fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Kolbrún húðskammar dónana – „Þeim er nákvæmlega sama þótt þeir hafi sært aðra“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. október 2018 09:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er dapurlegt þegar fólk sem gegnir nauðsynlegum störfum í þjóðfélaginu getur ekki, öryggis síns vegna, sýnt sig í mynd og talað undir nafni,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag.

Kolbrún vísar þar í umfjöllun Fréttablaðsins um helgina um stöðuverði, eða stöðumælaverði, sem lýstu þar ofbeldi, líflátshótunum, áreitni og lítilsvirðingu. Þeir sem blaðið ræddi við lýstu vanlíðan vegna framkomu vegfarenda í sinn garð. Þeir komu ekki fram undir nafni og mynd í umfjölluninni af þeirri ástæðu að þeir verða fyrir áreiti í vinnu sinnu. Lagðist yfirmaður þeirra gegn því að þeir töluðu undir nafni, til að tryggja öryggi þeirra.

Einn stöðuvörður, sem kölluð var Jóhanna, sagði meðal annars: „Við erum öll sammála um það hér að það eru helst karlar á aldrinum fimmtíu til sjötugs sem áreita og ógna. Þeir eru mestu dónarnir. En því miður eru stundum eldri konur líka dónalegar við okkur.“

Í leiðara sínum húðskammar Kolbrún dónana sem láta stöðuverði heyra það fyrir það eitt að sinna starfi sínu.

„Stöðumælaverðirnir lýstu því hvernig þeir hafa í störfum sínum orðið að þola að hrækt sé á þá, hrópað að þeim fúkyrðum, þeim ógnað og jafnvel hótað lífláti. Óneitanlega minna þessar lýsingar nokkuð á það sem lögreglumenn urðu að þola á upplausnartímum í hruninu, þegar mótmæli fóru gjörsamlega úr böndum. Ekki hefur verið haft fyrir því að biðja lögregluna afsökunar á þeim skrílslátum,“ segir Kolbrún og bætir við að að dapurlegt sé að fólk sem gegnir nauðsynlegum störfum í þjóðfélaginu geti ekki, öryggis síns vegna, sýnt sig í mynd.

„Því stafar ógn af samborgurum sínum, alls ekki mörgum, en samt nægilegum fjölda til að það hafi ástæðu til að hafa áhyggjur. Einn viðmælenda blaðsins segist þjást af kvíða í kjölfar hótana og áreitni og hefur leitað til sálfræðings. Allir ættu að geta sett sig í spor einstaklings sem þarf að mæta í vinnu og hafa áhyggjur af því hvernig viðmóti hann muni mæta þann dag, hvort einhver muni hella sér yfir hann og jafnvel hóta honum.“

Kolbún bendir á að skapgerð fólks sé vissulega mismunandi og það eigi misauðvelt með að sýna sjálfsstjórn.

„Auðvitað er best að sem flestir kunni sig, sem þýðir ekki að þeir megi ekki fyllast réttlátri reiði og láta í sér heyra. Það er allt annað en að taka æðiskast. Hins vegar er ekki öllum gefið að taka lífinu með ró og þeir sem eiga einna erfiðast með það eru einstaklingar sem láta sér á sama standa um líðan annarra og setja eigin þarfir ætíð í forgrunn. Þeir hafa einstakt lag á að leiða hjá sér viðteknar kurteisisvenjur, taka sín reglulegu frekjuköst og telja sig hafa fullan rétt á því. Þeim er nákvæmlega sama þótt þeir hafi sært aðra með framkomu sinni.“

Kolbrún endar svo grein sína á að of margir virðist ófærir um að setja sig í spor annarra.

„Vilji menn lifa í þokkalegri sátt í samfélagi við aðra verða þeir að geta sett sig í spor annarra. Framkoma eins og stöðumælaverðirnir lýstu í Fréttablaðinu er dapurlegt vitni um að of margir eru alls ófærir um það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”