fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Unnið að endurreisn WOW ?

Fréttir

Sólveig húðskammar ritstjóra Markaðarins: „Hörður bókstaflega gengur af göflunum“ – „Grenjaði minna“ þegar hún fjórbraut á sér öxlina

Ritstjórn DV
Mánudaginn 22. október 2018 09:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hörður bókstaflega gengur af göflunum í leiðaranum og argar á fólk að ef kröfum vinnuaflsins um að geta lifað af dagvinnulaunum og fá að stjórna meira af tíma sínum og lífi verði mætt muni æðisgengin kollsteypa ríða yfir samfélagið.“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um leiðara sem Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, skrifaði í Fréttablaðið á föstudag. Þar fjallaði Hörður um horfurnar á vinnumarkaði og sagði að líkurnar á verkföllum og skæruaðgerðum hefðu aukist til muna eftir að Starfsgreinasambandið og VR, stærstu verkalýðsfélög landsins, hefðu sett fram kröfur sínar í kjaraviðræðum.

Sturlaðar kröfur, sagði Hörður

„Þeim verður ekki lýst öðruvísi en sem sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika,“ sagði Hörður í leiðara sínum og bætti við að ef fallist yrði á kröfur Starfsgreinasambandsins gæti launakostnaður sumra fyrirtækja meira en tvöfaldast á næstu þremur árum og í einhverjum tilfellum aukist um 150 prósent.

„Sjálft hefur sambandið ekki séð neina ástæðu til að leggja mat á kostnaðinn við kröfur sínar. Það kemur kannski lítið á óvart enda eru þær með slíkum ólíkindum að það er tæpast hægt að taka þær alvarlega sem innlegg í kjaraviðræður.“

Segir Hörð „hetjutenór grátkórs kapítalista“

Sólveig Anna svaraði leiðara Harðar á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og sagði að stemningin í herbúðum óvina vinnandi stétta væri ótrúleg. „Henni verður ekki lýst öðruvísi en sem sturlaðri.“

Sólveig sagði að hún hefði séð sig knúna til að svara leiðara Harðar þó hana hafi ekki langað það sérstaklega. Uppnefnir hún hann „hetjutenór grátkórs íslenskra kapítalista.“

„Mér langar ekki að virða fólk sem beitir hiklaust hótunum viðlits. En því miður er svo komið fyrir talsmönnum óbreytts ástands að þeir hika ekki við reyna að kúga vinnandi fólk til hlýðni með sjúkri og viðbjóðslegri orðræðu og þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að sýna að í mér rennur blóð. Þetta er auðvitað gömul saga og ný; efnahagslegir og pólitískir forréttindahópar hafa ávallt haft fólk á sínum snærum sem er tilbúið að fara fram með sjúkustu útgáfuna af málflutningnum. Tilgangurinn með því að er annars vegar að skelfa fólk til hlýðni og hins vegar að búa til tækifæri fyrir hófstilltari og jarðbundnari talsmenn arðránsins til að stíga fram sem málsvara skynsemi og stöðugleika. Við megum kannski bara þakka fyrir að þeir eru allavegir hættir að lemja okkur í hausinn. En það væri samt kannski skárra en ámátlegt vælið í hetjutenór grátkórs íslenskra kapítalista, Herði Ægissyni; önnur eins harmakvein hafa varla heyrst áður frá fullorðinni manneskju,“ segir Sólveig sem segist hafa „grenjað minna“ þegar hún fauk í rokinu og fjórbraut á sér öxlina.

„Hörður bókstaflega gengur af göflunum í leiðaranum og argar á fólk að ef kröfum vinnuaflsins um að geta lifað af dagvinnulaunum og fá að stjórna meira af tíma sínum og lífi verði mætt muni æðisgengin kollsteypa ríða yfir samfélagið. (Það er auðvitað áhugavert fyrir áhugafólk um kapítalismann að sjá svona opinskáa og bersögla frásögn af sadisma-möguleikum þeirra efnahagslögmála sem við erum neydd til að lifa við.) Hann segir almenningi að vænta þess að ef við stígum af braut óréttlætisins og byrjum að byggja upp efnahagslegt réttlæti muni það kosta gengishrun, óðaverðbólgu og vaxtahækkanir,“ segir Sólveig sem bætir við að Hörður stilli sér upp sem rödd skynseminnar. Ekki sé hægt að segja annað en að „móðursýkiskenndir heimsendaspádómar hans einkennist af einstakri vanstillingu.“

Svört spá; verðbólga, gengisfall og vaxtahækkun

Hörður var býsna harðorður í leiðara sínum og sagði hann að forystumenn stærstu verkalýðsfélaga landsins væru stærsta einstaka ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra íslensks launafólks. „Þeir vilja tefla á tæpasta vað og innleysa tugprósenta launahækkanir, sem engin innistæða er fyrir, á einu bretti. Flestir vita hvaða afleiðingar það mun hafa. Gengið mun hríðfalla, verðbólgan hækka upp úr öllu valdi og Seðlabankanum verður nauðugur sá einn kostur að bregðast við með hækkun vaxta. Allir munu tapa,“ sagði Hörður og bætti við að lækkun krónunnar undanfarnar vikur væri í boði „þeirra byltingarsinna“ sem ráða för í verkalýðshreyfingunni.

Í grein sinni vísar Sólveig þeim orðum Harðar á bug að kröfum verkalýðsfélaganna sé ekki hægt að lýsa öðruvísi en sem sturluðum. „En það er auðvitað löngu tímabært fyrir alla, líka Hörð, að viðurkenna að það er hinn efnahagslegi veruleiki sem láglaunafólk býr við sem er sturlaður. Ég, láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði, er til vitnis um það. Ég þekki af mikilli persónulegri reynslu sturlun þá sem þar ríkir. Hörður kallar eftir því að verkalýðshreyfingin leggi mat á kostnaðinn við kröfurnar en hvernig væri nú að Hörður og aðrar málpípur auðvaldsins legðu mat á kostnaðinn sem felst í því að reka samfélag sem er grundvallað á efnahagslegu óréttlæti? Væri það ekki hressandi tilbreyting?,“ spyr Sólveig.

„Megi þá helvítis byltingin lifa“

Sólveig bendir svo á að forstjórar hér á landi geti borgað sér milljónir á mánuði, ráðherrar fái tvær milljónir í laun og auðstéttin sendi formúgur í skattaskjól. Á sama tíma geti verkafólk, sem komið er undir sjötugt, ekki hætt að vinna þrátt fyrir heilsuleysi, ungt fólk, sem er ekki svo heppið að eiga ættingja með fulla vasa fjár, geti ekki látið sig dreyma um öruggt húsnæði.

Hún spyr svo lesendur nokkurra spurninga:

„Er það byltingarkennt að tekið verði af alvöru á sjúkri misskiptingunni í samfélagi þar sem yfirstéttin hefur brunað fram úr almenningi þegar kemur að launakækkunum? Er það byltingarkennt að snúið verði af þeirri ömurlegu óheillabraut sem nýfrjálshyggjan neyddi okkur út á þegar skattbyrgðin var færð frá hæstu tekjuhópunum yfir á lægri og millitekjuhópana? Er það byltingarkennt að við látum ekki lengur bjóða okkur þann ósóma að láglaunamanneskja sem reynir að bæta afkomu sína með því að vera í aukavinnu greiði rétt tæplega 37% skatt af smotteríinu sem hún nær að vinna sér inn en ríki maðurinn sem leikur sér með fjármagnstekjurnar sínar greiði aðeins 22% skatta af þeim? Er það byltingarkennt að finnast það viðbjóðslegt að vegna skattatilfærslu stjórnmálafólks á mála hjá auðstéttinni eru nú 19 milljarðar lagðir aukalega á fátækasta fólkið á Íslandi, þeim sem er gert að strita fyrir hin agalega rausnarlegu 300.000 króna lágmarkslaun? Og ef svarið er já, þetta er byltingarkennt þá kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.“

Sólveig segir svo að lokum að fyrirlitning og andúð á verkafólki hafi birst í leiðara Harðar. „Við verðum bara að hughreysta okkur við það að fyrst Herði er sigað á okkur af húsbændum sínum þá hljótum við að vera á réttri leið.“

 

 

Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Sunnudagur, 21. október 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Hörður Sigurgestsson er látinn

Hörður Sigurgestsson er látinn
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Kári vill lækka kostnað heimilanna: „Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það“

Kári vill lækka kostnað heimilanna: „Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ráðist á ungan dreng í Grafarvogi: „Ef fólk sér eitthvað svona, þá á að stoppa þetta“

Ráðist á ungan dreng í Grafarvogi: „Ef fólk sér eitthvað svona, þá á að stoppa þetta“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Aprílmánuður einn sá hlýjasti frá upphafi mælinga hér á landi

Aprílmánuður einn sá hlýjasti frá upphafi mælinga hér á landi