fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Hildur segist vera að fórna sér í stríði: „Við leggjum starfsframa, geðheilsu og fjölskyldulíf að veði“

Hjálmar Friðriksson
Þriðjudaginn 23. október 2018 10:50

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að þessi umræða hafi skilað því fyrst og fremst að konur eiga auðveldara með að segja frá. En það sem mér finnst bagalegt er hvað hið opinbera hefur brugðist lítið við. Við erum að skerpa á verklagsreglum, viðbragðsáætlunum og skrifa minnisblöð en það er raunverulega ekkert búið að gerast sem kostar peninga.“

Þetta sagði Hildur Lilliendahl í þættinum 21 með Lindu Blöndal á Hringbraut í gær þegar hún svar spurð um hvað #metoo hefði skilað. Hún fór yfir víðan völl og sagðist fagna því að Kristinn Sigurjónsson, fyrrverandi lektor í HR, hafi verið rekin. Hún svaraði því játandi að hún væri í stríði.

Hún sagði að viðbrögð hins opinbera hafi verið meiri þegar til dæmis Breiðavíkurmálið kom upp. „Viðbrögðin voru þar kerfislæg. Forsætisráðherra biður þolendur afsökunar og það er komið á fót sjóði og margir milljarðar greiddir út í sanngirnisbætur. Ég er ekkert endilega að halda því fram að það hafi verið nóg gert en það var eitthvað gert, sem kostaði peninga“ sagði Hildur og bætti við að það hefði verið hægt að koma á fót sérstöku embætti til að halda utan um #metoo-málið. „Það hefði verið hægt að stofna sérstakt saksóknaraembætti fyrir svona mál. Það hefði verið hægt að koma á fót einhverri stofnun fyrir fólk til að leita til.“

Nauðgun skýrasta birtingarmyndin

Hildur var sérstaklega spurð hvort hugmyndafræði hennar væri eitthvað grófari en gengur og gerist: „Ég held ekki. Sumar okkar erum stundum svolítið ókurteisar en ég held að það vinnist engir stórir sigrar í mannréttindabaráttu á kurteisi.“

En eruð þið í þessari baráttu bara auga fyrir auga og tönn fyrir tönn?

„Alls ekki. Við erum bara í leit að jafnrétti og viljum hætta að upplifa óréttlæti á eigin skinni alls staðar þar sem við komum.“

En þið verðið alveg æfar þegar það er talað um að fyrirgefa ofbeldismönnum.

„Sko, það er öllum þolendum í sjálfsvald sett að fyrirgefa sínum gerendum. Þrýstingurinn í fyrirgefningarumræðunni er hins vegar alveg ótrúlega mikill. Hann einskorðast við umræðu um kynferðisofbeldi. Það er aldrei verið að þrýsta á þolendur í nokkurs konar öðrum málum, að fyrirgefa gerendum. Það er predikað eins og það sé eitthvað hollt og gott fyrir þolendurna, það á að færa þá einhvern veginn lengra […] Ég held að þessi þrýstingur virki sem einhvers konar and-sáluhjálp.“

Ykkur er tíðrætt um feðraveldið, hefur #metoo eitthvað unnið á því?

„Nei, ekki nógu mikið. Bara alls ekki. Ég held að það hafi ótrúlega lítið breyst annað en að konur hafi fundið styrk og stuðning í samstöðunni og eigi auðveldara með að segja frá misrétti og ofbeldi. Að öðru leyti held ég ekki. Ég held að þetta hafi ekki hróflað við, það hrikti ekkert í stoðunum. Feðraveldið stendur alveg keikt.“

Fyrir þá sem átta sig ekki á þessu, hvað fellst í feðraveldinu?

„Það er auðvitað bara kerfisbundin undirokun kvenna í gegnum tíðina. Það er oft talað um að nauðgun sé skýrasta birtingarmyndin. En það eru „míkró-aggresjonir“ sem konur upplifa í sínu daglega lífi og störfum allan daginn, sem er ofsalega erfitt að benda á,“ sagði Hildur.

Fórnar sér

Síðar sagði Hildur að hún hefði ekkert umburðarlyndi gagnvart því að feðraveldið gæti verið lengi að breytast. „Nei ekki neitt,“ sagði Hildur

Myndi það kannski borga sig?

„Já, það gæti vel verið en það verður einhver að fara á undan og vera óþolinmóður og ýta. Það gerir það auðveldara fyrir þá sem eru kannski hófsamari, og þær sem eru hófsamari í baráttunni að ganga á eftir.“

Sumir segja að þið séuð að skaða þessa baráttu, þið séuð of aggresívar og orðljótar. Að þið séuð konur sem hatið karla. Hvað viltu segja við því?

„Það hefur alltaf verið sagt við allt fólk sem er í fremstu víglínu í allri mannréttindabaráttu. Það er ekki eins og Hildur Lilliendahl og Sóley Tómasdóttir hafi uppgötvað róttækan femínisma fyrir nokkrum árum. Það eru alltaf einhverjar konur sem eru fremstar í víglínunni og þetta er alltaf sagt um þær. Að þær séu að skemma baráttuna.“

Eruð þið að fórna ykkur?

„Já, það má bara tiltölulega auðveldlega færa rök fyrir því. Við leggjum starfsframa og geðheilsu og fjölskyldulíf að veði. Þetta er ekki auðvelt og það gerir það enginn að gamni sínu, fyrir hugsjónir.

Ánægð með uppsögn Kristins

Hildur var síðar spurð sérstaklega spurð út í Kristinn Sigurjónsson, fyrrverandi lektor við HR, sem var rekinn líkt og frægt er orðið fyrir skoðanir sínar á konum. Hún sagðist ánægð með að hann hafi verið rekinn. „Ég er ofboðslega ánægð. Ég ætla ekki að tala fyrir aðrar [konur] en mér finnst það mjög skynsamleg ákvörðun og ég sé ekki hvernig yfirstjórn Háskólans í Reykjavík hefði getað varið það gagnvart starfsfólki og nemendum að bjóða þeim upp á að vera upp á hann kominn og neyðast til að vinna með honum.“

Beinist það þá ekki bara að ykkur sjálfum? Því þið eruð á lokuðu vefsvæði og hafið uppi allskonar ummæli og eruð í ykkar störfum? Hvað á að ganga langt?

„Ég held að karlarnir sem eru að vinna með mér, ég allavega vona að þeir hafi ekki áhyggjur af því að mér þyki vont að vinna með þeim. Þeir eru dásamlegir.“

Það er talað um það að ummælin á ykkar lokuðu vefsíðu séu að karlar séu bara niðurlægðir í orði.

„Já, já, það kemur alveg fyrir.“

Eruð þið ekki að gera það sama og þessi maður?

„Nei, ég myndi ekki segja það.“

Hver er munurinn Hildur?

„Ég get auðvitað bara axlað ábyrgð á eigin ummælum. Þau hafa á engum tímapunkti, hvorki inn í þessum hópi né öðrum, verið þess eðlis að karlar, sem kyn, eigi að taka þau til sín.“

Þú vilt samt láta taka mark á orðum þínum? Þannig að þetta er svolítið tvíeggja.

„Já, já. Ég veit það ekki. Mér þætti mjög eðlilegt að það hefði afleiðingar fyrir mig í starfi ef ég lýsti því yfir að ég vildi ekki hafa karla nálægt mér í vinnunni. Það þætti mér mjög eðlilegt.“

Þér finnst munurinn liggja þar?

„Ég myndi aldrei segja svoleiðis,“ sagði Hildur.

Að lokum var Hildur spurð um hvernig það væri að vera svo umdeild manneskja í samfélaginu. „Það er lýjandi og tekur á taugarnar.“

En þú ætlar ekki að fara í fórnarlambahlutverkið?

„Nei, nei. Það hvarflar ekki að mér. Ég bara held áfram. Það voru huggulegir menn í útvarpinu í morgun að líkja mér við Hitler. Ég held að það hljóti að vera vísbending um að ég sé að gera eitthvað rétt. Að ég sé á réttri leið.“

Eruð þið í stríði?

„Já. Ég held það. Við feðraveldið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Í gær

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grunur um manndráp á Akureyri

Grunur um manndráp á Akureyri