og vinir voru ekki að hvetja mig, mér fannst eins og allir vildu helst hafa mig þarna. Það þarf kjark til þess að elta drauma sína eða fara út að leita að þeim eins og það var í mínu tilfelli, ég vissi ekkert hvað ég vildi gera í lífinu og var að verða tuttugu og fimm ára.“

Hlýtur að skipta máli að starfsfólki líði vel

Andri segist vera þeirrar skoðunar að þegar svona stórir vinnustaðir eru annars vegar, þar sem fólk er að gera sömu handtökin allan daginn, ættu að vera skyldugir til að koma á móts við starfsfólkið.

„Gera eitthvað andlega uppbyggjandi fyrir það, þannig að því finnist það vera einhvers virði. Hjálpa fólki til þess að fá tilgang, gefa því möguleika á að vinna sig upp, vera með námskeið, jóga eða nudd, bara eitthvað lítið. Ég veit auðvitað ekki hvernig svona vinnustaðir réttlæta það fyrir sjálfum sér að gera eitthvað þar sem þeir eru ekki beint að græða peninga en það hlýtur að skipta máli að starfsfólkinu finnist það vera einhvers virði. Ég á vini sem vinna á leikskóla, og þau segja að það sé svo krefjandi en líka gefandi, það er vinna sem skilar einhverju til baka.“

Ótrúlegir hlutir hafa gerst

Andri segir að nú sé hann hamingjusamur, hann hætti á lagernum og ákvað að finna tilgang með lífi sínu hvað sem það kostaði.

„Ég stefni á nám í skógræktarfræðum og réð mig hingað í garðyrkjustöðina til að fá reynslu. Ég hef unnið hérna í ár og stefni á nám í skógræktarfræðum. Ótrúlegir hlutir hafa gerst á þessu eina ári síðan ég hætti á lagernum og byrjaði í gróðurhúsinu. Ég flutti til Hveragerðis og bý hjá mömmu þangað til að annað húsnæði býðst sem er ekki auðfundið hérna á svæðinu. Ég geri lítið annað en að lesa um plöntur og læra. Ég hef komið mér upp 30 mismunandi plöntum sem ég hlúi að og fylgist með. Ég er svo upptekinn af vinnunni og náttúrunni að þunglyndið er horfið.“

Andri segir að lokum:

„Ég hugsa oft til strákanna á lagernum, hvað verði um þá, eftir að ég hætti þá hafa allavega tveir aðrir farið að gera eitthvað annað. Annar þeirra flutti í sveitina sína aftur og við tölum oft saman um það á netinu hvað þetta var rétt ákvörðun hjá okkur að prófa eitthvað nýtt í lífinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu