fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Unnið að endurreisn WOW ?

Fréttir

Sagðir hafa stolið vélum og tækjum fyrir milljónir: „Lögreglan er alveg getulaus í þessu“

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 13. október 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Heilmiklu var stolið af mér,“ segir Ásgeir Gunnarsson úr Keflavík verulega ósáttur um vinnubrögð þeirra Halldórs Inga Ólafssonar og Lárusar Kristins Viggóssonar. Báðir tveir eru sakaðir um að hafa ítrekað stolið kerrum, vinnuvélum, fylgihlutum og verkfærum, svo nokkur dæmi séu nefnd, upp á fleiri milljónir króna. Þeir sem hafa gögn fyrir hinum meinta þjófnaði vilja meina að margir hafi lent í þessu. DV fékk í hendurnar lista yfir ýmsa einstaklinga sem sagt er að hafi verið svindlað á. Einn þeirra vildi ekki tjá sig við fjölmiðla og ekki náðist í tvo aðra.

Þá komst DV í samband við iðnaðarmann sem vildi halda nafnleynd. Sá maður kærði Halldór fyrir þjófnað á kerru og beið eftir niðurstöðu í tæplega tvö ár en ekkert var gert. Heimildarmaðurinn segist hafa leitað að kerrunni og á endanum fundið hana á haug þegar hann sá að skráningarnúmerið stemmdi við hans kerru.

„Þessir menn eru undir einhverjum verndarvæng hjá lögreglunni. Ég borgaði hundrað þúsund krónur í lögfræðing fyrir ekki neitt þegar ég kærði Halldór. Hann vísaði málinu á bug og yfirvöld sögðu mér að það væri erfitt að fá leitarheimild til þess að kanna svæðið heima hjá honum,“ segir heimildarmaðurinn.

 

Þjófnaðarslóð á Ísafirði

Halldór Ingi er skráður til heimilis á Ási á Hvammstanga, en heimildarmaðurinn segir hann ekki búa þar. „Hann er til húsa á Skógarási og býr þar með einhverri konu. Hann hefur aldrei búið á Hvammstanga.“

Samkvæmt heimildum DV eru tveir bræður Halldórs starfandi lögregluþjónar, en Lárus starfaði sjálfur sem lögregluþjónn á Grundarfirði á árum áður. Í kjölfar starfsloka gerðist Lárus eigandi fyrirtækisins Vörslusvipting hf. en afskráði fyrirtækið árið 2007. Þá stofnaði hann fyrirtækið LMS sem varð síðar að fyrirtækinu Vörslusviptingar ehf. til ársins 2010. Þá stofnaði hann innheimtuþjónustuna T-9 ehf.

Heimildarmenn DV segja að Halldór hafi gert að vana að leigja út vinnuvélar sem voru stolnar, að fela tæki víða og selja þau erlendis. Árið 1995 stofnaði Halldór fyrirtækið Flugkistur, sem varð síðar gjaldþrota árið 2005. Árið 2009 skráði hann fyrirtækið Vesturleiðir á sömu kennitölu, sem varð síðar að fyrirtækinu A&B ferðir árið 2011, sem sérhæfir sig jafnframt í leigu á vinnuvélum og tækjum.

Einnig stofnaði hann, árið 2011, Fjárfestingarfélagið Spotta, sem varð síðar að Iceland Sightseeing Tours. Í kringum 2014 stofnaði hann svo nýtt fyrirtæki undir nafninu Vesturleiðir og er það skráð á Akranesi. Halldór er líka sagður sjá um ferðaþjónustu og útkeyrslu fyrir veitingastað í Hafnarfirði og sé það allt saman greitt með svörtu samkvæmt heimildarmanni.

„Þetta er eitt stærsta þjófnaðarmál á tækjum og bílum sem ég hef vitað af. Halldór Ingi er búinn að vera að stela í áraraðir í skjóli nætur og það er þjófnaðarslóð eftir hann á Ísafirði. Hann er að fela dót í gámum á Skógarási, allt saman þýfi,“ segir heimildarmaður DV.

Þýfið við Hvalfjarðargöngin

Hvalfjarðargöngin Sagt að þar rétt hjá sé þýfið geymt.

„Ég skil ekki hvernig hann kemst upp með þetta,“ segir Sigurður Pétursson úr Kópavoginum um Halldór. Sigurður tekur fram að lögreglan hafi ekkert gert í málinu. Hann hefur kært Halldór en segir lögregluna hafa stungið kærunni undir stól því engin eftirfylgni eða þróun hafi verið í málinu.

Ásgeir segir sambærilegt tilfelli hafa komið upp hjá sér og telur lögregluna alveg getulausa þegar kemur að Halldóri og Lárusi. Heimildarmaður DV kærði Halldór einnig til lögreglu en hefur ekki fengið neina niðurstöðu úr því máli, en hann kærði Halldór fyrir tæplega tveimur árum.

„Ég á körfubíl hjá Halldóri sem ég fæ ekki til baka,“ segir Sigurður. „Ég veit nákvæmlega hvar þessi körfubíll er og ég hef margoft sagt lögreglunni frá því. Bíllinn er uppi á Kjalarnesi. Það er fullt af drasli þar og þar er bíllinn er falinn. Lögreglan tók meira að segja myndir af þessu dóti en það kom ekkert út úr því,“ segir Sigurður.

„Það liggur haugur af drasli fyrir utan Hvalfjarðargöngin og það halda flestir að það sé allt leifar frá því þegar göngin voru byggð. Það er alls ekki þannig,“ segir heimildarmaður DV og segir það ekki fara á milli mála að þarna liggi heilmikið af stolnum verkfærum og vélum.

 

Maður getur rétt ímyndað sér upphæðirnar“

„Halldór fór öðruvísi að hjá mér,“ bætir Ásgeir við. „Hann bauðst til þess að hjálpa mér og ætlaði að geyma fyrir mig ýmis tæki og tól. Síðan frétti af hann dóti sem konan mín átti og það var allt saman tekið og mér skilst að búið sé að selja það. Þetta var allt tekið og gert undir berum himni.“

Heimildarmaður DV, sem sjálfur segist hafa lent í stuldi frá framan nefndum mönnum, heldur því fram að stór hluti af þeim vinnuvélum sem A+B viðgerðir hafa leigt út sé þýfi.

„Halldór selur skráningar og hefur montað sig að því úti um allt. Þetta er allt þýfi, sem er brotið niður og svo selur hann skráningarnar. Hann hefur gortað sig af því að hann ætti 260 skráningar á tækjum. Maður getur rétt ímyndað sér upphæðirnar,“ segir heimildarmaðurinn, en segir einnig nafn Guðbjarts Hólm hafa komið upp í þessu braski. Guðbjartur hefur, að sögn heimildarmannsins, stolið af honum vélum fyrir fleiri milljónir króna.

 

Kveikt var í bifreið á lóð Guðbjarts.

„Þetta er búið að eyðileggja allt mitt líf“

DV birti frétt í ágúst þar sem Guðbjartur ræddi um sveitabæ í eigu hans á Kjalarnesi sem var lagður í rúst. Húsið var á sölu og verðlagt á 120 milljónir króna þegar atvikið átti sér stað og nam tjónið um tólf til fimmtán milljónum með öllu innbúi að sögn Guðbjarts.

Að sögn Guðbjarts hefur eflaust tekið margar klukkustundir að valda tjóninu miðað við umfang þess. „Þetta voru eins og náttúruhamfarir. Hreinlega ógeðslegt,“ segir hann og útilokar ekki að skemmdarvargurinn hafi verið haldinn öfundsýki, því allt hafi verið lagt í rúst, en engu stolið. „Þetta er búið að eyðileggja allt mitt líf,“ sagði Guðbjartur og taldi ekki ólíklegt að einhverjir nánir honum hefðu staðið að baki skemmdarverkunum. „Fólk getur verið vinir manns en síðan orðið hið andstyggilegasta þegar maður snýr við því bakinu.“

 „Algjörlega óafsakanlegt“

Árið 2002 birti Morgunblaðið aðsendan pistil eftir Berglindi Þórunnardóttur þar sem greinarhöfundur talar um samskipti nákomnar manneskju við Lárus hjá Vörslusviptingu. Greinin ber heitið Ófagleg framkoma og segir þar að Lárus hafi hreytt í viðkomandi alls kyns athugasemdum og sýnt merki um hroka og yfirgang. „Það að maður eins og Lárus Viggósson sem talar fyrir hönd síns fyrirtækis skuli leyfa sér að tala þannig til fólks og sýna slíka framkomu er algjörlega óafsakanlegt,“ segir í pistlinum.

„Þetta kallast ekki fagmannleg framkoma. Þessi umræddi ættingi minn brotnaði hreinlega niður eftir að hafa átt samskipti við þennan mann og grét það sem eftir lifði dagsins.“

Heimildarmaður DV er spurður út í þennan pistil og tekur undir þessi orð en bætir við að sambærileg hegðun hjá Lárusi sé algeng og slík sem aðrir sem hafa verið átt í samskiptum við hann eiga mikla reynslu af. Þá segist Sigurður hafa sjálfur lent í yfirgangi frá sama manni. „Ég lenti í Lárusi árið 2007. Það var vesen sem kom upp í gegnum félaga minn og Lárus hótaði mér öllu illu,“ segir hann.

Í bloggfærslu Þórdísar Bjarkar Sigþórsdóttur, sem hún birti árið 2011 á vefsíðu sinni, spyr hún: „Hver hefur eftirlit með Lárusi Viggóssyni vörslusviptingarhandrukkara sem þjónustar fjármögnunarfyrirtækin, er það Fjármálaeftirlitið? Hvaða starfsleyfi hefur Lárus eða Lalli handrukkari eins og hann er kallaður?“

Á því sama ári kom upp tilfelli þar sem Lýsing, fyrirtæki sem Lárus starfaði hjá, framkvæmdi vörslusviptingu á bíl fyrir mistök. Guðjón Guðjónsson sagði í samtali við Morgunblaðið að bíll eiginkonu sinnar hefði verið tekinn einn morguninn, þrátt fyrir að allt hafi verið gert upp og engin skuld hvíldi á honum. Sagði þá Guðjón að Lýsing hafi ekkert gert til þess að bæta hjónunum upp vandræðin, þó að bílnum hafi verið skilað stuttu eftir kvartanir hjónanna.

„Það er margbúið að segja að þessar vörslusviptingar séu ólöglegar,“ segir Guðjón og bætir við að það hafi kostað talsvert vesen þann morgun að ræða við Lýsingu og hann komið seint til vinnu þann dag.

Líta ekki á kærur

Á sama ári birti Örn Gunnlaugsson bloggfærslu þar sem Lárus er í brennidepli. Þar er honum lýst sem „handrukkara hjá Vörslusviptingu“.

Í færslunni segir: „Ekki veit ég betur en að Lalli handrukkari hjá Vörslusviptingum ehf. hafi í lok 2009 í umboði Lýsingar hf. vörslusvipt fyrirtæki í Hafnarfirði vél með gertæki – án dómsúrskurðar og einnig án þess að eiga nokkuð tilkall til þeirrar vélar. Lýsing hf. hafði reyndar aldrei komið nálægt fjármögnun þeirrar vélar eða haft nokkuð með hana að gera yfirleitt. Það voru sem sagt ekki mistök – þá hlýtur sá glæpur að hafa verið framinn vísvitandi. Forsvarsmaður fyrirtækisins sem var vörslusvipt kærði umrætt gertæki til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra en ekki bólar enn á neinum viðbrögðum þar á bæ, einna helst að aðeins hafi hækkað í hrotunum í því Þyrnirósarlandi. Ef starfsmenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja fremja glæpi þá virðist það reglan að láta slíkt afskiptalaust. Það sama á ekki við þegar smákrimmarnir eiga í hlut. Yfirlýsingum Lýsingar hf. ætti fólk að taka með miklum fyrirvara.“

Í nafnlausri athugasemd við færslunni er spurt af hverju ekki sé búið að „stinga þessu glæpahyski hjá Lýsingu í grjótið.“ Segir þar einnig að Hæstiréttur sé búinn að staðfesta að þarna sé búið að brjóta lög í áraraðir án þess að nokkuð sé gert og þarna fari skipulögð glæpastarfsemi fram. „Samt gengur þessi óþjóðalýður laus og heldur áfram að níðast á almenningi. Þyrnirósirnar hjá efnahagsbrotadeild líta ekki á kærur sem lagðar hafa verið fram gegn þessum pöddum.“

Samkvæmt heimildum DV þá sá Vörslusvipting ehf. meðal annars um vörslusviptingar fyrir Glitni á árunum í kringum aldamótin. Á árinu 2003 eða 2004 kom í ljós að eyðublöð Glitnis voru ekki með ákvæði um beina uppboðsheimild og því er líklegt að einhverjar af þeim bifreiðum sem vörslusviptar voru og seldar á uppboðum hafi verið vörslusviptar á ólöglegan hátt. Stefna hefði þurft einstaklingum fyrir héraðsdóm til að fá áritaða stefnu sem síðan væri grundvöllur uppboðsheimildar og vörslusviptingar í kjölfarið.

Ekki náðist í Halldór, Lárus eða Guðbjart við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

FréttirPressan
Fyrir 2 dögum

Þessi spurning leiddi til handtöku eiginmannsins, 38 árum eftir að hún hvarf

Þessi spurning leiddi til handtöku eiginmannsins, 38 árum eftir að hún hvarf
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur orðlaus: Vörur fyrirtækisins verði sniðgengnar – „Þessi hótun er með svo miklum ólíkindum“

Vilhjálmur orðlaus: Vörur fyrirtækisins verði sniðgengnar – „Þessi hótun er með svo miklum ólíkindum“
Fyrir 3 dögum

Sleppa við ábyrgð

Sleppa við ábyrgð
Fyrir 3 dögum

Spurning vikunnar: Á að banna nagladekk?

Spurning vikunnar: Á að banna nagladekk?
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Kolbeinn hvetur foreldra til að senda börn sín í sveit: „Honum fannst ég alger aumingi fyrst“

Kolbeinn hvetur foreldra til að senda börn sín í sveit: „Honum fannst ég alger aumingi fyrst“
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Björn Óli Hauksson lætur af störfum sem forstjóri Isavia

Björn Óli Hauksson lætur af störfum sem forstjóri Isavia