fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Kveikur varpar ljósi á aðbúnað erlendu verkamannanna á Íslandi – „Eruð þið til í að hætta að taka upp?“

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 2. október 2018 10:27

Skjáskot af Facebooksíðu Kveiks. Samsett mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það eru bara ótrúlega ljót dæmi og þessu fylgja náttúrulega allskonar ömurlegheit,“ segir sjónvarspmaðurinn Helgi Seljan. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur mun í kvöld varpa ljósi á aðstæður þeirra 25 þúsund erlendu verkamanna sem eru við störf hér á landi.

Helgi var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun þar sem hann ræddi þátt kvöldsins. Ljóst er að víða er pottur brotinn hvað þetta varðar og eru dæmi þar sem kjarasamningar eru ekki virtir og ekki heldur lög og reglur um aðbúnað starfsmanna. Í þættinum í morgun voru spiluð hljóðbrot úr þættinum í kvöld þar sem meðal annars mátti heyra erlenda starfsmenn lýsa aðbúnaði sínum.

Stór fyrirtæki rekin á sjálfboðaliðum

Helgi sagði að almennt séð væru mjög margir þeirra 25 þúsund útlendinga sem eru við störf hér á landi, fjöldi sem slagar í íbúafjölda Hafnarfjarðar, á allra lægstu töxtum.

„Það eru lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum sem segja kannski ekki til um markaðslaun en oft á tíðum eru útlendingar á þessum kjörum og oftar en maður kærir sig um að vita á verri kjörum um það.“

Helgi sagði meðal annars að þátturinn í kvöld taki á sjálfboðaliðum sem koma hingað til lands og vinna. „Þrátt fyrir að margoft sé búið að lýsa því yfir að það sé ólöglegt að þá virðist það blómstra. Það eru heilu ferðaþjónustufyrirtækin sem velta tugum milljónum og stórgræða á tá og fingri sem virðast vera rekin næstum bara á sjálfboðaliðum. Svo fjöllum við um útlendinga sem koma hingað inn í ferðaþjónustuna og fyrirtæki sem við kannski vitum ekki mikið um en eru stór og svo auðvitað þessar starfsmannaleigur, sem okkur sem samfélagi virðist ekki alveg auðnast, þrátt fyrir lagasetningar og annað, að ná að koma böndum á.“

Mörg ljót dæmi

Helgi sagði að ótrúlega ljót dæmi væru til, aðbúnaðurinn væri oft ekki glæsilegur og kjör þessa fólks langt frá því að vera það heldur.

„Þetta er ekkert rosalega falið heldur, þetta þarf ekki að koma okkur á óvart. Við viljum almennt fá allt fyrir ekkert, við viljum að húsin verði ódýrari og að ríkið taki lægstu tilboðum og afleiðingarnar af því eru bara því miður ansi oft, þegar svo við bætist kennitöluflakk sem enginn stoppar og það virðist vera að sama fólkið getur rúllað með fyrirtæki með ótrúlega sögu ár eftir ár á nýrri kennitölu, þá stoppar þetta ekkert. Verstu dæmin eru auðvitað mansalið sem okkur hefur engan veginn tekist að takast á við. Það eru alltaf að koma upp svona mál. Það hefur ekkert af þessum vinnumansalsmálum farið fyrir dóm,“ sagði Helgi sem bætti við að á undanförnum árum hefði þetta til dæmis verið bundið við ferðaþjónstuna en einnig fleiri geira.

„Þetta er til dæmis ferðaþjónustan. Það er algjörlega samhljóða gagnrýni sem er að koma fram núna og var fyrir hrun, til dæmis kringum uppbygginguna við Kárahnjúkavirkjun. Núna hefur mestur vöxtur verið í ferðaþjónustunni þannig að eðlilega sækja menn vinnuafl af því að við þurfum vinnuafl erlendis frá. Svo er annað í þessu að þetta fólk er ekki bara í hættu að brotið sé á því og aðbúnaðurinn sé verri heldur en Íslendinga í sömu störfum heldur er þetta fólk miklu líklegra til að lenda í vinnuslysum og það er annað sem er mikið áhyggjuefni.“

„Þeir tóku af mér peningana“

Undir lok viðtalsins voru spiluð hljóðbrot úr þætti kvöldsins þar sem einn útlendingur segir til dæmis í viðtali:  „Þeir tóku af mér peningana.“ Annar segir: „Ég vinn og geri hluti og það er komið fram við mann eins og skít.“ Enn annar segir: „Með þessi laun get ég ekki gert neitt.“
Svo heyrist einn Íslendingur, augljóslega yfirmaður eða einhver sem hefur hagsmuna að gæta, segja: „Eruð þið til í að hætta að taka upp?“

Helgi segir að vissulega sé þetta stundum óþægilegt. „Þessi tiltekni viðmælandi sagði reyndar: „Mér þykir þetta mjög óþægilegt.“ Ég sagði það reyndar líka, þetta er aldrei þægilegt en svona er þetta samt.“

Kveikur er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20:00. Hér að neðan má sjá stiklu úr þættinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga